06.11.1984
Sameinað þing: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 772 í B-deild Alþingistíðinda. (517)

38. mál, tekjutap ríkissjóðs vegna undanþága frá söluskatti

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé óeðlilegt að tala þannig, og á ég við hvaða þm. sem er, að auðvelt sé að leggja söluskatt á alla þjónustu og alla samneyslu yfirleitt á þann hátt sem hv. 5. þm. Reykv. gaf í skyn þegar hann talaði í annað sinn. Hann spurði í sínum fjórum spurningum hversu hár söluskatturinn mundi vera ef engin undanþága væri veitt og ég gaf honum þær upplýsingar. Það var eðlilegt svar við hans spurningu. En ég reikna ekki með að það hafi farið fram hjá neinum að til þess að ná þeirri upphæð að hægt væri að minnka söluskattsálagninguna niður í 12% þarf að leggja á allt það sem nú er undanþegið söluskatti og þar með alla samneyslu og heilbrigðisþjónustu og ýmsa félagslega þjónustu. Ég efast um að það finnist þm. í hv. Sþ. sem væri reiðubúinn til að ljá því atkvæði sitt.