03.06.1985
Neðri deild: 81. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5832 í B-deild Alþingistíðinda. (5183)

456. mál, Byggðastofnun

Frsm. meiri hl. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa langt mál um þessar umr. Það er þá fyrst að ég tel eðlilegra að vista Byggðastofnun undir forræði forsrh. en félmrh. Þessi stofnun þarf að þjóna ríkisstj. í heild eða hafa samstarf við mörg ráðuneyti og er eðlilegt að hún sé vistuð hjá forsrn.

Ég tel það fjarri lagi og vil bera það til baka að þessi skipulagsbreyting, sem hér er verið að gera, brjóti í bága við byggðastefnu. Byggðastefnunni er að mínum dómi betur borgið með öflugri byggðastofnun en með núverandi fyrirkomulagi. Framkvæmdastofnun og byggðadeild Framkvæmdastofnunar hafa margt vel gert á undanförnum árum, en starfsemi þeirra hefur ekki verið fullkomin og ég held að hér sé farið inn á rétta leið og þessi skipulagsbreyting verði einmitt til þess að efla byggðastefnu í landinu.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að benda á 3. gr. frv. sem hljóðar þannig:

„Byggðastofnun fylgist með þróun byggðar í landinu.

Stofnunin getur gert eða látið gera áætlanir um þróun byggða og atvinnulífs í þeim tilgangi að treysta búsetu og atvinnu í byggðum landsins.

Í samræmi við hlutverk stofnunarinnar veitir hún lán eða annan fjárhagslegan stuðning í því skyni m. a. að bæta aðstöðu til búsetu í einstökum byggðarlögum og koma í veg fyrir að óæskileg byggðaröskun eigi sér stað eða lífvænlegar byggðir fari í eyði.“

Hér hefur komið fram gagnrýni á það að landshlutasamtökunum sé ekki nægilega sinnt í þessu frv. Það er rétt, sem hér hefur komið fram. að fyrirsvarsmenn landshlutasamtaka mættu á fundi nefndarinnar og settu þar fram sínar óskir, en ég bendi á 9. gr. frv. sem einmitt gerir ráð fyrir því að við landshlutasamtökin geti verið um samstarf að ræða. Þar segir, með leyfi forseta:

„Stjórnin getur jafnframt fjallað um byggðaáætlanir sem aðrir aðilar. svo sem sveitarstjórnir eða landshlutasamtök, hafa gert og lagt fyrir hana til samþykktar. Heimilt er stjórninni að ákveða að stofnunin skuli taka þátt í kostnaði við slíka áætlanagerð.“

Þetta tel ég að tryggi fullkomlega að samstarf verði haft um skynsamleg verkefni við landshlutasamtökin og sé ekki að það þurfi að negla það betur niður. Ef menn eru hins vegar að líta til þess, sem viðgengist hefur undanfarið, að Byggðasjóður hefur greitt fjárframlög til almennrar starfsemi landshlutasamtakanna. þá tel ég að þeim sé betur fyrir komið á fjárlögum og þá metin þar hverju sinni.

Ég vil taka það fram að ég er mjög andvígur brtt. hv. þm. Halldórs Blöndals og Svavars Gestssonar um staðsetningu þessarar stofnunar á Akureyri. Að sjálfsögðu er það stjórnar stofnunarinnar að ákveða hvar hún er vistuð. Ég bendi á að henni er ætluð fasteign hér í Reykjavík. Og að ýmsu leyti tel ég hana heppilegar þar staðsetta til þess að þjóna landinu en á Akureyri. En ef væntanleg stjórn stofnunarinnar kæmist að annarri niðurstöðu er það alveg í valdi hennar að vista Byggðastofnun einhvers staðar annars staðar.

Ég tel hótanir hv. þm. Svavars Gestssonar ósmekklegar og þær hafa ekki áhrif á mig þó hann muni hér fara að stunda einhverja auglýsingastarfsemi í sambandi við það hvernig menn greiða atkv. um þessa brtt. Það kann að vera að þetta hafi eitthvað virkað á hv. þm. Halldór Blöndal. en það virkar ekki á mig.