04.06.1985
Sameinað þing: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5853 í B-deild Alþingistíðinda. (5204)

489. mál, fóstureyðingar

Fyrirspyrjandi (Árni Johnsen):

Herra forseti. Ég vil fagna því, sem fram kom hjá hæstv. heilbrrh., að það verði könnuð staða þessa máls. Ég tel ástæðulaust að fella dóm um framkvæmd laganna, en eins og ég gat um í máli mínu fyrr tel ég fulla ástæðu til að skoða það ofan í kjölinn hvernig þetta hefur átt sér stað og rökin fyrir því.

Þegar um er að ræða fóstureyðingar hjá sömu konu tvisvar á einu ári hlýtur að vera hægt að kalla það getnaðarvörn, það verður að nota svo stórt orð í þeim efnum. Það er ótrúlega hátt hlutfall og tíðni í sambandi við það. M. a. af þeim ástæðum, sem ég gat um, að helmingur er af ósundurliðuðum ástæðum, þá finnst mér sérstök ástæða til að skoða málið ofan í kjölinn.