31.05.1985
Efri deild: 86. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5777 í B-deild Alþingistíðinda. (5099)

523. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 75 frá 14. sept. 1981, um tekju- og eignarskatt, með síðari breytingum.

Frv. þetta er flutt samhliða frv. til laga um húsnæðissparnaðarreikninga er ég mælti fyrir fyrr á þessum fundi. Hér er um að ræða þær nauðsynlegu breytingar sem gera þarf á lögunum um tekju- og eignarskatt. Gert er ráð fyrir að veittur verði 25% skattaafsláttur af því fé sem menn leggja á tekjuárinu inn á húsnæðissparnaðarreikninga í bönkum eða sparisjóðum. Ég vil vekja sérstaka athygli á því að sparnaður vegna húsnæðisöflunar þarf að vera bundinn samningi við banka eða sparisjóði eigi skattaafsláttur að fást. Verði vanskil á árlegu innleggi samkv. samningi getur skattaafsláttur minnkað eða jafnvel fallið niður. Verði frv. að lögum mun ég gera ráðstafanir til þess að þessi ákvæði verði sérstaklega kynnt þeim sem spara.

Áætlanir um tekjutap ríkissjóðs vegna þessa nýja kerfis hafa ekki verið gerðar, enda nær ógerningur að spá um það atriði fyrr en séð verður hvaða undirtektir þessi skipan fær hjá almenningi.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frv. þessu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hæstv. fjh.- og viðskn.