31.05.1985
Neðri deild: 79. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5784 í B-deild Alþingistíðinda. (5125)

106. mál, tannlækningar

Frsm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Mál það sem hér er til umr. er komið frá Ed. og hefur þar hlotið mjög ítarlega meðferð. Heilbr.- og trn. Ed. kallaði til sín ýmsa sérmenntaða menn og fékk margar umsagnir, enda ber frv. það með sér að það hefur verið vandlega skoðað sem kom frá þessum sérfróðu mönnum því að margar brtt. voru samþykktar við frv. Ed.

Heilbr.- og trn. Nd. hefur farið ítarlega yfir þetta mál og komist að þeirri niðurstöðu að þessar breytingar séu allar til bóta utan ein. Formaður nefndarinnar ræddi við þá menn sem komu á fund heilbr.- og trn. Ed. Brtt. komu frá enn einum aðila en nokkuð seint. Ekki þótti ástæða til að taka þær til frekari afgreiðslu. Það sem við í heilbr.- og trn. Nd. höfum fundið að er að horfið er frá upprunalegu orðalagi varðandi erlenda ríkisborgara sem koma til starfa í þessari grein hér á landi. Í upprunalega frv. var ákvæði þess efnis að sé um erlendan ríkisborgara að ræða skuli hann enn fremur sanna fullnægjandi kunnáttu sína í íslenskri tungu.

Ed. sá ástæðu til að breyta þessu á þann veg að í frv. stendur núna, með leyfi forseta: „Sé um erlendan ríkisborgara að ræða skal hann enn fremur sanna fullnægjandi kunnáttu sína í íslensku máli, mæltu og rituðu.“ Við teljum að með þessu sé algerlega verið að umturna þeirri hugsun sem á bak við þetta ákvæði lá. Við álítum ekki mögulegt að gera þessar kröfur til erlends manns, við skulum segja t. d. frá einhverri Norðurlandaþjóðanna, sem kæmi hingað og ynni að tannlækningum, gæti talað málið og hefði hæfan íslenskan aðstoðarmann eins og krafist er samkvæmt lögum. En ef þessu ákvæði væri strangt eftir fylgt væri þetta útilokað að slíkur maður gæti starfað hér. Við vorum því sammála um það í heilbr.- og trn. að leggja til að fyrra orðalag verði haft varðandi þetta atriði. Með brtt. á þskj. 1043 leggjum við til að þessi málsgrein orðist svo, með leyfi forseta:

„Sé um erlendan ríkisborgara að ræða skal hann enn fremur sanna fullnægjandi kunnáttu sína í íslenskri tungu.“ Við mælum með samþykki frv. með þessari einu breytingu.