31.05.1985
Neðri deild: 79. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5799 í B-deild Alþingistíðinda. (5141)

416. mál, þingsköp Alþingis

Frsm. (Ingvar Gíslason):

Þær athugasemdir, herra forseti, sem nú hafa verið gerðar, koma í sjálfu sér ekkert á óvart. Við höfum heyrt þær áður, bæði í milliþinganefndinni á sinni tíð, síðan í hv. Ed. og hér í umræðum í Nd. og reyndar að hluta í þeirri nefnd sem ég var að tala fyrir. Þessar hugleiðingar snúast um það að e. t. v. sé óæskilegt að ganga til þess verks að stytta umræður um þingmál hér í þinginu. Vegna þess að það hefur kannske ekki komið nógu skýrt fram vil ég benda á að þær einu tillögur um styttingu á ræðutíma, takmörkun á ræðutíma, sem komið hafa fram, varða þáltill. og fsp. en ekki meðferð frv. Það sem fyrst og fremst lá til grundvallar þessu var reynslan hér í hv. Alþingi nú mörg undanfarin ár. Menn voru mjög sammála um það að sjálft löggjafarstarfið, sem fram fer í þingdeildum, væri farið að líða fyrir þessa löngu þingfundi og stríðu sem tíðkast orðið í Sþ. og eru að ýmsu leyti nýtt fyrirbæri hér í þingsölum.

En ég ætla hvorki að hefja langar deilur um þetta né heldur útskýringar, aðeins benda á þetta, sem nauðsynlegt er að menn átti sig á, að það er ekki nein tillaga um að skerða ræðutíma í sambandi við meðferð þeirra mála sem mikilvægust eru á löggjafarþingi, sem sagt umræður um lagafrv.

Um aðrar athugasemdir og jafnvel fsp. til mín um það hvers vegna lagt sé til að talsmaður fyrir þáltill. hafi 15 mínútur en síðan fái aðrir þm. aðeins 8 mínútur tvisvar sinnum, vil ég taka þetta fram: Þetta fer dálítið eftir því hvernig maður tekur á málinu. Það getur vel verið að það verði jafnerfitt fyrir mig að sannfæra hv. 5. þm. Vestf. um að þarna sé rétt staðið að skiptingunni eins og það er ómögulegt fyrir hann að sannfæra mig um að við höfum þarna staðið rangt að. Ég tel persónulega — og um það voru allir nm. sammála — mjög eðlilegt að sá maður sem talar fyrir þáltill. hafi rýmstan tímann í slíkri umræðu vegna þess að þetta er hans mál, þetta er mál sem hann ber fram. En síðan væri alveg sjálfsagt að heimila umræður um mál hans og þá töldum við fullkomlega eðlilegt að slíkar athugasemdir yrðu í styttra máli en framsagan.

Eins og ég segi er dálítið erfitt að ætla sér að sannfæra mann alveg á stundinni um það hvað rétt er í slíku. En ég get fært fram viss rök í þessu, fordæmi frá öðrum þingum sem ég þekki til. Við getum t. d. nefnt danska þingið. Þá má einnig nefna þing sem við ýmsir þm. sækjum af og til, sem er þing Evrópuráðsins. Þar er mjög skýr greinarmunur gerður á talsmönnum nefnda, flm. mála og svo hinum sem taka þátt í almennum umræðum.

Við sem sátum í milliþinganefndinni og höfum kannske fjallað meira um þetta en aðrir erum því alls ekki að finna upp neina nýja kenningu eða nýja aðferð til þess að mismuna mönnum og beita þm. rangindum eða ganga gegn lýðræðislegum og þingræðislegum venjum, eins og ýjað er að stundum þegar menn eru að finna að þessari tilraun okkar til þess að koma meira skikki á ræðuhöld hér í þinginu. Menn tala hér um sviptingu á málfrelsi. Það þykir mér vera miklar öfgar og ég treysti mér satt að segja ekki til að taka lengi þátt í umræðum um það út af fyrir sig. Menn geta haft sína skoðun á því hver fyrir sig en ég fullyrði að í þessu frv. að þingskapalögum er hvergi þrengt að málfrelsi, það er hvergi þrengt að réttindum stjórnarandstöðu, minni hluta eða nokkurs þess aðila sem hér hefur og ber að hafa fullt málfrelsi. Slíkt kemur ekki til greina, um það er alls ekkert að ræða í þessu frv. Þess vegna verð ég, eins og ég gerði við 1. umr., að vísa heim til föðurhúsanna öllum hugmyndum um það að í þessu frv. felist einhvers konar skerðing á lýðræðis- eða þingræðisréttindum eða málfrelsi, sem skiptir okkur svo miklu máli. Þetta er aðeins tilraun til að hafa reglu á þingstörfum. Og til þess eru þingsköpin.

Herra forseti. Ég legg svo til að nýju fyrir hönd nefndarinnar að þetta frv. verði samþykkt með þeim tveimur breytingum sem nefndin var sammála um að flytja.