04.06.1985
Sameinað þing: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5865 í B-deild Alþingistíðinda. (5224)

513. mál, fjölgun vínveitingaleyfa

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Ekki ætla ég að fara að þreyta kappræðu við fulltrúa vínmenningarinnar hér, hæstv. fulltrúa vínmenningarinnar, svo sem hún telur sig að vísu, en hún talar býsna gáleysislega um þessi mál hér í ræðustól og eingöngu um þær björtu hliðar sem hún sér á þessum málum. Þykir mér það miður með svo vel hugsandi þm. eins og hv. 10. landsk. þm. er að öðru leyti.

Ég dreg ekki góðan vilja hæstv. dómsmrh. í efa. að hann vilji hér sporna nokkuð á móti. — Ekki matargerðarlist. Ég hef ekki reiknað með því að hann væri eitthvað sérstaklega fjandsamlegur nýrri matargerðarlist, eins og hv. 10. landsk. þm. var að reyna að koma honum í skilning um áðan með góðri kennslustund í þeim fræðum. En það er rétt að hér hefur ekki orðið sú fjölgun sem ég nefndi á vínveitingaleyfum s. l. tvö ár. Hún er ekki 50%, heldur 63% skv. þeim tölum sem hæstv. ráðh. fór með áðan. Og ég held að því miður séu þær ástæður, sem hv. 10. landsk. þm. kom hér inn á, ekki réttar. Ég held að þróun s. l. ára með bjórlíkhúsin sem aðaleinkenni sé sú þróun sem sé neikvæðust alls og það er sú þróun sem hefur knúið á um breytingar í þá átt sem hér er verið að fjalla um á Alþingi og sem hv. 10. landsk. þm. nefndi þó snilldarlega, og það eina góða sem hún sagði eiginlega, að væru krár subbuskaparins.

Í beinum tengslum við alls óviðunandi ástand er ég ekki í neinum vafa um að í þeim málum hafa margir breytt um skoðun einmitt vegna þessarar fjölgunar og sagt: Þetta er komið. Það skyldi nú ekki vera að það hafi gerst jafnvel hér á Alþingi líka að menn hafi skipt um skoðun einmitt vegna þessarar fjölgunar á þessum nýju stöðum.

Ég segi það aðeins í lokin að það er lítið um þessar dapurlegu niðurstöður eða dapurlegu svör að ræða. Fjölgun á vínveitingaleyfum almennt er í litlum takt við aðvaranir þeirrar stofnunar sem við eigum að taka mest mark á í þessum efnum, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Hafi einhverjir lagakrókarvaldið þessari þróun með bjórlíkhúsin hlyti að hafa verið unnt að hamla þar nauðsynlega á móti og þá hefði nauðsynlega þurft að breyta lögum því að þessi bjórlíkhús eru vitanlega til þess stofnuð að þrýsta á hömlulausa sölu áfengs öls og tilgangurinn hefur vissulega skilað sér ríkulega, auk þess hæpna en eflaust mikla arðs, eins og hv. 1. þm. Austurl. kom réttilega inn á, örugglega mikla arðs, sem þau hafa skilað sínum eigendum. Ég hlýt í sambandi við þau mál sérstaklega að harma þau vinnubrögð og það aðgerðarleysi sem þar hefur ráðið ríkjum.