06.11.1984
Sameinað þing: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 773 í B-deild Alþingistíðinda. (519)

38. mál, tekjutap ríkissjóðs vegna undanþága frá söluskatti

Fyrirspyrjandi (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Ég vil leiðrétta hv. 3. þm. Norðurl. v. því að hér er ekki fyrst og fremst um að ræða mínar ályktanir. Ég lagði fram spurningar til hæstv. fjmrh. Hæstv. fjmrh. svaraði á þá leið hvað mætti álykta af gefnum staðreyndum um tekjuauka ríkissjóðs. Ég hef ekki slegið neinu föstu um hvort sú leiðin væri réttari að halda áfram afnámi söluskatts á hluti eins og heilbrigðisþjónustu, en vil vekja athygli á því að í tillögum um upptöku virðisaukaskatts í stað söluskatts byggja allar fram komnar tillögur á því að virðisaukaskatturinn geti því aðeins orðið framför að hann verði í stórum dráttum án undanþága. Hér væri því um það að ræða, ef við stefnum á virðisaukaskatt, að stíga skref í þá sömu átt, m.ö.o. hæfileg aðlögun að virðisaukaskatti. — Hitt kemur mér ekki á óvart að hæstv. fyrrv. fjmrh. skuli vera mikill andstæðingur þess að afnema undanþágur þar sem hann var mjög mikilvirkur undanþágusmiður sjálfur.