04.06.1985
Sameinað þing: 92. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5869 í B-deild Alþingistíðinda. (5233)

272. mál, námskeið fyrir fatlaða í tölvufræðum

Frsm. (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Ég vil taka undir það hjá hæstv. menntmrh. að tölvuþekking og hæfni getur auðveldað fötluðum allt annað nám og kannske undir mörgum kringumstæðum opnað þeim alveg nýja möguleika í störfum í þjóðfélaginu.

Það hvarflaði satt best að segja ekki að okkur allsherjarnefndarmönnum að á því kærleiksheimili sem ríkisstj. er gætu skapast neinar deilur um svo gott mál sem þetta. Við litum aftur á móti svo á að stjórnunarlega séð væri skynsamlegt að sami aðili skipulegði og greiddi. Fyrirsjáanlegt þótti að sum námskeið yrðu að vera sérhæfð vegna fötlunar, þátttakendur gætu ekki stundað nám með öðrum á almennum námskeiðum. Á þessum námskeiðum væri ekki eðlilegt að menntmrn. skipulegði en félmrn. borgaði, heldur væri það sami aðili sem skipulegði og greiddi.

En hvað um það. Þetta getur ekki orðið deiluefni á milli nefndarinnar og ráðh. því að mér er ljóst að góður vilji er á bak við hjá hæstv. ráðherrum í þessu máli. Ég trúi því að hvor niðurstaða sem yrði í þessu máli. hvort sem brtt. yrði samþykkt eða menn láti þáltill. fara í gegn óbreytta, sé það ríkur vilji í ríkisstj. að framkvæmdin yrði í alla staði til sóma.