04.06.1985
Sameinað þing: 92. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5867 í B-deild Alþingistíðinda. (5228)

272. mál, námskeið fyrir fatlaða í tölvufræðum

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég undrast nokkuð að hæstv. menntmrh. skuli hafa áhyggjur af því hvort hér sé verið að setja fatlaða á einhvern hátt á sérstakan bás. Vitaskuld munu þeir fatlaðir einstaklingar, sem geta sótt aðra skóla, sækja þau námskeið í tölvufræðum sem þar er boðið upp á. Ég er hins vegar ekki eins viss um það og hæstv. ráðh. að það sé unnt f miklum mæli. En þessi till. er auðvitað til þess flutt að þeim sem við alvarlega fötlun búa og eiga erfitt með að sækja skóla og námskeið annars staðar verði séð fyrir slíku námskeiði.

Nú hlýtur hæstv. ráðh. að vita að til er það fatlað fólk sem er svo alvarlega fatlað að mjög sérhæfða kennara þarf til þess að þeim nýtist tölvubúnaður og þarf varla að útskýra það nánar. Við getum hugsað okkur einstaklinga sem ekki hafa neitt vald á handleggjum og aðra slíka og þá verður auðvitað að sjá til þess að þar sé fólk til kennslu sem á slíka fötlun kann.

Í till. er gert ráð fyrir að fötluðum standi til boða að sækja slíkt námskeið sér að kostnaðarlausu. Það gæti þýtt flutningskostnað milli heimilis og kennslustaðar og þar fram eftir götum. Það er auðvitað fullkomlega eðlilegt að félmrn. hafi þetta með höndum þar sem því ber lögum skv. að annast framkvæmd á lögum um málefni fatlaðra, og hvergi eðlilegra en þar að standa fyrir slíku námskeiði.

Þeir aðrir fatlaðir einstaklingar sem geta að miklu eða öllu leyti tekið þátt í lífi og starfi úti á hinum almenna vinnumarkaði þurfa auðvitað ekki á slíkum námskeiðum að halda og er vel ef það er rétt að verulega sé unnið að því að fatlaðir fái kennslu í tölvufræðum í hinu almenna skólakerfi. Og það heyrir að sjálfsögðu undir hæstv. menntmrh. En ég held að það verkefni sem þáltill. gerir ráð fyrir, sem hér um ræðir, eigi hiklaust að framkvæmast á vegum félmrn. og ég treysti því að hv. Alþingi verði jafnsammála og hv. allshn. um að þessari till. beri að fagna og hana beri að samþykkja og ég vænti þess að hún hljóti afgreiðslu hér nú þegar. Ég er viss um að hún verður fagnaðarefni fyrir margt mjög illa fatlað fólk hér í þessu landi.