31.05.1985
Neðri deild: 80. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5801 í B-deild Alþingistíðinda. (5152)

520. mál, frjálsir vöruflutningar á sjó

Flm. (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja frv. til l. um frjálsa vöruflutninga á sjó vegna varna Íslands.

Ég held að óþarfi sé að hafa mjög langt mál um þetta frv. Hv. alþm. þekkja forsögu þessa máls sem er fyrst og fremst í því fólgin að Bandaríkjamenn grófu upp lög frá 1904 sem heimila eingöngu bandarískum flutningaskipum að stunda siglingar og flutninga fyrir hönd varnarliðsins á varningi fyrir það til og frá Íslandi.

Þessi lög og framkvæmd á þeim hefur leitt til þess að bandaríska skipafélagið Rainbow Navigation hóf siglingar til Íslands á síðasta ári og hefur síðan haft eitt alla flutninga til og frá Íslandi og til og frá Bandaríkjunum að því er varðar varnarliðið hér á landi. Þrátt fyrir viðræður, tilmæli, þrýsting og margvíslegar röksemdir af okkar hálfu, Íslendinga, hafa engar breytingar náðst fram á þeirri einokun sem Rainbow Navigation hefur á flutningum skv. áðurnefndum lögum.

Nú er ekkert við því að segja þótt aðrir en Íslendingar stundi flutninga til Íslands, enda sé þá um að ræða frjálsa samkeppni og útboð og hagkvæmni sem ráði þar ferðinni, en það er algjörlega óviðunandi fyrir Íslendinga að þurfa að sætta sig við að flutningar til og frá landinu séu verndaðir af erlendum einokunarlögum. Þetta ástand hefur leitt til mikils tjóns fyrir íslensk skipafélög. Við höfum, eins og öllum er kunnugt um, mikil viðskipti við Bandaríkin og flytjum þangað mestan hluta af okkar sjávarafla, þannig að í gegnum árin hefur þróast umfangsmikill atvinnurekstur í sambandi við þessa flutninga, og það er auðvitað verulegt áfall fyrir íslensku skipafélögin þegar sá spónn er tekinn úr aski þeirra að geta notfært sér þessar skipaferðir til flutninga í þágu annarra og þ. á m. fyrir varnarliðið hér á landi. Þetta hefur auðvitað leitt til þess að dregið hefur úr samgöngum, það eru dýrari flutningar á þeirri vöru sem við flytjum sjálfir út og að ýmsu leyti verri þjónusta. Við sjáum það t. d. í dagblöðunum einmitt í dag að þar er upplýst að stór og öflug skipafélög eins og Hafskip og Eimskip hafa tapað tugum milljóna króna vegna þeirrar einokunar sem bandaríska skipafélagið nýtur.

Varnarliðið hér á landi er hér í nafni Atlantshafsbandalagsins og í þágu allra þeirra vestrænu þjóða sem í því bandalagi eru. Varnarliðið á Íslandi er ekki prívat og sérstaklega fyrir Bandaríkin og þar af leiðandi eiga Bandaríkjamenn ekki að hafa neinn einkarétt á almennum flutningum fyrir þetta varnarlið til og frá Íslandi. Þótt gert hafi verið samkomulag og bundist samtökum um að bandarískt varnarlið dvelji í landinu eiga Bandaríkjamenn ekki að njóta forréttinda og enn þá síður eiga þeir að geta haft samskipti og viðskipti í gegnum varnarliðið í skjóli einokunarlaga sem sett eru í Bandaríkjunum fyrir áratugum.

Til þess að forðast allan misskilning tek ég fram að hér er ætíð fjallað um flutninga á vörum öðrum en olíu og hergögnum, enda held ég að menn átti sig á því að þar er um að ræða almenna flutninga, sem ekki krefjast neins sérstaks öryggis, og þar af leiðandi er á færi allra almennra skipafélaga að annast slíka flutninga.

Af þessum ástæðum, sem ég hef nú greint frá, er þetta frv. flutt. Það felur einfaldlega í sér að gert er ráð fyrir því að flutningar til og frá Íslandi séu frjálsir og sú meginregla gildi að skipaútgerðir annist flutninga í samræmi við siglingatíðni og að því tilskildu að verð, greiðslukjör og þjónusta séu sambærileg. Það er gert ráð fyrir því að utanrrn. hafi eftirlit með þessum lögum með höndum, enda heyrir varnarliðið undir utanrrn.

Ég held, herra forseti, að það sé ástæðulaust að fjölyrða frekar um þetta frv. Ég fagna því hversu fljótt það hefur komist hér á dagskrá. Það greiðir fyrir því að það geti komist til nefndar. Ég geri mér vonir um að það sé almennt samkomulag um frv. efnislega á þessa leið hér í þinginu, það þurfi ekki að vera um það pólitískur ágreiningur á milli einstakra flokka, þannig að það ætti hugsanlega að geta fengið hraða afgreiðslu frá n. og þar af leiðandi ekki útilokað að þetta frv. geti orðið að lögum nú þegar í vor.

Það hafa staðið yfir viðræður hæstv. utanrrh. og bandarískra yfirvalda um þessi mál. Þau eru sögð vera á viðkvæmu stigi, en lítill árangur náðst í þeim. Ég held að það þurfi að vera Bandaríkjamönnum ljóst að Íslendingar láta ekki traðka á sér með þeim hætti sem raun ber vitni og láta hvorki Bandaríkjamönnum né öðrum líðast að stunda viðskipti og vöruflutninga til og frá Íslandi í skjóli einokunarlaga sem eru svo sannarlega orðin úrelt á okkar tímum.

Ég hvet alþm. til að kynna sér innihald og tilgang þessa frv. og vænti þess að það fái jákvæða afgreiðslu. Ég legg til, herra forseti, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og geri tillögu um samgn.