31.05.1985
Efri deild: 86. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5779 í B-deild Alþingistíðinda. (5108)

478. mál, tónlistarskólar

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Það er örstutt aðeins. Það er óhjákvæmilegt að koma upp og fagna þessu frv. sem ég held að sé mjög bættur starfsrammi fyrir tónlistarskólana í landinu almennt og nauðsynlegur, eins og hæstv. ráðh. kom inn á, til einföldunar og um margt skýrari framsetningar á ýmsum atriðum sem ágreiningur hefur jafnvel verið um.

En um þetta mál ætlaði ég fara almennum orðum af því að tónlistarskólar eru hér á dagskrá.

Tónmennt hefur löngum staðið of höllum fæti í okkar skólakerfi og verið talin til þeirra greina, t. d. á grunnskólastigi, sem gjarnan mætti setja til hliðar, gjarnan mætti jafnvel sleppa. Það var a. m. k. ríkjandi skoðun allt of lengi, því miður. Þar hefur mikil og góð breyting orðið á og nú skipar tónmennt víðast veglegan sess. Ég er máske ekki alveg viss um eða nógu viss um að söngnum sem slíkum séu gerð nægileg skil. Þá á ég við hinn frjálsa almenna söng þar sem allir eða nær allir mega njóta sín. Ég vara nefnilega við því að tónfræði, svo góð sem hún er, og nám í hljóðfæraleik, svo ágætt sem það er einnig, yfirskyggi alveg sönginn, hinn lifandi söng sem þarf að óma sem allra víðast í skólunum. Hér ræðum við að vísu um tónlistarskólana alveg sér í lagi.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar og ítreka hana hér að tengja þurfi sem allra best nám í tónmennt við grunnskólann þannig að samstarf sjálfstæðs tónlistarskóla og grunnskóla sé sem allra best. Víða er þetta í lagi, en sums staðar ekki. Mér sýnist sumt í þessu frv. eiginlega knýja á um að eðlilegt samstarf um þetta geti tekist. Ég flutti um þetta till. hér á Alþingi og fékk samþykkta þál. í þá veru þar sem áherslan var reyndar einnig á eflingu tónlistarfræðslu í sérskólum. Nær eins till. kom svo síðar fram frá hv. þáv. þm. Sigurlaugu Bjarnadóttur og var einnig samþykkt hér. Ég ítreka þessa skoðun mína hér, þegar þessi mál eru enn einu sinni til umfjöllunar, og vitna gjarnan til ýmissa staða á landsbyggðinni þar sem þetta hefur gefið góða raun. Hér hefur um margt verið myndarlega á málum tekið og því ber að fagna.

En ég ítreka verðugan þátt söngsins í þessari heildarmynd og vona að honum verði ekki gleymt. Ég vitna gjarnan til frænda míns, sem er 12 ára, sem leikur þegar á tvö eða þrjú hljóðfæri mjög þokkalega, en söngur er honum víðs fjarri, aukaatriði sem hann hefur ekki sinnt og ekki verið látinn iðka að neinu ráði. Tónlistaráhugi okkar Íslendinga er sagður mikill. Ég efast ekkert um það. Ég amast síður en svo við æðri tónlist, unnendum hennar og njótendum þó að ég segi það enn að hin almenna þátttaka fólks í söng og tónlist almennt skipti hér mestu. „Blindur er bóklaus maður“ var sagt. „Sárt er sönglaus maður leikinn“ gæti ég sagt sem nokkra hliðstæðu í þessum efnum.

Um efnisatriði þessa frv. ræði ég ekki. En mér er kappsmál að þetta fái hér sem skjótasta afgreiðslu og vænti hins besta af samþykkt þessa frv., svo mjög sem þörf er á einföldun og skýrari framsetningu ýmissa þeirra atriða sem hafa verið ágreiningsatriði og mér sýnist leyst hér úr með skaplegum hætti.