06.11.1984
Sameinað þing: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 768 í B-deild Alþingistíðinda. (515)

38. mál, tekjutap ríkissjóðs vegna undanþága frá söluskatti

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hélt augnablik að virðulegur 5. þm. Reykv. ætlaði að hætta við að færa mér þetta, að gegna þeirri skyldu sinni, sem hann tók að sér fyrir sjoppueiganda, að gefa mér gott hér í ræðustólnum. Ég get ekki svarað hvernig á því stendur að önnur tegund þessa varnings er söluskattsfrjáls og hin ekki, en mér þykir gott að fá þessi sýnishorn. Þetta eru glögg dæmi um að sams konar vara, mismunandi stór og öðruvísi pökkuð inn, er seld annars vegar án söluskatts og hins vegar með söluskatti. Og ég fagna því að verslunareigandi þessi er það löghlýðinn og honum liggur mikið á hjarta að fá líklega söluskatt á það sem er söluskattsfrjálst þannig að ríkissjóður fái þá meiri tekjur.

Ég vil ekki meina að fsp. séu almennt til að knýja ráðherra til eins eða annars. Það er eins og með fsp. í þetta sinn sé verið að pína ráðh. fjármála til að svara spurningum sem hann hefur þá, eins og tekið var til orða, hugsanlega neitað að svara. Þetta gefur alranga mynd af því sem hér fer fram á þessu augnabliki. Fsp. hafa verið lagðar fram á hefðbundinn hátt og fjmrh. svarar þeim að sjálfsögðu á hefðbundinn hátt. Það þarf ekki að knýja hann til þess að gera það. Hann er ekkert neyddur til þess.

Það blandaðist hér inn í ræðu hv. 5. þm. Reykv. um skattamál fsp. frá öðrum þm. Alþfl. sem koma á á dagskrá seinna í dag. Ég sé ekki ástæðu til að fara að svara því eða ummælum hans um skattsvik í sambandi við þær spurningar sem fyrir mig hafa verið lagðar af hv. 5. þm. Reykv.

Spurningar hv. þm., ef ég sný mér að þeim, eru á þskj. 38 og hann hefur sjálfur lesið þær upp þannig að ég sé ekki ástæðu til þess að ítreka það, en svör mín eru svohljóðandi:

Undanþágur frá hinni almennu söluskattsskyldu eru ákaflega margþættar og verður að telja fráleitt að unnt sé eða skynsamlegt að afnema þær með öllu. Þannig er söluskatturinn almennt bundinn við síðasta stig viðskipta og sala á vörum því skattfrjáls til aðila sem kaupir vöruna til að selja þær aftur í atvinnuskyni eða sem efni í vöru sem hann hefur atvinnu af að framleiða eða selja. Þetta skattfrelsi endursöluvöru væri fráleitt að afnema, enda mundi söluskatturinn þá hlaðast margfaldlega upp í vöruverði. Önnur undanþága sem útilokað sýnist að afnema eru undanþágur við vörusölu úr landi. Væri skattur lagður á sölu útflutningsvara væri fótunum gersamlega kippt undan samkeppnisaðstöðu íslenskrar framleiðslu erlendis, enda alþjóðleg regla að neysluskattar leggist ekki á útflutningsvörur. Ég vil því leyfa mér að skilja fsp. hv. þm. þannig að átt sé við tekjuauka af niðurfellingu annarra undanþága en þeirra er að framan greinir.

1. liður fsp. hljóðar svo: „Hver yrði áætlaður tekjuauki ríkissjóðs ef söluskattur (óbreytt álagningarhlutfall) yrði lagður á allar þær vörur (tollskrárnúmer) og þjónustu sem nú eru lögum skv. án söluskatts?“

2. fyrirspurnarliðurinn er svohljóðandi: „Hver yrði áætlaður tekjuauki ríkissjóðs ef allar undanþágur frá söluskatti á annars skattskylda vöru og þjónustu yrðu afnumdar?“

Ekki er fullljóst hver munurinn er á þessum spurningum, en líklega munu þær beinast að því að sundurliða tekjuáhrif af brottfellingu þeirra undanþága annars vegar sem beinlínis eru lögbundnar og annarra undanþága hins vegar.

Þessi skipting milli undanþága skv. lögum og annarra undanþága er fjarri því að vera skýr. Allar undanþágur frá söluskatti byggjast á lögum eða heimildum í lögum. Sumar vörur eru beinlínis undanþegnar söluskatti í lögum og undanþágan þar nokkuð skýrt mörkuð. T.d. tilbúinn áburður annar en í smásölu. Í reglugerð er þessi undanþága endurtekin með þeirri skýringu þó, að með smásöluumbúðum sé átt við að hver sölueining fari ekki yfir 5 kg. Í öðrum ákvæðum er ráðh. ætlað meira svigrúm til skilgreiningar. Þannig segir t.d. í 8. tl. 7. gr. söluskattslaga að undanþegin söluskatti séu lækningar og lögfræðistörf og önnur hliðstæð þjónusta eftir því sem ráðh. ákveður. Með 10. tölul. 14. gr. söluskattsreglugerðar hefur ráðh. ákveðið hvaða þjónusta teljist hliðstæð við þá sem upp er talin í lagagreininni, þar á meðal þjónusta endurskoðenda. Telja menn að flokka eigi undanþágu endurskoðunarþjónustu undir undanþágu skv. lögum eða aðrar undanþágur? Það er spurning.

Enn þá skýrari verða mörkin milli undanþágu skv. lögum og annarra undanþága ef litið er á ýmsar hinar veigamestu undanþágur. Í brbl. nr. 96 frá 8. sept. 1978, 6. gr., segir að fjmrh. sé heimilt að fella niður söluskatt af matvörum. Sama dag er gefin út breyting á reglugerð um söluskatt þar sem heimildin er nýtt og nær öll matvæli eru undanþegin söluskatti. Þessi undanþáguheimild er síðan staðfest af Alþingi, sbr. 6. gr. laga nr. 121 frá 1978. Sama verður uppi á teningnum varðandi niðurfellingu söluskatts af vélum til samkeppnisiðnaðar. Þar hefur á undanförnum árum verið í 6. gr. fjárlaga ákvæði er heimilar ríkisstj. að fella niður söluskatt af vélum þessum og fela fjmrn. að setja reglur um framkvæmd ákvæðisins. Á grundvelli þessa ákvæðis hafa síðan verið settar almennar reglur um niðurfellingu eða endurgreiðslu söluskatts af vélum og tækjum til samkeppnisiðnaðar.

Á grundvelli framansagðs tel ég óraunhæft að sundurliða undanþágur á þann hátt sem fyrirspyrjandi virðist gera og mun því svara tveimur fyrstu liðunum í einu lagi.

Miðað við að allar vörur aðrar en endursöluvörur, hráefni og útflutningsvörur og öll þjónusta yrðu söluskattsskyldar mundi skattstofn söluskatts lauslega áætlað tvöfaldast. Brúttótekjuauki ríkissjóðs yrði því nálægt 9 milljörðum kr. á árinu 1985 miðað við forsendur fjárlagafrv. og að enginn hluti tekjuaukans rynni í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Er miðað við að söluskattur leggist m.a. á aðföng framleiðslunnar og opinberar framkvæmdir þannig að um það bil 10% af tekjuaukanum verði aftur beinn útgjaldaauki fyrir hið opinbera. Beinn tekjuauki gæti því verið nálægt 8 milljörðum kr.

Ég vil taka það skýrt fram að í þessum útreikningi er við það miðað að söluskattur leggist á alla þjónustu, þar á meðal á heilbrigðisþjónustuna og ýmsa félagslega þjónustu. Þá er miðað við að allar undanþágur falli niður sem ætlað hefur verið að styrkja samkeppnisaðstöðu íslenskra fyrirtækja, svo sem í samkeppnisiðnaðarvélum, skipum og flugvélum. Skattskyldusviðið er því geysilega víðtækt, víðtækara en þekkist í nokkrum grannlöndum okkar og mun víðtækara en gert var ráð fyrir í virðisaukaskattsfrv. Þessar tölur ber því frekar að líta á sem fræðilega athugun en raunhæfan möguleika á tekjuauka ríkissjóðs.

Í 3. lið fsp. er spurt hvaða mat fjmrh. hafi á tekjuaukningu ríkissjóðs vegna bættrar innheimtu söluskatts ef allar undanþágur skv. lögum og reglugerðum yrðu afnumdar. — Því er til að svara að ákaflega erfitt er að leggja tölulegt mat á þessi áhrif. Er reyndar starfandi nefnd til könnunar á umfangi skattsvika í samræmi við þáltill. sem samþykkt var á s.l. vori. Ég vil geyma mér fullyrðingar um þessi efni þar til niðurstaða af störfum þeirrar nefndar liggur fyrir. Ljóst er þó að niðurfelling á ýmsum núverandi undanþáguliðum, einkum á undanþágum einstakra vörutegunda, mun stórbæta möguleika til söluskattseftirlits. Ekki eru þó allar undanþágur þessu marki brenndar. Niðurfelling sumra þeirra mundi leiða til fjölgunar skattskyldra aðila og þar með aukinnar þarfar á eftirliti.

Í 4. lið er spurt hvað mætti lækka núverandi söluskattsálagningu mikið ef miðað er við að halda tekjum ríkissjóðs af söluskatti óbreyttum frá því sem nú er. — Sé tekið mið af þeirri útvíkkun söluskattsskyldusviðsins sem fram kom í svari mínu við fyrstu tveimur liðum fsp. lætur nærri að 12% söluskattur skilaði ríkissjóði sömu tekjum og núverandi skattkerfi. Ég vil hins vegar ítreka að svo víðtæk skattskylda er ekki raunhæfur eða framkvæmanlegur möguleiki.

Virðulegi forseti. Ég vona að ég hafi svarað fsp. fyrirspyrjanda á þann hátt að hann uni vel við og þakka fyrir sendinguna sem hann færði mér.