31.05.1985
Neðri deild: 80. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5807 í B-deild Alþingistíðinda. (5156)

520. mál, frjálsir vöruflutningar á sjó

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég þakka hv. 6. þm. Reykv. fyrir hans svör þó að mér hafi fundist óþarflega mikið af ónotum fylgja með. En hvað um það. Hann ítrekaði viss atriði í sínu máli sem eru grundvallaratriði. Við breytum ekki bandarískum lögum á Alþingi Íslendinga. Hann sagði að sér hefði aldrei dottið það í hug. Mér þykir vænt um að heyra það hér. Hins vegar höfum við á ýmsum sviðum aðlagað okkur að bandarískum lögum hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir það að íslensk skipafélög leysi þetta mál á einum degi ef þau vilja. Svo einfalt er málið. Þau geta stofnað hlutafélag í Bandaríkjunum og leigt til þess hlutafélags íslensk skip, látið þau sigla undir bandarískum fána og náð þessum viðskiptum ef þau vilja. Þannig urðum við að fara að í fisksölumálum. Sölumiðstöðin annars vegar og Iceland Seafood hins vegar eru gott dæmi um það hvernig við höfum aðlagað okkur lögum í því tilfelli í Bandaríkjunum. Það væri kannske orðið tímabært að það reyndi á það hvort íslensk skipafélög geta unnið saman.

Ég hef ekki verið að fjargviðrast út í þetta frv., alls ekki, og hvorki lagt til að það verði samþykkt né fellt. Ég hef verið að leita eftir upplýsingum um málið. En það fer ekki milli mála aftur á móti að íslensk skipafélög geta ef þau vilja náð þessum flutningum. Til þess þurfa þau aftur á móti að stofna dótturfyrirtæki í Bandaríkjunum.

Ég hygg að flm. líti svo á að með þessu frv. sé hann að feta í fótspor þeirra sem börðust fyrir sjálfstæði Íslendinga og hann sé þess vegna verðugur fulltrúi í sjálfstæðisbaráttunni á þessum tímum, en mér fannst það dálítið einhliða túlkun.

Ég vil taka það skýrt fram að mínar fsp. voru ekki settar fram í neinni illkvittni. Ég óskaði eftir upplýsingum um hver hann teldi að yrðu væntanleg viðbrögð. Mér sýnist aftur á móti sú leið, sem ég benti hér á áðan, vera opin, en hún mundi trúlega kalla á það að skipafélögin íslensku standi saman um að mynda dótturfyrirtæki sem keppi um þessa flutninga. Ég sé ekki annað en að slíkt fyrirtæki ætti að hafa yfirburðamöguleika til að ná flutningunum.