31.05.1985
Neðri deild: 80. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5803 í B-deild Alþingistíðinda. (5153)

520. mál, frjálsir vöruflutningar á sjó

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hér er lagt fram frv. til laga um frjálsa vöruflutninga á sjó vegna varna Íslands. Það fyrsta sem vekur spurningu varðandi þetta frv. er að það er flutt vegna þess að bandarísk lög eru ekki í samræmi við óskir flm. En bandarískum lögum verður varla breytt nema á þingi Bandaríkjanna eða mér er ekki ljóst að samþykktir á Alþingi Íslendinga breyti bandarískum lögum. Verði þetta frv. aftur á móti samþykkt óbreytt má gera ráð fyrir að sú breyting verði á, standi báðar þjóðir fastar á þeim lögum sem væru í gildi, að engin skip frá Bandaríkjunum yrðu tollafgreidd fyrr en eftir 30 daga. Þá má segja að fyrir liggi ákvörðun um það að Íslendingar, í hefndarskyni við hin bandarísku lög, ákveði að skip skuli ekki tollafgreidd hér fyrr en eftir 30 daga.

Nú sýnist mér að það sé vissulega rétt hjá flm. að það sé andstætt hugsunarhætti Íslendinga að starfa í anda þeirra laga, sem eru í gildi í Bandaríkjunum, frá 1904. Það er svo annað mál hvort þetta verður leyst með lagasetningu hér á Alþingi eða hvort þetta er ekki mál sem hlýtur að verða að leysa í gegnum utanrrn. Mér er ekki ljóst hvort frv. sem slíkt, ef samþykkt yrði, yrði til að veita þann þrýsting að Bandaríkjamenn breyttu sínum lögum. Mér er ekki ljóst hvort svo yrði. Mér er ekki heldur ljóst hvort þetta 30 daga stopp, sem þarna er lagt til, hefði nokkur áhrif á framkvæmd flutninganna. Einokunarrétturinn er til staðar eftir sem áður og skipafélagið gæti aðeins óskað eftir því að fá hærri greiðslur fyrir flutningana.

Ég óska því eindregið eftir því að flm. útskýri það fyrir þinginu hver hann telur að verði viðbrögð Bandaríkjamanna við þessari 30 daga seinkun sem hér er lögð til. Gerir hann ráð fyrir því að bandaríska þingið breyti þá lögunum frá 1904 og flutningarnir verði gerðir frjálsir eða gerir hann ráð fyrir því að þeir láti skipin liggja hér í 30 daga? Og hafi það verið ætlun hans að hegna þeim fyrir að láta ekki Íslendinga njóta þessara siglinga, hvers vegna hafði hann þá 30 daga hér en ekki 90 eða 360 daga sem hefði þá trúlega lokað fyrir alla skipaflutninga til landsins með þessu skipafélagi og blessað varnarliðið hefði orðið að nota flugvélar til að koma vörunum á milli?

Tilgangurinn með flutningi þessa frv. er að mínu viti fyrst og fremst sá að hafa áhrif á það að bandarískum lögum verði breytt. Vegna þess hlýtur að vera eðlilegt að flm. geri hér grein fyrir því hver hann telur vera líklegust viðbrögð Bandaríkjamanna við því sem hér er lagt fram. En ég ítreka það, sem ég hef sagt hér í máli mínu og sagði hér í upphafi máls míns, að mér er ekki ljóst hvernig hægt er að breyta bandarískum lögum á Alþingi Íslendinga.