04.06.1985
Sameinað þing: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5839 í B-deild Alþingistíðinda. (5188)

220. mál, beinar greiðslur til bænda

Egill Jónsson:

Herra forseti. Mér finnst ástæða til þess að færa fyrirspyrjanda þakkir fyrir að hafa lagt þessa fsp. fram nú sem áður og raunar fyrir baráttu hans fyrir því að í viðskiptum á milli bænda og þeirra sem við þá versla væri tekinn upp viðskiptamáti sem samrýmdist eðlilegum háttum í þeim efnum. Mér er það vel ljóst að miðað við þá skipan mála sem hefur verið valdi hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson þá einu leið sem var fær með því að ekki var ljóst á haustdögum í raun hvað mikið seldist af búvöruframleiðslunni hverju sinni.

Með nýrri skipan þessara mála, sem nú er lagt til að verði upp tekin með þeim breytingum sem gerðar eru á framleiðsluráðslögunum, opnast nýjar og skilvirkari leiðir í þessum efnum eins og þar er lagt til og vonandi verður rætt innan skamms. Mér finnst hins vegar sérstök ástæða til að vekja athygli á þessu og þá sérstaklega á því starfi og á þeim áhuga sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson hefur sýnt hér framar öllum öðrum þm. Hann hefur rutt þá leið, sem nú er í augsýn, að bændur njóti sams konar kjara og verði umgengnir með sama hætti í viðskiptum og aðrir þjóðfélagsþegnar.