15.10.1984
Efri deild: 3. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 207 í B-deild Alþingistíðinda. (51)

10. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Það er kannske undarlegt að vera í orðræðum út af málum sem þessum þegar í þjóðfélaginu er beðið eftir því að fólkið fái sín einu réttu umboðslaun, fyrir sitt strit og starf, en vel að merkja er kannske hér einn angi þess, e.t.v. smár, sem veldur því að fólkið í landinu fær ekki sín laun svo sem vera skyldi, sína umbun, því að það gildir að margt smátt gerir eitt stórt.

Þetta er eðlilegt mál og sjálfsagt að það fái jákvæða umfjöllun. Í raun týndist það í kartöflufrelsinu í fyrra hjá hv. landbn. Eðlileg umboðslaun hljóta að vera sjálfsögð, en trúlega er það svo, hvort sem um innflutning eða útflutning er að ræða, að ærið langt kann að vera að því sé hlítt. Vöruverðið okkar almennt segir sitt, leiðir einnig hugann að því hvernig sumir aðilar taka allt sitt á þurru og eiga sinn oft rúma hlut vísan á meðan sjálf grunngreinin ber skarðan hlut, situr endanlega eftir, þegar allir aðrir hafa hirt sinn skerf.

Í landbúnaði okkar er þetta ekkert lakara að ég hygg en í öðrum greinum. Ljómandi sölur og fokhátt verð, sem stundum fæst fyrir dýrar úrvinnsluafurðir okkar tengdar landbúnaðinum, skila sér ekki til bóndans sem vöruna framleiddi og enn síður til iðnverkafólksins sem vann að því að gera vöruna svo verðmæta. Verðfall og slæmir markaðir eru hins vegar óspart tíunduð, m.a. þegar launakjör vinnandi fólks ber á góma.

Ég skal ekki ræða þetta einstaka mál út af fyrir sig. Ég átti reyndar von á því að frv. færi í okkar ágætu landbn. þar sem hv. 11. landsk. þm. stjórnar af alkunnri röggsemi. Ég heyri að hv. flm. telur að það sé svolítið hæpið, en ég fullvissa hann um að óhætt er að vísa málinu til landbn. núna því að það er búið að gera kartöfluna það mikið frjálsa og óháða að hún ætti ekki að þvælast fyrir eða standa í koki á mönnum núna eins og hún gerði í fyrra því allt lenti þetta þá í einum pakka. Og það er sérstök ástæða til að gaumgæfa þetta mál nú og fá ótvíræðar upplýsingar um þessi umdeildu umboðslaun.

En fyrst Framleiðsluráð landbúnaðarins ber á góma hér í frv., þá var það upplýst rækilega í fyrra að heildarendurskoðun ætti sér stað á lögunum um Framleiðsluráð landbúnaðarins. Og þegar hæstv. forsrh. og hv. aðstoðarmaður hans, hv. 1. þm. Suðurl., voru að dunda sér í sáttmálaleiknum í sumar bar þessi mál greinilega mjög á góma. Raunar mátti á niðurstöðum skilja að gífurleg uppstokkun og umbreyting væri í vændum. Reyndar átti það við um landbúnaðinn eins og hann lagði sig, enda ljóst að þeir félagar álitu hann frumvanda íslensks efnahagslífs og hefur það áður heyrst úr öðrum herbúðum og háværar mjög. Því vil ég nú spyrja hversu stjórnarflokkunum gangi með heildarendurskoðun laganna. Hér er hæstv. landbrh. og hér mun a.m.k. einn nm., hv. 11. landsk. þm., sem ég vissi raunar ekki að væri í svo góðum takt við niðurstöður sáttmálaleiksins eins og hann virtist vera. Um þetta hlýtur að vera spurt án þess að til allsherjarumr. sé efnt því að ekki hefur stjórnarandstaðan fengið að fylgjast þar með. Öll lagaendurskoðun á vegum hæstv. ríkisstj. er með því marki brennd að þar fá þeir einir um að véla sem innvígðir kallast. En því frekar er þörf að spyrja og ég vildi beina fsp. til hæstv. landbrh. um það: Hvað líður heildarendurskoðun laganna um Framleiðsluráð landbúnaðarins og hvenær er þess að vænta að frv. um það verði lagt fyrir hið háa Alþingi?