04.06.1985
Sameinað þing: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5853 í B-deild Alþingistíðinda. (5206)

490. mál, fóstureyðingar

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Eins og ég tók fram í svörum við fyrri fsp. um líkt efni hefur landlæknisembættið gefið mér svör við þessum fsp.

Svar við fyrstu fsp. er svohljóðandi: Frá árinu 1976 til ársloka 1984 fékk úrskurðar- og eftirlitsnefnd skv. 28. gr. laga nr. 25 frá 1975 samtals 138 erindi vegna ágreinings eða undanþágu um fóstureyðingar. Það er ekki hægt að sundurgreina erindin á fullnægjandi hátt eftir því hvort um ágreining eða undanþágu er að ræða.

Svar við 2. fsp.: Það liggja ekki fyrir nákvæmar tölur fyrir tímabilið 1976–1979, en 1980–1984 voru slík mál átta talsins.

Svar við 3. fsp.: Svarið er tvíþætt og fer eftir lengd meðgöngu. Fyrir 10.–16. viku meðgöngu eru félagslegar ástæður oftar tilgreindar, en eingöngu læknisfræðilegar þegar meðganga er 17 vikur eða meira. Þegar á heildina er litið eru félagslegar ástæður oftar tilgreindar.

Svar við 4. spurningu: Á tímabilinu 1975–1984 var umsóknum um fóstureyðingu, sem nefndinni bárust, synjað í 24 tilvikum.

Svar við 5. og síðustu spurningunni: Einu sinni hefur verið synjað um fóstureyðingu af þessum ástæðum.