04.06.1985
Sameinað þing: 92. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5870 í B-deild Alþingistíðinda. (5235)

272. mál, námskeið fyrir fatlaða í tölvufræðum

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Hv. 10. landsk. þm. lauk máli sínu á að segja að hún treysti ekki starfsmönnum ráðuneytanna. (GHelg: Ég þekki þessi mál, ráðh.) Það þekkja þessi mál margir þm., hv. þm., og sérkennsla er mjög mikilvægt verkefni í landinu. Menntun sérkennara og skilningur hefur sem betur fer farið vaxandi á því efni. Það er ekki aðalatriðið hvar þessi mál eru vistuð og ég er ekki að tala á nótum einhverrar viðkvæmni, heldur bara út frá staðreyndum. Staðreyndirnar eru þær að kennsla hinna fötluðu er verkefni sem menntmrn. eru falin. Ef menn telja það betur komið einhvers staðar annars staðar skulu menn breyta þeim reglum. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það sé á þessu málefnasviði eins og annars staðar mikið jafnréttismál og hjálp við fatlaða að gera þá sem allra líkast setta og aðrir borgarar í þjóðfélaginu eru. Þess vegna hefur sú stefna rutt sér til rúms að kennsla þeirra eigi að fara fram við sem líkastar aðstæður og aðrir hafa. en með því að hafa mannafla á að skipa sem getur annast það. Það er alveg rétt, sem hv. 10. landsk. þm. segir, að sumir þurfa enn sérhæfðari kennslu en þeir sem sitja á almennum skólabekk, enda er ég ekki einungis að tala um hinn almenna skóladag. heldur einmitt hina sérhæfðu kennslu og þetta er þáttur í því. Það er ekki einungis sérhæft vegna þess að um fatlað fólk sé að ræða. heldur er tölvufræðslan grein sem er í uppbyggingu og er líka mjög sérhæfð og það skiptir máli að þess sé líka mjög vel gætt. Sérfræðingar eru að vinna í þessu í menntmrn. Það má vel vera að það sé líka verið að skipuleggja tölvufræðslu í öðrum rn., en ég veit ekki til þess og ég hygg að aðrir ráðherrar viti ekki til þess. Þetta eru einungis hagnýtar ástæður og talað út frá staðreyndum. Það eru ástæðurnar fyrir því að ég kom með þessar ábendingar.