03.06.1985
Neðri deild: 81. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5828 í B-deild Alþingistíðinda. (5182)

456. mál, Byggðastofnun

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það frv. til l. um Byggðastofnun sem hér er komið til 2. umr. sætir ekki tíðindum vegna þess sem í því stendur, hvorki eins og það var lagt fyrir hér upphaflega né að teknu tilliti til brtt. meiri hl. fjh.- og viðskn., heldur miklu fremur vegna þess sem ekki er að finna í þessu frv. Sú þróun sem hefur verið í gangi í byggðamálum undanfarin ár og alveg sérstaklega í tíð núv. ríkisstj. hefði vissulega gefið tilefni til þess að hér væri lagt fyrir af hálfu ríkisstj. frv. sem líklegt væri til að breyta þeim forsendum sem leitt hafa til vaxandi fólksflutninga af landsbyggðinni, fólksflutninga sem aldrei hafa orðið meiri á einu ári en á því síðasta frá því að skráning á tilfærslum fólks hófst 1961. Grg. frá Framkvæmdastofnun ríkisins, sem ég hef fengið, sýna að ekki minna en 1071 maður flutti frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins á árinu sem leið og fólksflutningar þangað frá landsbyggðinni hafa farið ört vaxandi undanfarin fjögur ár.

Í þessu frv. er ekki að finna neitt sem vakið geti vonir um það að skv. því verði breytt um áherslur í okkar þjóðarbúskap, sem er þó forsendan fyrir því að eðlileg þróun, vöxtur og viðgangur byggðar verði um land allt. Hitt er miklu líklegra að verði þetta frv. að lögum sjáum við fram á það í enn auknum mæli — út af fyrir sig ekki vegna ákvæða frv. heldur vegna stjórnarstefnunnar sem fylgt hefur verið — að búferlaflutningar frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins eigi eftir að vaxa ört á næstu árum frá þeirri öfugþróun sem nú er í gangi.

Það frv. til l. um Byggðastofnun sem ríkisstj. hér flytur virðist fyrst og fremst vera til komið vegna þeirra skipulagsbreytinga sem ríkisstj. hefur lengi fjallað um varðandi Framkvæmdastofnun ríkisins, skipulagsbreytinga sem í rauninni skipta mjög litlu máli varðandi þann vanda sem hér er við að fást. Skv. frv. er verið að klippa á tengslin milli Byggðasjóðs og Framkvæmdasjóðs og gera Byggðastofnun að sjálfstæðri stofnun og það er greinilegt að ætlun ríkisstj. er að starfsemi hennar verði áfram hér í Reykjavík. Það eitt út af fyrir sig er mál til þess að ræða og fjalla um. Um það liggja fyrir till. frá hv. 3. þm. Reykv. og hv. 2. þm. Norðurl. e. sem ég út af fyrir sig tek heils hugar undir því að vissulega væri það spor í rétta átt að flytja þessa starfsemi út fyrir höfuðborgarsvæðið og þá gjarnan til Akureyrar eins og lagt er til skv. þessari till.

Önnur atriði er raunar ekki að finna í þessu frv. af hálfu ríkisstj. nema þá það að verið er að draga úr áherslum í sambandi við starfsemi Byggðastofnunar og tengsl hennar við landshlutasamtök sveitarfélaga og frekar er dregið úr viðmiðunum varðandi fjárframlög til Byggðasjóðs frá því sem verið hefur, til veikingar ef nokkuð er. Byggðasjóður hefur vissulega haft nokkurt gildi á liðinni tíð, en hann einn út af fyrir sig hefur ekki skipt neinum sköpum um vöxt og viðgang byggðar í landinu. Þar eru aðrir þættir sem eru ráðandi um ferðina.

Hv. þm. Halldór Blöndal minntist á það hér áðan að Byggðasjóði hefðu verið markaðar tekjur þegar samþykkt voru lögin og samningur gerður um álverið í Straumsvík. Ekki ætla ég að hafa á móti því að eitthvert fé hefur á liðnum árum verið fært til baka frá því fyrirtæki til landsbyggðarinnar. Allt er það góðra gjalda vert. En hvernig ætli dæmið liti út ef reikningar væru upp gerðir og tekið tillit til þess skatts sem landsbyggðin öll — og reyndar landið allt — hefur greitt því erlenda fyrirtæki sem hv. þm. vitnaði þarna til, þá m. a. með sérstakri meðgjöf og greiðslum með raforku sem fyrirtækið hefur fengið skv. samningum á liðinni tíð.

Byggðasjóður hefði eflaust getað orðið að meira liði á undanförnum árum ef haldið hefði verið með öðrum hætti á margri þeirri starfsemi sem varðar byggðamálin, þ. á m. í stjórnkerfi landsins varðandi áætlanagerð og hvernig áætlunum er framfylgt. Ég tel mig geta talað um það af nokkurri reynslu að tengsl Framkvæmdastofnunar ríkisins, þar á meðal byggðadeildar, við stjórnvöld í landinu hafa á liðinni tíð verið mjög ófullnægjandi. Ég tel að það hafi verið mistök að setja þessa stofnun undir forsrn. á sínum tíma og ég tei að það sé mjög varhugavert, svo ekki sé meira sagt. eins og hér er lagt til, að halda þeirri skipan áfram. Forsrn. hefur ekki verið þannig upp byggt að það ráði yfir mannafla og getu til þess að taka á þeim málum sem Framkvæmdastofnun ríkisins hefur verið ætlað að sinna og sem Byggðastofnun skv. þessu frv. er ætlað að sinna. Tengslin milli Framkvæmdastofnunar og hinna einstöku fagráðuneyta, þar sem reynir raunverulega á í sambandi við framkvæmd byggðaáætlana og áherslur í byggðamálum, hafa verið allsendis ófullnægjandi.

Ég lagði mig nokkuð fram um það á sinni tíð. þegar ég starfaði sem ráðh., að leita eftir tengslum við Framkvæmdastofnun og byggðadeild hennar og ég tel mig hafa haft gagn af því og það rn. sem ég veitti forstöðu fyrir nokkrum árum. En af hálfu forsrn. hefur á liðinni tíð, og mér er ekki kunnugt um breyttar áherslur í því efni, verið afar takmörkuð viðleitni til að skapa farvegi fyrir það starf sem Framkvæmdastofnun hefur verið að sinna og er ætlað að sinna í formi Byggðastofnunar að því er byggðamálin varðar skv. þessu frv. Því tel ég að það horfi verulega til bóta sú brtt. sem hv. þm. Svavar Gestsson flytur um það að fela verkefni Byggðastofnunar öðru rn. en forsrn., í þessu tilviki félmrn., sem hann hefur gert tillögu um að Byggðastofnunin falli undir.

Áður en ég hverf frá að ræða sérstaklega málefni Byggðastofnunar. byggðadeildar á liðinni tíð. þá er rétt að gefa því gaum hvernig meðferðin hefur verið á þeim sjóði sem undir stjórn Framkvæmdastofnunar hefur heyrt og nú á að leggja undir stjórn Byggðastofnunar, þ. e. málefni Byggðasjóðs.

Það liggur fyrir, ef litið er á þróun mála hvað þetta varðar á undanförnum árum og tekið dæmi t. d. af árinu 1982, að þá nam ráðstöfunarfé Byggðasjóðs á verðlagi síðasta árs rúmum 600 millj. kr. Síðan hefur þetta ráðstöfunarfé sjóðsins rýrnað til stórra muna og nemur skv. áætlun byggðadeildar Framkvæmdastofnunar aðeins 276 millj. kr. á yfirstandandi ári. Og nú gerist það í fyrsta sinn síðan 1972 að gert er ráð fyrir að eigið fé Byggðasjóðs verði neikvætt. staðan hjá sjóðnum verði neikvæð. svo nemur 14 millj. skv. þeirri áætlun sem ég hef séð varðandi hag og stöðu sjóðsins.

Beint framlag úr ríkissjóði hefur farið lækkandi stig af stigi á undanförnum árum reiknað á föstu verðlagi. Á árinu 1982 nam það 108 millj. kr., en það hefur nærri því verið helmingað á þeim tíma sem síðan er liðinn og skv. áætlun 1985 er gert ráð fyrir að það verði aðeins 62 millj. kr. Þannig er haldið á málefnum Byggðasjóðs af núv. ríkisstj. á sama tíma og aðrir þættir stjórnarstefnunnar eru stórkostlega veikjandi fyrir stöðu landsbyggðarinnar og hafa orðið þess valdandi að fólk leitar í síauknum mæli til aðafþéttbýlissvæðis landsins hér við Faxaflóa.

Ég ætla þá að víkja aðeins að því sem ég tel vera meginatriði í sambandi við þróun byggðamála hér í landinu. Það er að sjálfsögðu það að þeir sem með stjórn fara sjái til þess að finna fjármagninu í landinu farvegi þannig að líklegt sé að við getum byggt landið allt til frambúðar, að sú starfsemi sem er til staðar eða þarf að koma fótum undir úti um landið hafi þróunar- og vaxtarmöguleika. Hvernig hefur þessu verið háttað í tíð núv. ríkisstj. Um það mætti nefna mörg dæmi og margar tölur. Ég vil hér aðeins rifja upp það sem snýr að sjávarútveginum á undanförnum tveimur árum.

Varðandi málefni hans liggur fyrir að þar hefur farið fram stórfelldasta eignaupptaka sem um getur í sögu lýðveldisins vegna þeirra rekstraraðstæðna sem þessum undirstöðuatvinnuvegi landsmanna hafa verið búnar. Skv. tölum frá Seðlabanka Íslands liggur það fyrir að eigið fé fyrirtækja í sjávarútvegi hefur rýrnað sem nemur 6 milljörðum kr. á aðeins tveimur árum. Og þessi þróun er enn í fullum gangi. 6 þús. millj. kr. hafa verið teknar frá fyrirtækjum í sjávarútvegi sem að miklum meiri hluta eru staðsett úti um landið og eru burðarás þéttbýlissvæðanna við sjávarsíðuna. Þessir fjármunir hafa verið fluttir til í þjóðfélaginu og birtast okkur nú m. a. hér í höfuðstað landsins í þeim gífurlegu umsvifum sem milliliðir og þjónustuaðilar hafa hér í krafti þess gróða og þeirrar aðstöðu sem núverandi stjórnarstefna hefur fært þeim í hendur. Byggingarsvæðin sem eru að þjóta upp hér í Reykjavík, nýbyggðasvæðin þar sem um er að ræða fjárfestingu í afleiddum greinum verslunar og þjónustu, eru til komin vegna þessarar stjórnarstefnu sem þannig hefur búið að aðalatvinnuvegi landsmanna, sjávarútveginum.

Hið sama er raunar á ferðinni varðandi aðra höfuðstoð í atvinnulífi landsmanna og landsbyggðarinnar, landbúnaðinn. Það er svipuð þróun í gangi þó að við höfum ekki tölu handa á milli til þess að færa henni stað með jafnglöggum hætti og í sjávarútveginum. En þar hefur það m. a. verið að gerast á þessum árum að vinnslustöðvar í landbúnaði hafa verið fluttar frá aðalframleiðslusvæðunum til Reykjavíkur, eins og gerist með stórbyggingu Mjólkursamsölunnar hér í Reykjavík svo dæmi sé tekið.

Þetta er byggðastefnan í reynd. Þetta er sú andbyggðastefna sem núv. ríkisstj. hefur fylgt. Og við hljótum að spyrja um það hér á Alþingi þegar þessi mál eru til umræðu: Eru nokkrar líkur til þess að frv. eins og það sem hér liggur fyrir breyti þessum aðstæðum, breyti þessum forsendum Svarið er því miður nei. Það er ekkert sem fram hefur komið í stefnu eða störfum ríkisstj. nú t. d. af tilefni þess að kjörtímabil hennar er hálfnað og hún hefur nýlega haldið upp á tveggja ára afmæli sitt, sem veiti okkur von um að hér verði breyting á.

Í því frv. sem hér liggur fyrir hefðu þurft að koma fram áherslur sem snéru þessari þróun við og þar hefði átt að taka stefnumarkandi á þeim atriðum sem ekki síst skipta sköpum til lengri tíma litið í sambandi við byggðaþróun í landinu, þ. e. vöxt og viðgang þjónustustarfseminnar í landinu og dreifingu þjónustustarfsemi, hvort sem um er að ræða hina opinberu starfsemi eða starfsemi á vegum einkaaðila.

Í grg. frá byggðadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins, sem ég hef fengið aðgang að fyrir nokkru, er einmitt vikið að þessum atriðum með mjög skilmerkilegum hætti. Þar er það dregið fram á grundvelli reynslu liðinna ára að fjölgun starfa í frumvinnslugreinum skipti ekki sköpum fyrir þróun byggðar í landinu, heldur er það þjónustustarfsemin. Það liggur þannig fyrir að fyrir hvert eitt nýtt starf í frumvinnslugreinum sem myndast á landsbyggðinni koma níu störf í þjónustustörfum á höfuðborgarsvæðinu — heil níu störf í þjónustustörfum á þessu svæði. Það er á þessu sviði sem vaxtarbroddurinn er í nýjum störfum og á það bæði við um þjónustu á vegum hins opinbera og á vegum einkaaðila. Hér fylgjum við í rauninni svipuðu mynstri og vel þekkt er frá nágrannalöndum okkar í þessum efnum, en ég þori að fullyrða að hvergi, þó að víða sé þar öfugþróun í gangi í byggðamálum, hefur stefnt í slíkt óefni og hérlendis í þessum efnum, enda ekki tilburðir uppi af hálfu núv. ríkisstj. til þess að fá þarna breytingu á.

Ég held að fátt væri mikilvægara í sambandi við byggðamálin og þau atriði sem ríkisvaldið getur haft bein áhrif á en að reyna að tryggja að störf í þjónustugreinum komi fyrst og fremst til á næstunni út um byggðir landsins, að staðið verði að því með skipulegum hætti að dreifa hinni opinberu stjórnsýslu með samvinnu ríkis og sveitarfélaga eða nýs stjórnsýslustigs sem rætt er um að koma upp og margir telja að geti styrkt stöðu landsbyggðarinnar ef til kæmi. Ég held að það megi ekki dragast að slík stefna um dreifingu þjónustustarfseminnar verði mörkuð samhliða því sem frumvinnslugreinunum, undirstöðuatvinnugreinum í landinu verði sköpuð viðunandi rekstrarskilyrði. Það eru í reynd lyklarnir að því að fá hér fram breyttar áherslur í byggðamálum. Það eru þeir lyklar sem máli skipta en sem hvergi er að finna í því frv. sem hér liggur fyrir til umr.

Það hefur verið rætt við þessa umr. nokkuð um þýðingu þess að fá fram breyttar áherslur í sambandi við stöðu landsbyggðarinnar að því er varðar sveitarfélög, samtök sveitarfélaga eða nýtt stjórnsýslustig. Ég er einn af þeim sem taka undir það að við eigum að reyna nýjar leiðir í sambandi við uppbyggingu stjórnsýslunnar í landinu til þess að auka vægi landsbyggðarinnar. En ég vara við því að menn bindi of miklar vonir við slíka breytingu eina saman. Hún getur, ef vel tekst til, skipt miklu, en þó því aðeins að jafnhliða verði tekið á þeim þáttum með allt öðrum hætti sem ég hef gert hér að umtalsefni og mestu varða í sambandi við viðgang byggðarlaganna um land allt. Ég held að eitt af því sem má segja að tengist þessu og sem varðar efni þessa frv. sé spurningin um hverjir fara með það fjármagn sem ráðstafað er sérstaklega til byggðamála. Og ég held að einn þátturinn sem tengist þeim hugmyndum um valddreifingu, sem ég mælt með og hef raunar flutt um sérstaka þáltill. ásamt Steingrími J. Sigfússyni í Sþ., ætti að vera sá að það fjármagn sem hið opinbera ver til byggðamála verði til ráðstöfunar úti í landshlutunum sjálfum á vegum héraðsstjórna sem komið yrði upp með lýðræðislegum hætti. Ég held að slík valddreifing í málefnum landsbyggðarinnar sé mjög þýðingarmikil og það sé eitt af stóru verkefnunum í byggðamálum, sem landsbyggðarmenn alveg sérstaklega hljóti að gefa gaum, að knýja fram breytingu frá því miðstýrða kerfi stjórnsýslu og ráðstöfunar á fjármagni sem við búum hér við og öðru fremur hefur orðið þess valdandi að færa fjármagnið og á eftir því fólkið að meiri hluta til yfir á eitt landshorn.

Herra forseti. Ég ætla ekki að þessu sinni að ræða þessi stóru mál hér frekar. Ég geri ráð fyrir að það verði tilefni til þess að fjalla um þau m. a. í tengslum við þá till. sem ég nefndi hér áðan og ég hef flutt með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni um nýja byggðastefnu og valddreifingu til héraða og sveitarfélaga. Þetta frv., sem hér er til umr., skiptir því miður ekki sköpum. Í það vantar flest það sem við á að éta til þess að löggjafinn marki nýjar leiðir í byggðamálum, leiðir sem séu líklegar til þess að snúa við þeirri öfugþróun sem nú er í fullum gangi.