03.06.1985
Neðri deild: 81. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5817 í B-deild Alþingistíðinda. (5178)

456. mál, Byggðastofnun

Frsm. 2. minni hl. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Mér finnst óeðlilegt að taka fyrir næst álit 2. minni hl. Venjan er sú að taka fyrst fyrir álit 1. minni hl.. en það er hv. 3. þm. Reykn. Kjartan Jóhannsson. Það hlýtur að segja sig þá sjálft að ef hv. þm. er fjarverandi verður ekki hægt að ljúka umr. um málið á þessum fundi. Ég vil fara þess á leit við hæstv. forseta að hann hlutist til um það að kanna hvort hv. 3. þm. Reykn. er væntanlegur. (Forseti: Ég get sagt strax, ef ég má trufla hv. ræðumann, að hv. 3. þm. Reykn. mun hafa óskað eftir fjarvist í dag.) Þá er óeðlilegt að taka málið fyrir, herra forseti, þar sem hv. 3. þm. Reykn. er með minnihlutaálit bæði hvað snertir Byggðastofnun, Framkvæmdasjóð og þróunarfélag. (Forseti: Það er víst rétt að það er ákaflega óheppilegt og ekki skv. venju. Hins vegar hefði verið æskilegt ef hv. þm. hefði gert forseta nánari grein fyrir þessu. Þetta veit forseti ekki fyrr en á síðustu stundu.)

Ég mun, herra forseti, gera grein fyrir mínu minnihlutaáliti, en óska eftir því að forsetinn kanni á meðan hvort ekki er hægt að verða við ósk um það að málinu verði frestað eða þá að annar fulltrúi Alþfl. geri grein fyrir sjónarmiði 1. minni hl. fjh.- og viðskn. Það er auðvitað óeðlilegt að ganga frá málinu öðruvísi en að minni hl. fái að gera grein fyrir sínum sjónarmiðum.

Á þskj. 1085 hef ég sem 2. minni hl. fjh.- og viðskn. lagt fram nál. um frv. til laga um Byggðastofnun, sem er 456. mál þingsins. Nál. er á þessa leið:

2. minni hl. fjh.- og viðskn. flytur fjórar brtt. við frv. til laga um Byggðastofnun.

1. Lagt er til að stofnunin heyri undir félmrh. í stað forsrh.

Hér er um að ræða brtt. sem er í samræmi við afstöðu sem Alþb. hefur áður látið koma fram af sinni hálfu á fyrri þingum. Ég tel að það sé óeðlilegt að raða stofnunum inn í forsrn. Ég tel að stofnanir og fyrirtæki eigi sem mest að vera í fagráðuneytunum. Þetta sé óheppileg skipan, sem hér er gert ráð fyrir, og þessi till. um að stofnunin heyri undir félmrn. er í samræmi við það sem áður hefur komið fram af hálfu Alþb. og fleiri stjórnarandstöðuflokka, eins og t. d. Alþfl.

Í öðru lagi er lagt til að þóknananefnd ákveði laun stjórnarmanna Byggðastofnunar.

Í þriðja lagi er lagt til að stofnuninni verði ráðinn einn forstöðumaður og ráðning gildi til sex ára í senn, en eins og frv. er orðað virðist það vera svo að stjórnarflokkarnir geri ráð fyrir að ráða að Byggðastofnuninni fleiri en einn forstjóra sem er væntanlega vegna þess að flokkarnir treysti sér ekki til þess að skipta einum manni á milli sín, heldur ætli helmingaskiptaflokkarnir að koma því þannig fyrir að þeir komi hvor að sínum forstjóranum í Byggðastofnuninni. Þá geri ég ráð fyrir því að forstöðumaður stofnunarinnar verði ráðinn til sex ára í senn í samræmi við ákvarðanir sem hafa verið teknar á undanförnum þingum um að forstöðumenn opinberra stofnana séu aðeins ráðnir til takmarkaðs tíma í senn.

Í fjórða lagi geri ég tillögu um nánari tengsl á milli Byggðastofnunar og landshlutasamtakanna, en stjórnarflokkarnir gera ráð fyrir að það verði algjörlega höggvið á tengsl Byggðastofnunar og landshlutasamtakanna.

Enn fremur geri ég ráð fyrir því í mínum tillögum að það verði komið á skipulegu samstarfi Byggðastofnunar við landshlutasamtökin um áætlanagerð.

Enn fremur flyt ég ásamt hv. þm. Halldóri Blöndal till. um að stofnunin hafi heimili og varnarþing á Akureyri. Ég mun óska eftir því við hæstv. forseta að þetta mál verði tekið til afgreiðslu áður en til atkvæða kemur frv. um þróunarfélag vegna þess að verði till. okkar hv. þm. Halldórs Blöndals samþykkt varðandi Byggðastofnun mun það þýða það að við Alþb.-menn munum draga til baka till. okkar um staðsetningu þróunarfélagsins á Akureyri.

„Aðalgallar frv. og málsins í heild eru þessir:

1. Ekki er komið til móts við þau sjónarmið sem sett hafa verið fram að undanförnu, m. a. í samþykktum Alþb., að aukið vald verði fært til landshlutanna sjálfra. Þvert á móti er gert ráð fyrir því að byggðastefnunni verði stýrt frá einum stað í Reykjavík og að höggvið verði á þau tengsl sem landshlutasamtökin hafa haft við byggðadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins. Þessi aukna miðstýring á sama tíma og krafist er valddreifingar og lýðræðis er versti gallinn á frv. ríkisstj.

2. Þá gerir ríkisstj. ráð fyrir því að þessi stofnun heyri undir forsrh. Undirritaður leggur til að stofnunin heyri undir félmrh. vegna þess að félmrn. fer með málefni sveitarfélaganna og Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Það er því eðlilegt í alla staði að félmrn. fari með byggðamál í heild.

3. Frv. gerir ráð fyrir því að heimilt verði að ráða til stofnunarinnar fleiri en einn forstjóra. Það virðist því vera ætlun stjórnarflokkanna að ráða a. m. k. tvo forstjóra til stofnunarinnar í samræmi við helmingaskiptaregluna. Þá er það athyglisvert að stjórnarflokkarnir skuli ætla forráðamönnum Framkvæmdasjóðs og Byggðastofnunar eilífðarráðningu, en það brýtur í bága við þau almennu viðhorf að forstöðumenn ,líkra stofnana eigi að ráða til takmarkaðs tíma í senn.

4. Ekki er nægilega tryggilega gengið frá því að Byggðastofnun fái helming húseignar Framkvæmdastofnunar. Meiri hl. n. hefur lýst því yfir að það verði gert, en engin gögn hafa komið fram því til staðfestingar enn þá.

5. Skv. frv. er dregið úr áherslu á byggðastefnu og byggðajafnvægi. Sama gildir um áætlanagerð hvers konar, en jafnframt er bersýnilega stefnt að því að láta markaðslögmálin ráða meira um framtíð byggðar í landinu en verið hefur.

6. Hvergi er í frv. tekið á þeim stórfellda vanda sem nú blasir við landsbyggðinni, ekki síst í sjávarútvegi og landbúnaði. Þar fylgir ríkisstj. í raun andbyggðastefnu og sést það m. a. á því að verulegur hluti landbúnaðarhéraðanna er í stórfelldri hættu þannig að auðn blasir við.

2. minni hl. nefndarinnar telur þrátt fyrir þessa galla rétt að stuðla að því að hér á landi starfi Byggðastofnun. Alþb. hefur áður flutt till. um sjálfstæða og öfluga byggðastofnun með traustum tengslum við byggðirnar sjálfar á grundvelli valddreifingar og lýðræðis. Þess vegna er 2. minni hl. andvígur því sjónarmiði Alþfl. og Bandalags jafnaðarmanna sem leggja til að frv. verði fellt.

Nánari grein er gerð fyrir áliti 2. minni hl. í nál. um Framkvæmdasjóð og frv. um þróunarfélag sem rætt hefur verið í fjh.- og viðskn. samhliða afgreiðslu frv. um Byggðastofnun.“

Á þskj. 1079 eru þær brtt. sem ég flyt við þetta frv. Þær eru fjórar:

„1. Í stað orðsins „forsætisráðherra“ í 2. gr. frv. komi: félagsmálaráðherra.

2. Við 4. gr. bætist nýr málsl. sem orðist svo: Þóknananefnd ákveður þóknun stjórnarinnar.

3. 6. gr. orðist svo:

Stjórn Byggðastofnunar ræður einn forstjóra til sex ára í senn til að annast daglega stjórn stofnunarinnar. Kjaradómur ákveður laun og starfskjör forstjóra.

4. 9. gr. orðist svo:

Í starfi sínu skal Byggðastofnun hafa samvinnu við landshlutasamtök sveitarfélaga, sveitarstjórnir, þróunarfélög og aðra heimaaðila eftir atvikum. Stofnunin getur gert samstarfssamninga við slíka aðila um áætlanagerð og aðra skipulega starfsemi.

Áætlanir, sem fela í sér tillögur um aðgerðir á sviðum sem heyra undir ýmis ráðuneyti, skulu sendar félmrh. sem gerir ríkisstj. grein fyrir þeim. Viðkomandi rn. skulu síðan fjalla um tillögur Byggðastofnunar.

Byggðastofnun fylgir eftir framkvæmd samþykktra byggðaáætlana. Áætlanir skal endurskoða eftir því sem tilefni eru til.“

Herra forseti. Ég mun ekki í frekara máli gera grein fyrir nál. mínu. Ég vil aðeins segja það að lokum að ég mun taka mjög vel eftir því hvaða afstöðu einstakir þm. hafa í þessu máli. Sérstaklega verður það fróðlegt hvaða afstöðu menn taka til till. um betra samstarf við landshlutasamtökin. Landshlutasamtökin sendu fulltrúa sína á fund fjh.- og viðskn. Nd. og mótmæltu því harðlega að höggvið væri á tengsl landshlutasamtakanna við byggðastefnuna. Stjórnarflokkarnir gera ráð fyrir því að höggva algerlega á þessi tengsl, en á undanförnum árum hefur það verið þannig að Byggðasjóður hefur styrki landshlutasamtökin til ákveðinnar áætlanagerðar fyrir byggðirnar í landinu. Um þær áætlanir má margt segja, en ég tel að það sé háskalegt að höggva á þessi tengsl við landshlutana sjálfa, eins og meiri hl. fjh.- og viðskn. gerir grein fyrir, og ég mun taka glöggt eftir því hvernig menn greiða atkv. í sambandi við 4. brtt. á þskj. 1079 og ég mun koma því rækilega á framfæri hvernig því verður háttað.