03.06.1985
Efri deild: 87. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5814 í B-deild Alþingistíðinda. (5163)

416. mál, þingsköp Alþingis

Ragnar Arnalds:

virðulegi forseti. Frv. um ný þingsköp er komið frá hv. Nd. og hefur hún gert á því örfáar breytingar. Ég er þakklátur fyrir að sjá að það hefur verið gengið nokkuð þar til móts við þau sjónarmið, sem ég setti fram við umr. um málið í Ed., að því leyti að reglan um ræðutíma þegar þáltill. eru til umr. er ekki lengur ófrávíkjanleg og getur forseti ákveðið frávik ef fyrir liggur rökstudd beiðni þingflokks þar að lútandi. Ég tel að þarna hafi verið skotið inn í frv. mikilvægum öryggisventli þótt ég hafi að vísu aldrei gert ráð fyrir að það yrði oft sem á það reyndi, en það gæti verið þeim mun mikilvægara þegar svo ber undir.

Ég er ekki að segja að ég sé að öllu leyti sáttur við frv. eins og það liggur hér fyrir, en mun þó greiða því atkv. Ég lít svo á að í 32. gr. séu komin ákvæði sem geti brugðið til beggja vona. Kannske er þar um vissa tilraunastarfsemi að ræða. En ég vil þó láta í ljós þá von mína að ákvæði 32. gr. verði túlkuð á þann veg að það sé áfram meginregla að menn geti með samþykki forseta og viðkomandi ráðh. kvatt sér hljóðs utan dagskrár og tekið mál til umræðu án þess að ræðutími sé takmarkaður. Mér hefur líka skilist á hæstv. forseta Sþ. að sá sé einnig hans skilningur.

Ég vil svo að lokum taka undir þakkir þær sem hér voru bornar fram af seinasta ræðumanni til þeirra sem að þessu máli hafa unnið og þá sérstaklega til hæstv. forseta Sþ., 4. þm. Vestf.