04.06.1985
Sameinað þing: 92. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5869 í B-deild Alþingistíðinda. (5234)

272. mál, námskeið fyrir fatlaða í tölvufræðum

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég er ekki alveg sammála hv. formanni allshn. að þessu leyti. Ég tel það mjög til skaða ef till. hæstv. menntmrh. næði fram að ganga. Í fyrsta lagi held ég að það sé ákaflega óheppilegt að tvö rn. séu að vasast í sama málinu og ekki síst máli eins og þessu. Við skulum ekki gleyma því að síðan lögin um málefni fatlaðra voru sett hér á Alþingi hefur verið vel að þeim málum unnið. Það er deild innan félmrn. sem annast framkvæmd þeirra laga og ég tel að þar hafi verið unnið ótrúlega mikið starf á ótrúlega stuttum tíma. Þar liggur inni mikil þekking á málefnum fatlaðra. Þar er unnið að því að gera fatlaða sem sjálfstæðasta og færasta um að lifa eðlilegu lífi í þjóðfélaginu. Þar með er m. a. atvinnuleit og atvinnumiðlun og annað slíkt. Ég tel að félmrn. sé fullfært um að framkvæma þessa litlu till. eins og hún liggur fyrir.

Ég ætla ekki að fara nánar út í önnur dæmi um þann skaða sem hefur leitt af því og leiðir af því að milli menntmrn. og félmrn. hefur í ákveðnum þáttum þessara mála verið strekkingur sem hefur háð eðlilegu starfi, en ég hef mikið á móti því að hleypa þessu máli í það gímald. Ég vil þess vegna eindregið vara menn við að fara að blanda menntmrn. þarna inn. Að sjálfsögðu sér menntmrn. um hið almenna skólakerfi í landinu og vinnur auðvitað skv. landslögum. skv. grunnskólalögum og öðrum landslögum, að því að gera fötluðum kleift að stunda það nám, en til eru þeir sem geta það ómögulega og ég tel að málefni þeirra falli undir framkvæmdina og lögin um málefni fatlaðra. Og ég held að hér sé alveg óþarfa viðkvæmni á ferðinni. Ég efast ekki um að hæstv. ráðh.. sem hér sitja, gætu kannske talað fallega saman um þessi mál, en ég treysti ekki starfsmönnum þeirra og ég vara við samþykki till. hæstv. ráðh.