04.06.1985
Sameinað þing: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5840 í B-deild Alþingistíðinda. (5190)

220. mál, beinar greiðslur til bænda

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Þær umræður sem hér hafa spunnist hafa farið út í umræður um fleira en fjármuni. Hv. 11. landsk. þm. taldi að bændur væru ekki umgengnir eins og annað fólk og verður dálítið torskilið hvað liggur á bak við þá fullyrðingu. Mér er ekki ljóst hvort hv. fyrirspyrjanda, 4. þm. Norðurl. v., er nokkur greiði gerður með slíkum málflutningi.

Ég vil minna á að í röðum sjálfstæðismanna hafa verið ýmsir mætir bændafulltrúar í gegnum tíðina, en frúlega ber þó hæst af þeim sem á seinni árum skiptu sér af landbúnaðarmálum fyrrverandi landbrh. Ingólf Jónsson á Hellu. Mér er ekki ljóst hvort þær aðdróttanir sem felast í ummælum bæði hv. 11. landsk. þm. og einnig aðdróttanir sem felast í ummælum fyrirspyrjanda, þar sem hann telur að fjármagnið hafi ekki farið til sinna eigenda, eiga beinlínis að kasta rýrð á störf manna sem unnu að þessum málum, eins og hv. fyrrverandi landbrh. Ingólfs Jónssonar.

Ég þarf ekki að hafa þessi orð fleiri, herra forseti. Ég vona að þau skiljist fullkomlega, hvað sagt hefur verið.