31.05.1985
Neðri deild: 80. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5807 í B-deild Alþingistíðinda. (5157)

520. mál, frjálsir vöruflutningar á sjó

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Það er ekki í fyrsta skipti sem hv. þm. Ólafur Þórðarson kemur okkur á óvart með frumlegar hugmyndir. Það hafa raunar heyrst áður frumlegar hugmyndir frá hv. þm. Vestf. í dag. M. a. sagði hv. 1. þm. Vestf. í dag að Eimskipafélag Íslands væri óskabarn þjóðarinnar, SÍS væri vandræðabarn þjóðarinnar og Þörungavinnslan olnbogabarn þjóðarinnar. Nú hefur hins vegar olnbogabarnið verið gefið og má til sanns vegar færa að sælla er að gefa en þiggja í því tilfelli. Vandræðabarnið SÍS hefur nú ekki verið borið út enn, og er einkennilegt að menn skuli teygja sig alla leið þangað til þess að rífast í stjórnarliðinu, að velta mönnum upp úr slíku orðbragði. En þá er óskabarnið eftir. Hv. þm. Ólafur Þórðarson leggur það sem sagt til að óskabarn þjóðarinnar flaggi bandarískum fána hér eftir ef það vill flytja inn til landsins hernaðardjönk frá Bandaríkjunum. Það eru að vísu ekki sprengjur. (Gripið fram í: Og kjúklinga.) Kjúklinga, sagði hv. gæsaframleiðandi úr Borgarfirði. En hvað svo sem er með kjúklingana þá liggja þau hlið við hlið skip frá Rainbow, eins og það heitir, og íslenskt fiskiskip. Bæði eru að tína draslið sitt í land og það eru kjúklingar sem koma upp úr báðum skipum. Kjúklingarnir frá Ameríku eru fluttir inn þrátt fyrir bann á kjúklingainnflutningi, en þeir fara beint upp á völl og er fagnað þar náttúrlega eins og venja er til. En hvað er gert við kjúklingana sem koma upp úr íslenska fiskiskipinu? Þeir eru hirtir af fógeta og kveikt í þeim. Ekki grillaðir, þeim er hent. Ekki erum við jafnir fyrir lögum, Íslendingar og Bandaríkjamenn. Svona er. þetta auðvitað víða og á mörgum sviðum. En orðið sem hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson sagði að væri lausnarorðið í þessum efnum var „aðlögun“. Við höfum aðlagað okkur, sagði hv. þm., að ýmsum lögum og fyrirmælum frá Bandaríkjunum. Það er rétt, við höfum bognað því miður heldur mikið við þá aðlögun. Ég verð að segja það að mér finnst sú aðlögun í þá átt vera orðin ærin og það fyrir löngu. Og auðvitað eigum við ekki að láta Ameríkana kúga okkur svona á flutningasviðinu eins og á öllum öðrum. Það er eitt orð sem er sameiginlegt í öllum þessum viðskiptum við hið svokallaða varnarlið sem er stríðsgæslulið Ameríkana — við erum ekkert á móti Bandaríkjamönnum, Íslendingar, við höfum alltaf verið mjög vinsamlegir við Bandaríkjamenn og raunar öfugt, nema þegar að þessu stríðssambandi kemur — það er orðið „aumingjaskapur“ sem manni dettur oftast í hug þegar talað er um þessi samskipti. Við heyrum og hlýðum og aðlögum okkur.

Mér þótti svolítið fyrir því þegar hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson gerði minna úr íslenskum lögum en bandarískum. Hann vék að því að um þetta væru lög í Bandaríkjunum, frá 1904 að því er hv. þm. úr Reykjaneskjördæmi upplýsti. Það þótti honum vont að hv. þm. Ellert B. Schram reyndi að koma fram almennilegum lögum á móti þessum lögum, það væri látið á það reyna hvor hefði meiri rétt í flutningum til og frá þessu landi. Ef við berum gæfu til þess að samþykkja þetta frv. umsvifalaust frá hv. þm. Ellert B. Schram, þá stæðu þar lög móti lögum. Og það er rétt að það komi einhvern tíma einhver sem ýtti á móti áganginum, hinum stöðuga ágangi á öllum sviðum í samskiptum við þetta stríðslið. En því miður er sú stefna ekki uppi á Íslandi um þessar mundir. Íslendingar hafa gengið nú um nokkurt skeið fremstir í flokki að auka við hernaðartækni í sínu landi. Fremstir í flokki með því að taka á móti stríðsapparötum Ameríkana í radarstöðvamynd.

Stundum hefur verið talað um það af íslenskum bissnesmönnum, sem er heldur slæmur þjóðflokkur í bland, að Bandaríki Norður-Ameríku séu land viðskiptafrelsis. Þetta er auðvitað alrangt. Í raun og veru hafa Bandaríkin með sinn stóra markað notað hann til þess að kúga þjóðir, milljónaþjóðir. Ef þær eru ekki samstiga þeim í pólitík, þá loka þeir markaðnum. Hvar er viðskiptafrelsið? Þeir geta meira að segja með ánægju horft á þá drepast í fátækt ef þeir leyfa sér að hafa sína skoðun. Við sjáum það ekki aðeins á þeim sviðum heldur öllum að það er síður en svo að þar sé um viðskiptafrelsi að ræða. Ég tel að á margan hátt sé hið aukna frelsi, sem hefur verið að birtast í ýmsum myndum á Íslandi að undanförnu, til góðs. Við höfum reynt mikil höft og talsverð höft og þau hafa reynst illa yfirleitt, þó að ég sé ekki að mæla með óheftu frelsi fjármagnsins í landinu. Það er svolítið önnur saga, ekki síst vegna sérstöðu íslensks efnahagskerfis. En í þessu efni tel ég að við ættum að hafa sama rétt og Bandaríkjamenn. Og ég tel skynsamlegt að ganga ekki lengra í þessu efni en svo að báðir aðilar geti flutt þetta dót. Hins vegar tel ég að það hefði mátt hafa þetta meira en 30 daga. En það er nú almennur frestur sem er kannske eðlilegt að sé valinn. En ef fresturinn hefði verið lengri væru flutningar þessa fyrirtækis næstum því ómögulegir.

Herra forseti. Ég hirði ekki um að ræða þetta mikið frekar. En ég legg til að frv. verði samþykki og fái greiðan gang í gegnum þingið þó að mikið liggi fyrir.