03.06.1985
Efri deild: 87. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5813 í B-deild Alþingistíðinda. (5162)

416. mál, þingsköp Alþingis

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Þetta frv. til nýrra þingskapalaga er nú komið aftur til okkar í Ed. til einnar umr. og verður væntanlega samþykkt sem lög frá hinu háa Alþingi í dag. Ég vil áður en þessari umr. lýkur aðeins fá að nota tækifærið, og ég veit að mér leyfist að tala þar fyrir hönd nm. bæði í þingskapalaganefnd þessarar hv. deildar svo og í þeirri þingskapalaganefnd sem skipuð var á sínum tíma. til að þakka forseta Sþ., hv. þm. Þorv. Garðari Kristjánssyni, fyrir störf hans og hvernig hann hefur leitt og stýrt þessu starfi að endurskoðun þingskapanna. Það var engan veginn vandalaust vegna þess að þetta er mál sem er þess eðlis að menn greinir á um ýmsa hluti og alls ekki eftir flokkslínum. En í fyrrasumar var unnið mikið starf í þingskapalaganefndinni undir ágætri forystu hans og ég hygg að þetta mál hafi ekki aðeins fengið mjög vandaða heldur mjög ítarlega og gaumgæfilega umfjöllun hér í þinginu síðan við umfjöllun málsins. Í deildum hefur það gerst að upp hafa komið ýmis önnur sjónarmið og menn hafa rætt málin ítarlega og það hefur verið leitað leiða til samkomulags og það hefur jafnan tekist. Ég vil ítreka þakkir til forseta Sþ. fyrir hans starf að þessu. Honum hefur tekist eins og góðum skipstjórnarmanni að sigla jafnan milli skers og báru. en án þess að nokkuð hafi verið slegið af.

Ég vildi aðeins, virðulegi forseti, láta þetta koma fram við lok þessarar umr.