31.05.1985
Neðri deild: 79. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5784 í B-deild Alþingistíðinda. (5123)

164. mál, kerfisbundin skráning á upplýsingum

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Ég tek til máls vegna brtt. sem ég flyt við það mál sem er hér á dagskrá. Þetta er brtt. sem kom nokkuð seint fram og ekki hefur gefist mikið tóm til að skoða. Ég hef hins vegar orðið var við að það er mjög mikill áhugi hjá þm. úr öllum flokkum á þessu máli og að þeirra mati er fyllsta ástæða til að líta vandlega á þetta. Ég hef því ákveðið að draga þessa till. til baka en lýsi því um leið yfir að ég hyggst flytja hana á þinginu í haust að öllu óbreyttu. Ég tel að þetta mál þurfi að skoða mjög vandlega. Fram hefur komið sú hugmynd að dómsmrn. hugi sérstaklega að málinu nú í sumar, vinni kannske undirbúningsvinnu eða safni gögnum og upplýsingum. Ég tel þá hugmynd mjög góða. Hún má hins vegar ekki verða til þess að málið lendi í útideyðu eins og oft vill verða þegar rn. taka að sér að athuga mál og þau fá síðan ekki framgang í þinginu vegna þess að þau eru í skoðun úti í bæ. Ef af því yrði af hálfu dómsmrn. að kanna þetta mál tel ég hægt að gera það snöfurlega, en ef af því verður ekki mun ég flytja þetta sem sérstaka brtt. á næsta þingi.