05.11.1984
Neðri deild: 9. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 760 í B-deild Alþingistíðinda. (510)

8. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Þetta hefur verið fróðleg umr. Ég held að það sé, áður en við ræðum um einstök atriði sjálfs frv. og einstaka punkta sem hafa komið fram í máli ræðumanna, ástæða til að líta í kringum sig og athuga hvað gerist almennt í þjóðmálum bæði hérlendis og erlendis.

Það er mjög áberandi að hvert sem litið er er vilji og viðleitni til að dreifa valdi. Við sjáum þetta fyrir okkur víða, bæði hér á Íslandi og í útlöndum. Við sjáum þetta t.d. hérna á Íslandi. Menn viðurkenna að með breyttum atvinnuháttum, breyttri tækni, breyttum lífsháttum og breyttum kröfum, sem fólk gerir til sín og annarra, er uppi mjög sterk viðleitni til að færa ákvarðanatöku og áhrif um ýmislegt sem líf okkar varðar nær fólkinu sjálfu. Þannig eru t.d. sveitarfélög eða samtök sveitarfélaga sífellt að taka við verkefnum frá ríkisvaldi vegna þess að þau hafa orðið aðstöðu, þekkingu og vilja til að sinna þeim. Þetta sést t.d. víða erlendis í því að þar hefur verið lengi mjög virk stefna sem hefur verið kennd við það að smátt sé fagurt, þ.e. þar hefur verið virk sú stefna að færa bæði völd og fé nær einstaklingum, til samtaka þeirra, til fyrirtækja og annarra sem næst verkefnunum standa. Við höfum séð þetta t.d. á blaðamarkaði. Gífurlega mikið er orðið til af sérritum og sums staðar erlendis er því spáð að stórblöðin eins og við þekkjum þau muni hverfa. Það er orðið til mikið af sérrásum í sambandi við útvarp eða sjónvarp. Það sem skiptir máli í þessu sambandi eru hin óbeinu tengsl sem þetta hefur við vinnustaðafrv., sem sé að fólk vill fá að hafa meira um sín eigin mál að segja og það vill að þau standi sér nær.

Í öðru lagi held ég að ef við víkjum að sjálfum umræðum um kjarasamninga sé mjög mikilvægt að gera sér grein fyrir því að afkoma fyrirtækjanna, sem verið er að semja um launin hjá, er mjög mismunandi. Það hefur margsinnis komið í ljós á undanförnum misserum hér að t.d. í sjávarútvegi er afkoma fyrirtækjanna svo mismunandi að undrun sætir. Það munar stórkostlegum upphæðum á því hverju einstök fyrirtæki skila í ágóða. Þegar fyrirliggjandi eru svona miklar upplýsingar um mjög mismunandi afkomu fyrirtækja hlýtur að liggja í hlutarins eðli að við verðum að taka tillit til þess þegar samið er um laun fólks sem vinnur hjá þessum fyrirtækjum. Við getum ekki horft annars vegar á fyrirtæki sem svona mismunandi afkomu hafa og sett síðan á þau gömlu góðu meðaltalsregluna og sagt: Þið eigið öll að borga þetta kaup. — Á endanum hjálpar þessi meðaltalsleið til við að halda lífi í illa reknum og ónýtum fyrirtækjum og losar þau sem betur eru rekin undan því að greiða starfsfólki sínu réttlátan hluta í afurðum rekstrarins. Út frá þessum sjónarhóli einum er því augljóst að samningar um kaup og kjör hljóta að verða að taka meira mið af einstökum fyrirtækjum af því að ekki er hægt að setja öll fyrirtæki undir einn hatt. Þau eru eins mismunandi og þau eru mörg.

Ef við göngum út frá því að finna verði leið til þess að nálgast hvert fyrirtæki á þennan hátt til þess að ná því sem það getur lagt af mörkum, þá kann menn að greina á um leiðir. Að okkar mati er sú leið langvirkust að það sé starfsfólkið sjálft, sem vinnur hjá fyrirtækinu, — fólkið sem veit hvernig reksturinn gengur, fólkið sem veit hversu mikið liggur fyrir af pöntunum, sem semur um launin. Fólk sér umsvif fyrirtækisins. Fólk sér afkomu fyrirtækisins birtast á ýmsan hátt, kannske í Range Rover-kaupum forstjórans. Þetta fólk á náttúrlega að setjast niður og semja formlega um sín laun. Það er enginn til þess bærari og það hefur enginn betri vitneskju um afkomu fyrirtækisins en þetta fólk sjálft. Þetta er að okkar mati lykilatriði málsins, að þeir sem hjá fyrirtækjunum vinna eru allra manna til þess best bærir að meta hverju fyrirtækin skuli skila starfsfólkinu til baka. Þetta held ég að sé afskaplega mikilvægt atriði.

Það má taka um þetta ýmis dæmi. Þar sem þetta hefur verið reynt hérlendis, eins og í Straumsvík og á Grundartanga, sýnir það sig að laun eru almennt hærri en er á almennum markaði og í öðru lagi er launajöfnuðurinn innan vinnustaðarins meiri. Þeir sem í öðrum samningakerfum koma undir sérsamninga t.d. verkamannafélaga, Sóknar eða Dagsbrúnar eða slíkra, fylgja með í heildarsamningapakkanum og afkoma ýmissa slíkra hópa, sem stundum eru kallaðar láglaunastéttir, verður betri með þessu fyrirkomulagi en ella.

Í öðru lagi hafa menn haft við þessar aðstæður talsverðar áhyggjur af því hvað mundi gerast á smæstu stöðunum ef fólk fengi að semja um sín laun sjálft. Reynslan er sú, ef litið er á launaskrið eða yfirborganir eins og núna tíðkast, að á smæstu vinnustöðunum eru yfirborganir hvað mestar. Þar sem tengsl eigenda eða yfirmanna og almenns starfsfólks eru mest nýtur fólk oft bestra kjara. Þó að áhyggjur af afkomu smærri staðanna eigi vissulega rétt á sér er alls ekki hægt að segja að neitt bendi til þess að fólk á smærri vinnustöðum fari neitt verr út úr slíku fyrirkomulagi en hinir.

Ég vík þá að ýmsum athugasemdum sem komu fram hérna hjá hv. þm. Karvel Pálmasyni. Reyndar snertu fæstar þeirra sjálf efnisatriði þessa máls. Það má eiginlega flokka þessar athugasemdir í nokkra flokka. Fyrsti flokkurinn af athugasemdum gekk út á það að viðkomandi framsögumaður hefði ekkert vit á því sem hann væri að segja. Það heyrist að vísu oft sú nauðhyggja hér í þingsölum að menn eigi að halda sér saman um allt annað en þeir hafa einhvern tilskilinn stimpil til. Hv. þm. Karvel Pálmason hefur reynslu í verkalýðsmálum og er víst, að hans mati, fullfær um að tjá sig um þessi mál. Hins vegar hefur hv. þm. sem betur fer verið óspar á að tjá sig í ýmsum öðrum málaflokkum þó að ýmsir mundu segja að skort gæti sérstaka sérfræðiþekkingu. Mergurinn málsins er sá að ekki er gerð til slíkrar sérfræðiþekkingar nein krafa á Alþingi. Við erum að reyna að vinna á öðrum vettvangi. Ég veit ekki hvort hv. þm. hefur oft byggt Seðlabanka, en hann hefur mjög oft úr þessum stól haft uppi aths. um hvernig málin gangi fyrir sig þar. Aths. hans um reynsluleysi eru því ómerkar.

Í öðru lagi talaði hv. þm. mjög um að þessar till. væru óskynsamlegar án þess að tilgreina nákvæm dæmi um hvers vegna. Þær aths. falla líka ómerkar. Ef tekið er mið af almennum vinnumarkaði hér er afkoma fyrirtækja svo ólík, eins og t.d. í sjávarútvegi, að full ástæða er til að finna til þess virka og formlega leið að launþegar geti gengið að sínum réttmæta arði hjá fyrirtækjum sem geta skilað honum. Þetta er ein leið til þess. Við Bandalagsmenn erum fúsir til að hlusta á aðrar tillögur, en þær hafa ekki komið fram.

Einn flokkur aths. sem fram komu var að með þessu yrði verkalýðshreyfingin samsett af fleiri og smærri einingum. Ef við tökum þetta út af fyrir sig gerist það að viðsemjendum verkalýðshreyfingarinnar, atvinnurekendum, fjölgar líka vegna þess að fyrir hvern vinnustað sem ákveður að semja sjálfur kemur einn vinnuveitandi sem semur á þeim vettvangi. Ef menn vilja halda því fram að samningsaðilar í verkalýðshreyfingunni verði fleiri og smærri verða þeir líka að taka með í reikninginn að þeir verða það líka vinnuveitendamegin.

Því var haldið fram að smæð verkalýðsfélaga mundi leiða til þess að fólk bæri minna úr býtum, en það er alls ekki rétt. Við höfum, eins og ég sagði áðan, ýmsar vísbendingar um að kjör fólks, eins og núna er þar sem launaskriðið er, séu kannske með bestu móti á smæstu vinnustöðunum þar sem tengsl milli manna eru kannske mest og best.

Ég held að ég fari að láta máli mínu lokið. Ég held að hv. þm. Karvel Pálmason ætti að líta á þann raunveruleika sem við okkur blasir. Verkalýðshreyfingin, sem um áratugi hefur barist við að reyna að rétta hlut þeirra sem verst eru settir, á greinilega langt í land. Hún þarf greinilega að taka upp aðrar baráttuaðferðir eða aðrar forsendur. Ég held að það sé verðugt verkefni fyrir alþm. að sinna því að leita að og móta nýjan vinnugrundvöll. Í þessum hugmyndum okkar Bandalagsmanna er enginn skyldaður til neins. Það er enginn skyldaður til að stofna vinnustaðafélag. Mönnum er það einungis heimilað með lýðræðislegum kosningum á vinnustaðnum ef þeir telja að það muni skila þeim betri árangri. Ég tel að það beri enn þá frekar vott um vanþekkingu og fordóma að reyna ekki að stíga ný skref og að reyna ekki nýjar leiðir. Það er staðreynd að einungis með því að prófa sig áfram, einungis með því að breyta munum við taka einhverjum framförum.

Síðustu orð hv. þm. Karvels Pálmasonar um að verðugustu verkefnin séu þau að stækka einingarnar og fækka þeim eru mér áhyggjuefni. Það gengur þvert á móti öllu því sem er að gerast að öðru leyti í okkar þjóðlífi þar sem tilhneigingin er til valddreifingar, tilhneigingin er sú að færa völd og áhrif nær fólkinu. Eins og kemur fram í fskj. þessa frv. hefur það verið viðfangsefni hugsuða verkalýðshreyfingarinnar, sem hv. þm. mundi væntanlega flokka fyrir ofan meðalgreinda menn, það hefur verið þeirra viðfangsefni og þeirra hugsun að vinnustaðurinn sjálfur eigi að vera einingin sem starfsemi hreyfingarinnar snýst um.