31.05.1985
Neðri deild: 79. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5794 í B-deild Alþingistíðinda. (5135)

74. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég er ekki hingað komin til þess að lýsa andstöðu minni við þetta frv. Eins og það er núna er það sjálfsagt, þar sem barnalögin kveða svo á að meðlagsgreiðslan skuli vera til 18 ára aldurs. Ég vil hins vegar vekja á því athygli að það er að mörgu leyti fráleitt að einstakir þm. þurfi að standa í þess háttar leiðréttingu. Þegar lögum er breytt efnislega, eins og hér var um að ræða með barnalögum, þyrftu stjórnvöld að sjá til þess að öðrum lögum sé breytt til samræmis við það. Það ætti ekki að vera verkefni einstakra þm. að stunda þess háttar tiltektir í lagakerfinu. Ég vil aðeins vekja athygli á þessu. En það er hárrétt að þessu þarf að breyta. Eins og frv. er orðið núna er um þessa litlu leiðréttingu að ræða, að lög um tekjuskatt og eignarskatt séu samhljóma öðrum lögum, í þessu tilviki barnalögum.

En ég vil sem sagt, herra forseti, beina þeim tilmælum til ríkisstjórna að þegar stórum lagabálkum er efnislega breytt sé hugað að því að öðrum lagabálkum sé breytt til samræmis við það.