31.05.1985
Neðri deild: 79. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5785 í B-deild Alþingistíðinda. (5127)

487. mál, þörungavinnsla við Breiðafjörð

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Á þskj. 898 flyt ég frv. til laga um breytingu á lögum nr. 107 frá 27. desember 1973, um þörungavinnslu við Breiðafjörð.

Með frv. þessu er lagt til að lögum um þörungavinnslu við Breiðafjörð verði breytt þannig að ríkisstj. verði veitt heimild til að semja við hlutafélag, sem aðilar í Austur-Barðastrandarsýslu hafa haft forgöngu um að stofna annan hvítasunnudag, um að það kaupi eða leigi eignir Þörungavinnslunnar hf. Gert er ráð fyrir að sú kvöð verði á eignunum að þær verði nýttar við þörungavinnslu á Reykhólum. Verði um sölu að ræða er gert ráð fyrir að Þörungavinnslunni hf. verði slitið skv. XIV. kafla laga nr. 32/1978, um hlutafélög, þó þannig að ríkissjóður greiði allar réttmætar kröfur á hendur félaginu aðrar en hlutafé, en yfirtaki jafnframt eignir þess.

Þá er og gert ráð fyrir að heimilt verði að lána kaupendum andvirði eignanna til allt að 15 ára og að lánið megi vera víkjandi, þannig að greiðsluskylda verði háð afkomu hins nýja fyrirtækis. Enn fremur er lagt til að heimilt verði að semja svo um að leiga, ef um leigu á eignunum verði að ræða, gangi upp í kaupverð eignanna, þ. e. að gerður verði kaupleigusamningur.

Rekstur Þörungavinnslunnar hefur gengið erfiðlega frá upphafi eins og fram kemur á yfirliti sem merkt er fskj. nr. I, og hefur fjárhagsstaðan farið síversnandi. Á miðju ári 1984 var áætlað að tap fyrirtækisins fyrir það ár yrði um 10 millj. kr. Reikningsskil fyrirtækisins í árslok 1984 leiddu hins vegar í ljós mun verri afkomu en gert hafði verið ráð fyrir.

Með þeirri skuldabyrði sem hér er um að ræða er útilokað að koma fyrirtækinu á réttan kjöl miðað við núverandi rekstur. Skammtímaskuldir og viðskiptaskuldir eru það miklar að stöðvun fyrirtækisins er fyrirsjáanleg alveg á næstunni verði ekkert að gert. Þess vegna er uppgjör á fyrirtækinu óumflýjanlegt og bráðaðkallandi.

Þörungavinnslan var upphaflega sett á fót fyrir athygli margra aðila en með verulegri þátttöku ríkisins. Þegar fyrirtækið hefur lent í erfiðleikum hefur jafnan verið sótt til ríkisins um aðstoð og leiðsögn og nú er svo komið að ríkið á 97% hlutafjár. Ríkið er í ábyrgð fyrir langtímaskuldum fyrirtækisins. Ríkið hefur á undanförnum árum lagt að lánardrottnum að ganga ekki að fyrirtækinu þótt það hafi í raun verið gjaldþrota og verður þannig að teljast í siðferðilegri ábyrgð fyrir viðskiptaskuldum. Nú, þegar staða fyrirtækisins er slík að það er gjaldþrota í öllum venjulegum skilningi þess hugtaks, á ríkið um fjóra meginkosti að velja:

1. Leggja aukið fé í fyrirtækið til þess að halda rekstrinum í óbreyttu formi í þeirri von að hagnaður verði af rekstrinum og fyrirtækið geti greitt áhvílandi skuldir.

2. Láta fyrirtækið verða formlega gjaldþrota og taka á sig öll þau áföll sem því fylgja.

3. Reyna að selja hlutabréf í fyrirtækinu innlendum eða erlendum aðilum án undangengins uppboðs í eigum eða fjárhagslegs uppgjörs.

4. Gera núverandi félag upp og afhenda heimaaðilum eignir fyrirtækisins til rekstrar eða yfirfæra reksturinn til sömu aðila skv. leigusamningi.

Hvað fyrsta kostinn áhrærir, þ. e. að leggja aukið fé inn í fyrirtækið í óbreyttu formi, mundi sá kostur e. t. v. kosta ríkissjóð minni fjárútlát í fyrstu en sá kostur sem lagður er til í frv, þessu. Áframhaldandi fjárframlög úr ríkissjóði til fyrirtækisins í óbreyttu formi mundu viðhalda núverandi ástandi og ekki leysa neinn vanda til frambúðar.

Þrautalendingin fyrir ríkissjóð er að sjálfsögðu sú að hætta öllum tilraunum til þess að halda rekstrinum gangandi og framselja hlutafélagið til gjaldþrotaskipta og láta selja eignir búsins á nauðungaruppboði í samræmi við ákvæði gjaldþrotaskiptalaga. Ef fyrirtækinu yrði lokað og það missti þá fótfestu á mörkuðum sem það hefur náð getur tekið langan tíma að koma því af stað aftur. Slíkt yrði til mikils tjóns fyrir sjálfan reksturinn svo ekki sé talað um nærliggjandi byggð sem stendur og fellur með áframhaldandi rekstri fyrirtækisins. Þess má og geta að skv. síðustu opinberu tölum, þ. e. fyrir árið 1982, má rekja 24% launa í Austur-Barðastrandarsýslu beint til Þörungavinnslunnar.

Í þriðja lagi bendi ég á að reyna mætti að selja hlutabréf fyrirtækisins innlendum eða erlendum aðilum. Með núverandi skuldabyrði virðist það borin von að hægt sé að ná inn nýju áhættufé í reksturinn. Eignir eru verðlitlar og fyrirsjáanlegt er að ríkið þyrfti á endanum að yfirtaka skuldir fyrirtækisins. Jafnframt mundi þessi kostur ekki samrýmast áformum stjórnvalda um að yfirtaka fyrirtækisins skuli fela í sér kvöð til áframhaldandi þörungavinnslu.

Fjórði kosturinn, sem felst í því að yfirfæra reksturinn til heimaaðila, er sá sem talinn hefur verið álitlegastur. Valið á honum byggir á þeirri trú að aukin ábyrgð heimamanna sé árangursríkust til að framkvæma og fylgja eftir þeim breytingum á rekstri fyrirtækisins sem nauðsynlegar eru til að fyrirtækið geti skilað arði. Með þessum hætti er jafnframt best stuðlað að eflingu byggðar í Austur-Barðastrandarsýslu, en það var eitt aðalmarkmið með þátttöku ríkisins í rekstrinum í upphafi.

Eins og ég gat um hér að framan er einn kostur ríkisins sá að selja eignirnar án frekari kvaða á þeim. Hafa ber í huga að verulegur hluti eignanna eru lausafjármunir sem selja mætti úr héraði. Það hefur hins vegar afgerandi áhrif á verðmæti eigna fyrirtækisins ef ríkið með tilliti til byggðarlagsins og annarra sjónarmiða afhendir þær nýjum aðilum með kvöð um áframhaldandi þörungavinnslu. Þá skiptir fyrst og fremst máli mat á arðsemi þörungavinnslu á Reykhólum. Sé höfð hliðsjón af rekstrarafkomu fyrirtækisins frá stofnun væru eignirnar trúlega allt að því verðlausar, þ. e. sem arðgefandi fjárfesting.

Eftir yfirfærslu eignanna til heimamanna ætti að vera mögulegt að bæta afkomu verksmiðjunnar með aukinni hagkvæmni í rekstri, sérstöku markaðsátaki, auknu almennu aðhaldi heimaaðila að rekstrinum, lækkun aðstöðugjalds og minni skuldabyrði. Er því ljóst að ríkið verður að gera um það kröfu, þrátt fyrir kvöð um að eignirnar verði nýttar í þágu þörungavinnslu við Breiðafjörð, að greitt verði að hluta fyrir eignirnar skv. bættum rekstrarhorfum, þ. e. í formi víkjandi lána. Í því sambandi yrði höfð hliðsjón af verðmæti eignanna ef þær væru seldar úr héraði kvaðalaust.

Ef gerður yrði leigusamningur um eignirnar mundi hið nýja hlutafélag í raun vera stjórnunarfyrirtæki frá upphafi. Í því tilviki er gert ráð fyrir að Þörungavinnslan hf. yrði áfram sem lögaðili og að leiguandvirði gengi til að greiða af áhvílandi lánum sem ekki yrðu yfirtekin af ríkissjóði í tengslum við samninga um eignayfirfærslu. Jafnframt er gert ráð fyrir að hluti leigu gæti gengið til greiðslu kaupverðs, kjósi félagið að kaupa eignirnar. Mætti hugsa sér að leigan yrði í tveimur þáttum. Annars vegar að grunngjald yrði ákveðið sem hundraðshluti af einingarverði eða söluverði sem samningar tækjust um. Sá þáttur gengi til greiðslu fastakostnaðar af eignunum og greiðslu hluta núverandi lána. Hins vegar yrði um leiguþátt að ræða er tæki mið af afkomu. Semja mætti um að sá hluti leigunnar komi til frádráttar fyrirfram ákveðnu kaupverði tækjust um það samningar.

Með samningum um yfirtöku heimamanna á rekstri þörungavinnslu á Reykhólum er nauðsynlegt að ganga svo frá málum að ríkið hætti alfarið þátttöku í rekstrinum og að framvegis verði það undir heimamönnum og/ eða öðrum hagsmunaaðilum komið hvort reksturinn haldi áfram. Skiptir þá engu hvort um sölu eða leigu eignanna yrði að ræða.

Hugmyndin um yfirfærslu fyrirtækisins til heimamanna er sprottin af athugunum sem gerðar voru á s. l. ári á vegum iðnrn. og stjórnar fyrirtækisins um stöðu og framtíðarhorfur þess. Slík yfirfærsla mundi byggjast á því að ríkissjóður yfirtaki hluta af áhvílandi skuldum fyrirtækisins en að stofnað yrði nýtt hlutafélag, sem nú hefur orðið, á vegum heimamanna sem yfirtaki helstu eignir Þörungavinnslunnar hf., þ. e. húsnæði, vélar og tæki verksmiðjunnar og hefji rekstur á nýjum grunni. Lögð verði áhersla á að efla samband við erlenda viðskiptaaðila og m. a. kannaðir til hlítar möguleikar á erlendri eignaraðild að fyrirtækinu.

Þörungavinnslan hf. stendur nú á tímamótum. Ef ekki verður gerð mikil fjárhagsleg uppstokkun á fyrirtækinu blasir við rekstrarstöðvun og greiðsluþrot. Einmitt þess vegna er aðkallandi að færa reksturinn og ábyrgðina í hendur heimaaðila, þ. e. þeirra aðila er mestra hagsmuna hafa að gæta, samhliða endurfjármögnun fyrirtækisins.

Eins og fyrr segir getur yfirfærsla fyrirtækisins til heimamanna gerst með tvennum hætti, með slitum og uppgjöri á núverandi félagi og meðfylgjandi ráðstöfun eigna eða með leigusamningi. Í báðum tilvikum er þó fyrirsjáanlegt að ríkið muni þurfa að yfirtaka verulegan hluta af skuldum fyrirtækisins. Yfirtaka skulda fyrirtækisins mundi kosta ríkissjóð um 41 millj. kr. á þessu ári. Hér er um að ræða mismun skammtímaskulda og veltufjáreignar að meðtalinni afborgun langtímaskulda 1984 og 1985. Eftir árið 1985 munu eftirstöðvar langtímalána vera um 45 millj. kr. miðað við verðlag í ársbyrjun 1985. Samanlögð útgjöld ríkissjóðs vegna þessa máls munu því nema um 86 millj. kr. á verðlagi síðustu áramóta, þar af eru 65 millj. kr. vegna langtímaskulda sem eru í ábyrgð ríkissjóðs. Frá þessum upphæðum mundi að sjálfsögðu dragast söluandvirði eða leigutekjur.

Grundvallarspurningin, sem heimaaðilar eða aðrir sem vilja bera ábyrgð á rekstri þörungavinnslu á Reykhólum þurfa að spyrja sjálfa sig að, er sú hvort nokkur von sé til að reksturinn geti borið sig, hvort reksturinn get skilað einhverju upp í afskriftir og fjármagnskostnað. Ekki er unnt að ætlast til að fólk leggi fé í nýtt hlutafélag nema það hafi trú á að reksturinn geti borið sig.

Eftirfarandi atriði í rekstri verksmiðjunnar hafa lofað góðu um framtíð hennar: Tök hafa náðst á öflun hráefnis sem nóg er af. Næg orka er til staðar og gæði framleiðslunnar eru mikil. Helstu annmarkar eru þessir: Afurðaverð hefur ekki hækkað nægjanlega frá verðfallinu árið 1980, sem var gífurlegt. Örðugleikar hafa orðið við vinnslu þangs á vissum tímum. Kostnaðarbókhaldi hefur ekki verið beitt sem stjórntæki. Starf að markaðsmálum og vöruþróun hefur ekki skilað þeim árangri að fyrirtækið geti borið sig. Gera þarf ýmsar tæknilegar breytingar á verksmiðjunni.

S. l. sumar var gerð úttekt á tæknibúnaði verksmiðjunnar þar sem fram kemur að með því að hrinda í framkvæmd þeim áformum, sem uppi hafa verið í fyrirtækinu um endurbætur á stjórnbúnaði þess, og með ýmsum viðbótaraðgerðum mætti gera vinnsluna mun öruggari en verið hefur. Kostnaðarbókhald má bæta með því að kaupa tiltölulega ódýra smátölvu sem getur reynst mikilvæg stoð til að fá upplýsingar sem þarf til að hafa yfirsýn yfir rekstur verksmiðjunnar. Mikilvægasta breytingin til þess að auka líkurnar á því að þörungavinnslan geti skilað arði er hins vegar aukin áhersla á vöruþróun og markaðsmál. Í þessu efni þarf að koma á beinum tengslum við kaupendur afurðanna. Að því er nú unnið á vegum stjórnar fyrirtækisins. Hinir nýju rekstraraðilar verða að sjálfsögðu að athuga gaumgæfilega hvort ekki sé nauðsynlegt að freista þess að fá hina erlendu kaupendur til að taka beinan þátt í rekstrinum.

Til þess að verksmiðjan geti borið sig þarf reksturinn að skila 6 til 7 millj. kr. á núverandi verðlagi upp í árlegar afskriftir og fjármagnskostnað. Árleg nettógreiðslubyrði af núverandi skuldabyrði fyrirtækisins er ekki undir 15 millj. kr. að meðaltali, en ekkert fékkst á s. l. ári upp í afskriftir og fjármagnskostnað. Hér þarf tvennt að koma til, bætt rekstrarafkoma og stórlega minnkuð skuldabyrði. Með yfirtöku ríkissjóðs á skuldum verksmiðjunnar verður fjárhagsstaða hennar traust. Tvísýnt er þó um hagnað af rekstrinum á allra næstu árum þrátt fyrir það uppgjör sem hér um ræðir. En að sjálfsögðu verður að horfa lengra fram í tímann þegar ákvörðun er tekin í svo mikilvægu máli sem þessu. Ef litið er til næstu ára virðast vera allraunhæfir rekstrarmöguleikar fyrir verksmiðjuna. Afurðirnar henta sérstaklega í framleiðslu á ýmsum vörum sem nú eru í tísku og virðast verða vinsælli með ári hverju. Tíminn vinnur tvímælalaust með rekstrinum, það gefur vonir um að hann geti skilað arði. En til þess að nýta þessa möguleika verður að vinna markvisst að því að bæta reksturinn.

Ég vil geta þess sérstaklega að ég átti þess kost að sitja fund með heimamönnum og má lesa samþykktir þess fundar í fskj. Eins og ég gat um áðan hafa heimamenn nú stofnað hlutafélag sem mun ganga til samninga við ríkið um kaup eða leigu á fyrirtækinu. Mér kom það þægilega á óvart hversu mikill samhugur og eindrægni ríkti meðal hreppsbúa. Heita mátti að hvert mannsbarn sækti þennan fund og lýsti yfir hug sínum til þess að takast á við þetta mikilvæga verkefni.

Herra forseti. Ég legg til að þegar þessari umr. lýkur verði málinu vísað til 2. umr. og iðnn.