15.10.1984
Efri deild: 3. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í B-deild Alþingistíðinda. (52)

10. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð til að lýsa almennum stuðningi við þetta mál.

Þetta er ekki nýtt mál í þinginu. Alþfl. hefur flutt þetta mál hér í þingsölum með mjög svipuðum hætti og þarna er gert. Þó að Bandalag jafnaðarmanna hafi kosið að taka það eitt og án samráðs við Alþfl., þá er það auðvitað hverjum manni frjálst. En við höfum lýst stuðningi við þetta mál með flutningi þess í þinginu áður.

Varðandi það, sem borið hefur hér á góma, til hverrar nefndar þetta mál skuli fara, þá lýsi ég stuðningi við þá hugmynd að þetta sérstaka mál, sem varðar framleiðsluráðslögin, fari til fjh.- og viðskn. Þetta mál er þannig vaxið, þó svo ýmis önnur mál sem varða breytingar á framleiðsluráðslögunum eigi með eðlilegum hætti heima í landbn., að ég hygg það sé betur komið hjá fjh.- og viðskn. Kannske ekki síst vegna þess hver urðu afdrif málsins í fyrra hjá þeirri virðulegu nefnd, landbn., að málið hreinlega gleymdist, týndist, tapaðist eða lenti á einhverjum þeim villigötum að það fékk ekki eðlilega meðhöndlun.

Auðvitað ber ég traust til væntanlegs formanns landbn., hv. þm. Egils Jónssonar, í þessum efnum, en ég neita því ekki að ég ber meira traust til þess manns sem ég vænti að verði formaður fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar. Þegar þar að kemur fulltreysti ég honum til að þetta mál fái góða og eðlilega umfjöllun, en það þýðir ekki að ég vantreysti væntanlegum formanni landbn. þessarar hv. deildar.

Ég tek undir þá fsp. sem hér var flutt til hæstv. dómsmrh. um endurskoðun framleiðsluráðslaganna. í plaggi sem lagt var á borð okkar þm. í dag, þjóðhagsáætlun fyrir árið 1985, stendur á bls. 16, með leyfi forseta: „Í samræmi við þessi markmið verða lög um Framleiðsluráð landbúnaðarins og önnur lög, sem landbúnaðinn varða, endurskoðuð að höfðu samráði við samtök bænda á eftirgreindum grundvelli.“

Síðan eru talin upp allmörg atriði og sum býsna skynsamleg, óvenjuskynsamleg. En málið er: Er ekkert farið að endurskoða þessi lög? Hefur engin vinna átt sér stað í því? Ég spyr gagngert vegna þess hvernig tekið er til orða hér. Verða lög um Framleiðsluráð landbúnaðarins og önnur lög, sem landbúnaðinn varða, endurskoðuð? Það er ekki að sjá eða skilja af þessu orðalagi, að þessi endurskoðun, sem átti að hefjast fyrir meira en ári síðan, — ef mig ekki misminnir var það eitt af því sem tiltekið var í stjórnarsáttmála þessarar hæstv. ríkisstj. — hafi farið fram. Er það í raun og veru svo að ekkert hafi verið gert í þessu eða lítið? Ég tek undir fsp. hv. þm. Helga Seljans um það hvernig þessi mál standi og hvað þessari vinnu líði vegna þess að þetta er mikilvægt mál. Það er svo að sjá sem þarna hafi mönnum ekkert miðað, eins og lýst hefur verið yfir, og væri æskilegt að fá svör hæstv. landbrh. við því.