05.11.1984
Neðri deild: 9. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í B-deild Alþingistíðinda. (512)

8. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég skal ekki lengja þetta mikið.

Hv. þm. Ellert Schram vitnaði hér til Alþýðusambands Vestfjarða um að það samband hefði haft sérstöðu í samningum áður. Það er út af fyrir sig rétt. Hér er ekki um að ræða að sérstök sambönd verði sér. Hér er gerð tillaga um að 25 menn á sama vinnustað geti tekið sig út úr því stéttarfélagi sem þeir nú tilheyra og stofnað sérstök samtök. Það er því verið að veikja stöðu stéttarfélaga verði þetta gert. Ég held að það hljóti hver og einn að sjá. Ég er að tala um það sem ég þekki best, hina smærri staði. Vera kann að þetta geti frekar og geti hugsanlega orðið til góða á hinum stærri stöðum, í hinum stærri félögum, en hin smáu félög, ef með þessum hætti yrði brotist út, mundu verða gersamlega vanmáttug til þess að standa í stykkinu og framkvæma það sem þeim ber. Það er sú hætta sem ég a.m.k. sé í þessu máli fyrst og fremst. Þetta veikir þá sem eru þegar veikir fyrir.

Að vísu var hv. þm. Ellert Schram ekki á síðasta þingi og þarf þá að kynnast því enn betur, en það er síður en svo að ég sé viðkvæmur fyrir gagnrýni. Ég vil að menn tali hreint út og segi sína skoðun. En að sjálfsögðu áskil ég mér þá rétt til að segja mína skoðun á móti. Það getur enginn bannað. Ég hverf ekki frá því að ég tel, a.m.k. skv. þeirri reynslu sem ég hef af þessum málum, að hér sé um það að ræða að veikja þá sem eru veikir fyrir, en vera kann að þetta skipti ekki miklu máli fyrir hina. Þó sé ég ekki að þetta mundi bæta ástandið og færa þeim bætt kjör sem hafa þau verst fyrir.

Valddreifing, sagði hv. þm. Guðmundur Einarsson, færa valdið nær fólkinu. Síður en svo hef ég á móti því að það verði gert. En ég tek undir það, sem hv. þm. Svavar Gestsson sagði hér áðan, að valdið er auðvitað hjá fólkinu. Hvert og eitt einasta stéttarfélag hjá Alþýðusambandi Íslands hefur þann rétt að semja á þann hátt sem það kýs sjálft og það fólk sem í félaginu er vill að verði gert. Þannig má segja: Valdið er hjá þessu fólki nú þegar. Það er svo spurningin hvort það vill nota það. Auðvitað eru misjafnar skoðanir á því hvernig það hefur verið notað, en valdið er þar.

Það er rétt hjá hv. þm. Guðmundi Einarssyni að það þarf enga sérfræðiþekkingu til að sjá að seðlabankabyggingin var vitlaus bygging á vitlausum tíma. Það held ég að allir geti verið sammála um. En ég er ekki jafnsannfærður um að þeir hv. þm. sem ekki hafa kynnt sér starfsháttu og starfsemi hinna einstöku stéttarfélaga innan Alþýðusambandsins séu jafndómbærir á að segja til um hvað kynni að verða til hins betra í breyttum starfsháttum þar. Ég dreg það mjög í efa. Ég held að í því tilfellinu þurfi menn, ef ekki að fá reynsluna sjálfir, þá a.m.k. að kynna sér starfsháttuna til hins ýtrasta áður en þeir fella dóm um hvernig slíku hefur verið farið á undangengnum árum og áratugum.

Menn segja að þetta frv. hafi fengið harkalegar viðtökur. Það má vera. Og menn segja líka: Fólkið vill þessa breytingu. Fólkið vill hafa málið svona. Nú er mér um það kunnugt að tvö frv.; bæði það sem hér er nú til umr. og annað svipaðs efnis, sem áður hefur verið flutt, hafa verið rædd í fjöldamörgum stéttarfélögum, en ég veit ekki um neitt einasta stéttarfélag, þar sem þetta hefur verið rætt á félagsfundum, sem ályktað hefur á þann veg að til þessarar breytingar eigi að grípa. — Fólkið sjálft, segja menn. Það er einmitt fólkið sjálft sem segir til um hvað það vill. Mér vitanlega hefur ekkert stéttarfélag innan Alþýðusambands Íslands ályktað í þá veru að það óski slíkrar breytingar á lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur. Ég veit ekki til þess. Það má vera að það finnist einhver slík dæmi, en sé svo eru þau mér ókunn og ábyggilega fá. Ég held ekki að menn geti sagt að það séu einstakir forustumenn, sjálfskipaðir forustumenn eins og hv. þm. Ellert B. Schram sagði hér áðan, úr verkalýðshreyfingunni. (Gripið fram í: Sjálfskipaðir talsmenn.) Sjálfskipaðir talsmenn. Hafa skal það sem sannara reynist. — Ég held að það sé ekki rétt að segja að eingöngu sjálfskipaðir talsmenn verkalýðsforustunnar hafi ýmislegt við þetta mál að athuga. Ég held að reynslan í umræðunni í þjóðfélaginu, í umræðunni hjá stéttarfélögunum sjálfum hafi sýnt að félagsfólkið sjálft telur þessa breytingu ekki til hins betra frá því sem nú er. Það er auðvitað það fólk sem á að ráða ferðinni í þessum málum, en ekki sjálfskipaðir talsmenn, eins og menn segja nú, hvorki stjórnmálaflokka né einstakra stétta, hvort sem um er að ræða lögfræðinga eða annað slíkt. Það eru félagsmennirnir, hinir óbreyttu félagsmenn í hinum fjöldamörgu stéttarfélögum innan verkalýðshreyfingarinnar, sem fyrst og fremst eiga að hafa áhrif á hvað þeir vilja að gert verði til breytinga.