03.06.1985
Efri deild: 87. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5813 í B-deild Alþingistíðinda. (5161)

416. mál, þingsköp Alþingis

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Hæstv. forseti. Nd. hefur gert þrjár breytingar á því frv. sem hér er til umr., frv. til laga um þingsköp Alþingis. Tvær breytingar eru við 28. gr. frv. og þriðja breytingin er við 47. gr. frv.

Fyrri brtt. við 28. gr. frv. varðar meðferð þáltill. En með frv. eru gerðar breytingar frá gildandi lögum í þá átt að hraða meðferð þáltill. Frá reglu sem sett er í frv. um þetta efni eru undantekningar einnig gerðar samkvæmt frv. En breyting Nd. er sú að forseti geti ákveðið frávik frá þessari reglu ef fyrir liggur rökstudd beiðni þingflokks þar að lútandi. Þessi brtt. gengur til móts við það sjónarmið, sem fram kom í þessari deild og raunar líka í Nd., að það þyrfti að hafa allan vara á að ekki yrði um of kreppt að umr. um þáltill.

Hin brtt., sem er við 28. gr. frv., er um það að þar sem segir að þáltill. sem bornar eru upp í þd. lúti í öllu sömu reglum um málsmeðferð sem þáltill. komi orðið ályktunartillögur í upphafi mgr. í staðinn fyrir „þáltill.“. Þetta er talið að fari betur vegna þess að það sé ekki í samræmi við venjulega málkennd og eðli málsins að kalla ályktun annarrar deildar þingsins þál. Það má segja að þetta sé til bóta þó að ég telji nú að engin hætta hefði verið á ferðinni í þessu efni þó að frv. hefði verið óbreytt.

Þriðja brtt. er, eins og áður sagði, við 47. gr. frv. Sú brtt. er á þá leið að þegar komið hefur verið upp rafeindabúnaði fyrir atkvæðagreiðslur skuli hverfa frá þeim reglum sem settar eru um atkvgr. í 2. málsgr. 47. gr., þ. e. handauppréttingu. Það skal tekið fram að þegar nefnd sú, sem vann að samningu og undirbúningi frv., var að störfum, þá kom þetta mál oftar en einu sinni til athugunar. En menn voru þá á þeirri skoðun að það hastaði ekki að setja ákvæði um þetta. Það væri ekki ástæða að gera slíkt fyrr en tæknibúnaðurinn kæmi. Þá var auðvitað gert ráð fyrir því að þingskapalög, sem sett yrðu núna, yrðu ekki óumbreytanleg um alla framtíð þó vel væri unnið og vel að þeim búið.

Þessar breytingar, sem gerðar voru á frv. í Nd., voru að tillögu þingskapalaganefndar deildarinnar. Þingskapalaganefnd Nd. stóð einhuga að þessum breytingum og þessar breytingar voru ekki ágreiningsmál í Nd. Þingskapalaganefnd þessarar hv. deildar hefur komið saman og rætt og tekið til meðferðar þær breytingar sem Nd. hefur gert á frv. og leggur nefndin einróma til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem Nd. hefur gert.