04.06.1985
Sameinað þing: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5862 í B-deild Alþingistíðinda. (5221)

513. mál, fjölgun vínveitingaleyfa

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Austurl. hefur borið fram fsp. um fjölgun vínveitingaleyfa á síðustu tveimur árum.

Í lok maímánaðar 1983 voru alls 56 vínveitingahús á landinu. Þau voru þá 28 í Reykjavík, 16 í öðrum kaupstöðum og 12 utan kaupstaða. Nú eru vínveitingahús á öllu landinu um 91 talsins. þar af 42 í Reykjavík. 29 í öðrum kaupstöðum og 20 í sýslum.

Ástæða fyrir fjölgun er fyrst og fremst mikil fjölgun umsókna eftir leyfum. Árin 1981–1983 hafði vínveitingahúsum fjölgað allmikið og sérstaklega úti á landi. Þar munar sennilega mestu um sumarhótel, en þá var bætt við vínveitingaleyfum til þeirra sem rekin voru aðeins yfir sumarið, t. d. Edduhótelanna. Orðið hefur áframhald á umsóknum fyrir þau. Alþingi lét einnig fyrir skömmu í ljós sína afstöðu með breytingu á lögum þar sem gert var ráð fyrir að vínveitingahús utan kaupstaða mætti hafa allt árið sem áður var takmarkað. Á þeim tveim árum sem liðin eru hefur húsunum fjölgað um 35, en fjögur hafa hætt rekstri og þar af hafa tvö ekki fengið endurnýjunarleyfi. Á sama tíma sem þetta hefur gerst hefur verið synjað um ný leyfi í a. m. k. 13 tilfellum. Þannig hafa ekki allir fengið leyfi sem um hafa sótt.

Í 12. gr. áfengislaga frá 1969 segir að dómsmrh. sé heimilt að veita veitingahúsum leyfi til vínveitinga að uppfylltum skilyrðum sem varða það annars vegar að veitingahús hafi á boðstólum mat og fjölbreytta óáfenga drykki við hóflegu verði og hins vegar að það sé fyrsta flokks að því er snertir húsakynni. veitingar og þjónustu. Um síðara atriðið dæmir sérstök nefnd. matsnefnd vínveitingahúsa. sem í eiga sæti einn fulltrúi tilnefndur af áfengisvarnaráði, einn af Sambandi veitinga- og gistihúsa og formaður skipaður af ráðh.

Enn fremur segir í lagagr. að leita skuli umsagnar viðkomandi bæjarstjórnar eða sýslunefndar áður en leyfi er veitt og er óheimilt að veita leyfi ef þessir aðilar eru leyfisveitingunni mótfallnir.

Skv. framansögðu verður leyfið ekki gefið út gegn umsögn matsnefndar vínveitingahúsa og hlutaðeigandi bæjarstjórnar eða sýslunefndar.

Ég hef leitast við að beita nokkru aðhaldi í þessum efnum þó að vissulega megi segja að niðurstaðan af þessum tölum hendi ekki beinlínis til þess. Ég hef beitt mér fyrir því að nú er jafnan leitað til áfengisvarnanefnda um umsóknir um vínveitingaleyfi, bæði í upphafi og við endurnýjun. Í sumum tilfellum a. m. k. lýsa áfengisvarnanefndir ekki yfir andstöðu sinni við veitingu leyfanna eða mæla með. Einnig beitti ég mér fyrir því að leitað er formlega eftir áliti viðkomandi hreppsnefnda sem ekki er lögskylt að leita til. Allt er þetta gert til að tryggja að varnaðarorð heimamanna nái að koma fram.

Hins vegar er því ekki að leyna að sveitarstjórnir og sýslunefndir hafa ekki virst vera mikið á varðbergi, heldur mælt með útgáfu leyfa og jafnvel beitt þrýstingi. Það er sjálfsagt ýmislegt sem þar hefur áhrif, en við höfum öll orðið vör við að þetta er talið atvinnumál og gjarnan spurt: Af hverju á þetta sveitarfélag ekki að hafa möguleika á að reka sambærilega þjónustu og sveitarfélagið við hliðina og þurfa þá að sækja annað þessa þjónustu sem þegnarnir óska eftir?

Ég hef talið að það væri nauðsynlegt í þessum málum að reyna að hafa samstarf við sveitaryfirvöld sem standa nær íbúunum, en þetta viðhorf hefur mótað afstöðu þeirra. Þess vegna fagnaði ég því mjög að Samband ísl. sveitarfélaga skyldi halda ráðstefnu um þessi mál fyrir stuttu þó að því sé ekki að neita að það kom mér á óvart að ekki skyldi vera haft samband við dómsmrn. um undirbúning hennar því að ég hef reynt nokkuð til þess að leita eftir samstarfi við aðra aðila um að spyrna þarna við fótum og fagna þess vegna hverjum sem þar vill leggja eitthvað af mörkum.

Auk þess sem ég sagði, að nokkuð hefði verið reynt að halda þarna aftur af, hefur einnig verið leitast við að takmarka vínveitingaleyfi sem út hafa verið gefin. Sum leyfi eru takmörkuð vegna þess að það er ekki sótt um fullt leyfi, en um ný leyfi, sem gefin hafa verið úf síðustu tvö misserin, er óhætt að segja að þau hafi flest verið takmörkuð af hálfu rn. Þau heimila að jafnaði aðeins vínveitingar til matargesta. Það er vegna atvinnuþáttarins í þessu máli þar sem sá veitingastaður sem ekki hefur vínveitingaleyfi með mat er ekki talinn standa jafnfætis öðrum og geta veitt þá þjónustu sem þeir sem þangað leita óska eftir.

Rn. hefur lagt áherslu á að eftirliti sé haldið uppi gagnvart vínveitingahúsum og rekstri þeirra og að lögreglustjórar geri viðeigandi ráðstafanir til úrbóta ef út af er brugðið. Nýlega hefur rn. óskað sérstaklega eftir grg. viðkomandi lögreglustjóra um rekstur vínveitingahúsa í Reykjavík, Kópavogi og á Akureyri til þess að betur megi átta sig á því hvernig rekstur fer fram og hver bragur þar er.

Ég mun halda áfram að sporna við þannig að þarna sé reynt að vega og meta hvert einstakt tilfelli, en er ríkisstj. markaði þá stefnu sem var minnst á í tillögum nefndar um mörkun áfengismálastefnu lýsti ég því yfir þegar í upphafi að ég mundi hlíta því og fara eftir þeirri ákvörðun.