04.06.1985
Sameinað þing: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5847 í B-deild Alþingistíðinda. (5196)

471. mál, stofnun Útflutningsráðs

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Reykn. hefur borið upp þrjár fsp. sem hann hefur gert grein fyrir og ég mun svara á þessa leið:

Eins og kunnugt er skipaði ríkisstj. í janúarmánuði s. l. nefnd um útflutningsmál. Til þess að svara 1. tölul. fsp. vil ég taka fram að nefndinni var falið að athuga og gera tillögur um fyrirkomulag útflutningsmála og þá sérstaklega með hvaða hætti mætti efla samstarf útflytjenda og stjórnvalda á sviði útflutnings. Nefndin var skipuð í framhaldi af samþykkt ríkisstj. þar sem m. a. er fjallað um hvort ekki sé rétt að ein og sama stofnunin, útflutningsmiðstöð, annist aðstoð við útflytjendur þar sem fulltrúar frá öllum greinum útflutnings ættu aðild að ásamt fulltrúum ríkisvaldsins í sérstöku útflutningsráði, eins og þar segir, með leyfi forseta.

Í rn. hefur verið tjáð af formanni nefndarinnar Ólafi Davíðssyni hagfræðingi að innan nefndarinnar hafi verið einhugur um nauðsyn þess að koma á auknu samstarfi í útflutningsmálum. Þetta samstarf gæti m. a. tekið til sameiginlegrar kynningar á vörum og þjónustu og til landkynningar sem hefur mikið gildi fyrir alla útflutningsstarfsemi. Nefndarmenn hafa verið sammála um að koma þyrfti á samstarfsvettvangi fyrir þessa starfsemi. Á slíkum vettvangi mætti einnig vinna að sameiginlegri markaðsathugun þar sem ástæða þætti til og einnig gæti hún verið farvegur fyrir nýmæli í útflutningi.

Að undanförnu munu umræður innan nefndarinnar einkum hafa snúist um hvernig hentugast verði að koma þessum samstarfsvettvangi á laggirnar og hvaða kostnað það hefði í för með sé. Niðurstaða mun væntanlega liggja fyrir innan skamms.

Hvað snertir undirbúning að ári útflutnings vil ég einungis minna á að hópi manna undir forustu Ragnars Kjartanssonar forstjóra hefur verið falið að annast undirbúninginn. Tillögur liggja ekki fyrir, en rn. hefur verið tjáð bréflega að þær muni liggja fyrir áður en þessi mánuður er liðinn. Á þessu stigi er því ekki tímabært að fjalla opinberlega um þær hugmyndir sem nefndin vinnur nú að.

Um 3. tölul. fsp. skal þetta sagt:

Nefndin um útflutning verkefna og þjónustu var skipuð skömmu eftir síðustu áramót undir forustu Magnúsar Gunnarssonar framkvæmdastjóra. Fyrir nefndina var lagt að greiða fyrir þessari tegund útflutnings, einkum á sviði sjávarútvegs og orkuvinnslu. Á fundum nefndarinnar hefur setið fulltrúi frá Útflutningsmiðstöð iðnaðarins. Rn. hefur verið tjáð að starfi nefndarinnar megi í stórum dráttum skipta í þrjá hluta.

Í fyrsta lagi mun nefndin hafa talið það hlutverk sitt að kanna og auka áhuga innlendra aðila á útflutningi verkefna og þjónustu. Þessum hluta verkefnisins má aftur skipta í þrennt. Nefndin hefur staðið fyrir fundahöldum með einstaklingum. fyrirtækjum, hagsmunasamtökum og opinberum stofnunum til að kynnast betur sjónarmiðum þeirra varðandi þessa tegund útflutnings og kanna áhuga þeirra á auknu samstarfi sín á milli. Þá var efnt til kynningarfunda í samvinnu við Útflutningsmiðstöð iðnaðarins fyrir þessa aðila þar sem danskur ráðgjafi flutti fyrirlestur um efnið: Verkefnaútflutningur: skilyrði til þess að ná árangri. Þetta starf hefur nefndin í hyggju að útfæra nánar og eru uppi ýmsar hugmyndir innan nefndarinnar um hvernig að því skuli staðið. Á þessu stigi er ekki tímabært að rekja það nánar, eins og ég vík að síðar.

Í öðru lagi, og með vísan til þess sem þegar hefur komið fram, hefur nefndin að vissu marki verið milligöngumaður um að koma sjónarmiðum og óskum þeirra, er áhuga hafa á útflutningi verkefna og þjónustu, á framfæri við stjórnvöld, bæði rn. og aðrar ríkisstofnanir. Hér má nefna tvennt til: Annars vegar hafði nefndin milligöngu um að iðnrn. veitti verkfræðifyrirtæki skilorðsbundinn fjárstyrk til að kosta forrannsóknir á jarðhitaverkefnum í Tyrklandi í samvinnu við Orkustofnun og danska aðila. Fyrstu athugun er nú lokið og munu íslenskir og danskir aðilar eiga með sér viðræður innan skamms um framhaldið. Hins vegar hefur nefndin komið þeim óskum á framfæri við viðskrn. að athugað verði hvort hagkvæmt geti reynst að Ísland gerist aðili að einhverjum hinna þriggja stóru svæðisþróunarbanka, Ameríkubankans, Afríkubankans eða Asíubankans. Það starf er nú hafið í viðskrn. Starf nefndarinnar sem milligöngumanns hefur einnig verið fólgið í því að koma á framfæri hugmyndum við fyrirtæki. Þ. á m. má nefna að nefndin hefur í samvinnu við Útflutningsmiðstöð iðnaðarins og stjórnarmenn Íslands í Norræna verkefnasjóðnum leitast við að móta tillögur um hvernig verja ætti 7 millj. norskra kr. sem ráðherranefnd Norðurlandaráðs hefur ákveðið að verja til útflutningseflandi ráðstafana á Norðurlöndum árin 1986–1987.

Í þriðja og síðasta lagi hafa á vegum nefndarinnar verið gerðar tillögur sem lagðar verða fyrir viðskrn., um hvernig best verði að því staðið af hálfu stjórnvalda í framtíðinni að greiða fyrir útflutningi verkefna og þjónustu. Það starf tengist störfum nefndarinnar um útflutningsmál sem ég gerði grein fyrir hér að framan.

Eins og áður er sagt er ekki tímabært nú að gera nánari grein fyrir störfum þeirra þriggja nefnda sem fsp. sem hér liggur fyrir lýtur að. Eins og fram hefur komið er tillagna frá þeim að vænta innan skamms og þegar þær hafa verið skoðaðar í viðskrn. verða þær kynntar almenningi. Af því ætti að geta orðið áður en langt um líður.