06.11.1984
Sameinað þing: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 772 í B-deild Alþingistíðinda. (518)

38. mál, tekjutap ríkissjóðs vegna undanþága frá söluskatti

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Í fsp.-tíma er ekki aðstaða til að rökræða um skattamál eins flókin og þau eru, en ég get ekki látið hjá líða að andmæla þeim yfirlýsingum fyrirspyrjanda og þeim ályktunum fyrirspyrjanda að svar fjmrh. hafi gefið tilefni til hugleiðinga um stórfelldar breytingar á þessu söluskattskerfi í þá átt sem hv. fyrirspyrjandi var að lýsa. Ég er sem sagt ekki þeirrar skoðunar að margar þeirra undanþága frá söluskatti, sem eru í gildandi kerfi, séu komnar til af engu og ég teldi það litla framför, að ekki sé nú meira sagt, ef hækka ætti matvörur um 22 eða 23% eða leggja 22–23% skatt á alla heilbrigðisþjónustu eða alla menningarstarfsemi. Þessir þættir eru undanþegnir söluskatti í dag og ég hygg að ef þeir yrðu áfram undanþegnir yrði nú ekki mikið eftir af tekjuaukanum sem hv. fyrirspyrjandi var að gera svo mikið stórmál úr áðan. Vissulega má velta fyrir sér einstaka tilvikum í þessu sambandi, hvort er réttlætanlegt að hafa þessa undanþáguna eða hina, en í grófum dráttum ítreka ég að þessar undanþágur eru ekki komnar til af engu. Það er verið að hlífa einhverju-því sem talin er sérstök ástæða til þess að hlífa og ég mundi ekki mæla með því að þær breytingar yrðu gerðar á söluskattskerfinu að söluskattur yrði lagður á mikilvægar vörur sem almenningur kaupir, eins og matvörur eða á heilbrigðisþjónustuna eða menningarstarfsemina í landinu.