04.06.1985
Sameinað þing: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5850 í B-deild Alþingistíðinda. (5199)

489. mál, fóstureyðingar

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Landlæknisembættið, sem hefur umsjón með upplýsingasöfnun um þessi mál, hefur gefið mér eftirfarandi upplýsingar sem svör við þessum fjórum fsp.:

1. Á árunum 1976–1984 voru framkvæmdar 4990 fóstureyðingar á grundvelli laga nr. 25 frá 1975. Á þessu tímabili hefur fóstureyðingum fjölgað frá ári til árs þannig að árið 1976 voru þær 368, árið 1980 523, árið 1982 613 og 1984 735.

2. a. Ekki er unnt að svara þessum lið fsp. fyrir árið 1984 þar sem úrvinnslu er ekki lokið. En á árunum 1976–1983 voru samtals gerðar 610 fóstureyðingar á grundvelli a-, b- og c-liða 1. tl. 9. gr. laganna. Þar er um að ræða í a-hð mörg börn með stuttu millibili og skammt frá síðustu fæðingu, í b-lið bágar heimilisástæður, vegna ómegðar eða alvarlegs heilsuleysis annarra á heimilinu og í c-lið æsku eða þroskaleysi. Árlegur fjöldi þessara fóstureyðinga var á bilinu 70–90.

b. Á tímabilinu 1976–1983 voru gerðar 2805 fóstureyðingar á grundvelli d-liðar 9. gr., þ. e. vegna annarra félagslegra ástæðna. Fóstureyðingum skv. þessum lið hefur fjölgað jafnt frá ári til árs. Þær voru 161 1976 en 483 1983.

c. Á tímabilinu 1976–1983 voru gerðar 448 fóstureyðingar af læknisfræðilegum ástæðum eingöngu. Fjöldi þessara fóstureyðinga fór vaxandi úr 66 árið 1976 í 104 1979, en síðan minnkandi niður í 33 1983. Ástæður fjölgunar 1978 og 1979 var rauðuhundafaraldur sem þá gekk yfir.

3. Á tímabilinu 1976–1983 voru gerðar 473 fóstureyðingar hjá konum sem áður höfðu gengist undir fóstureyðingu. Af þessum hópi höfðu 422 konur einu sinni áður gengist undir fóstureyðingu, 47 tvisvar og 4 þrisvar.

Á tímabilinu 1976–1983 voru gerðar 59 fóstureyðingar eftir 12. viku meðgöngu af félagslegum ástæðum eingöngu, þ. e. frá 13. til 16. viku. Slíkar fóstureyðingar eru einungis heimilaðar með leyfi úrskurðar- og eftirlitsnefndar sem starfar skv. 28. gr. laganna frá 1975. Á tímabilinu 1976–1983 voru framkvæmdar samtals 141 eftir 12. viku meðgöngutíma. Þar af voru 36 aðgerðir gerðar eftir 16. viku; allar af læknisfræðilegum ástæðum. Af þeim 105 fóstureyðingum sem gerðar voru á 13.–16. viku meðgöngutímans voru forsendur eingöngu læknisfræðilegar í 27 tilvikum, eingöngu félagslegar í 59 tilvikum en bæði félags- og læknisfræðilegar í 16 tilvikum.

Ljóst er að þótt tekið sé verulegt tillit til fjölgunar kvenna á barneignaraldri hefur orðið veruleg fjölgun fóstureyðinga hér á landi frá því að lögin frá 1975 tóku gildi. Sú fjölgun var reyndar byrjuð áður eða upp úr 1970. Samanborið við nágrannalönd okkar, sérstaklega Norðurlöndin, eru fóstureyðingar hér á landi þó með því lægsta sem gerist. Er þá sama hvort miðað er við fjölda kvenna á barneignaraldri eða fjölda fæðinga.

Ef við berum þessar tölur saman við tölur frá árunum áður en þessi lög tóku gildi er þess að gæta að við höfum ekki fyllilega sambærilegar tölur frá þeim tíma vegna þess að grunur lék á um að ekki hafi allt verið skráð í þeim efnum. Munurinn er því e. t. v. heldur minni í reynd og kæmi það í ljós ef fullnægjandi upplýsingar lægju fyrir frá þessum tíma áður en lögin tóku gildi.