06.11.1984
Sameinað þing: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 777 í B-deild Alþingistíðinda. (524)

65. mál, sala á íslenskum frímerkjum erlendis

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. í fjórum liðum til hæstv. samgrh. á þskj. 66. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„1. Hverjar voru tekjur Pósts og síma af sölu íslenskra frímerkja til annarra landa árið 1980–1983?

2. Hvernig er staðið að kynningu og sölustarfsemi?

3. Eru tekjur af þessari sölu í samræmi við tekjur annarra Norðurlandaþjóða af sambærilegri starfsemi?

4. Hve miklu fé er varið árlega til kynningar á íslenskum frímerkjum erlendis og hversu margir starfsmenn Pósts og síma annast hana?“

Ástæðurnar fyrir fsp. minni eru þær að mikill munur er á sölu íslenskra frímerkja erlendis og sams konar sölu hjá nágrannaþjóðum okkar. Frímerkjasala er arðvænleg atvinnugrein í hæsta máta og getur skilað umtalsverðum tekjum auk mikilsverðrar landkynningar. Því skyldi maður halda að leggja bæri áherslu á öfluga upplýsingastarfsemi og kynningu á hverri nýrri útgáfu íslenskra frímerkja.

Færeyingar hafa t.d. lagt áherslu á útflutning frímerkja til safnara og er frímerkjasala nú 1% af heildarútflutningi eyjanna, þ.e. næst á eftir útflutningi fiskafurða. Hafa þeir nú 70 þús. fasta áskrifendur að hverju nýju frímerki, sem þar er út gefið, en til samanburðar má nefna að einungis 14 þús. fastir áskrifendur eru að íslenskum frímerkjaútgáfum.

Sú deild Pósts og síma sem annast sölu frímerkja hérlendis og erlendis til safnara nefnist Frímerkjasalan. Þar vinna nú átta manns. Til samanburðar má geta þess að fimm manns vinna í þeirri deild er annast skráningu fjarvista starfsmanna. Hljóta þessi hlutföll að vera í meira lagi undarleg og ekki bera vott um að mikil áhersla sé lögð á sölu frímerkja. Það er enda ljóst að mikið vantar á að Frímerkjasalan ráði við annað en að afgreiða þær pantanir sem berast. Hún hefur nær engin afskipti af kynningarstarfseminni, enda telst hún ekki í verkahring hennar. Hana annast aðrir í stofnuninni og er útgáfa kynningarrita vægast sagt dapurleg. Sem dæmi um dauflegan áhuga stofnunarinnar á kynningu á nýjum útgáfum má nefna að árið 1983 birtist engin auglýsing frá íslensku póststjórninni í helstu ritum frímerkjasafnara á Norðurlöndum.

Til þess að hv. þm. hafi einhverja hugmynd um hverjar tekjur hér er um að ræða, hafi einhverjum fundist nokkuð smátt farið í málin hér þegar talað er um frímerki, skal upplýst að Færeyingar seldu frímerki til safnara fyrir 30 millj. d. kr. árin 1980–1981. Það eru rúmar 90 millj. ísl. kr. Á sama tíma seldi Frímerkjasalan á Íslandi, árið 1980 fyrir 5 millj. og árið 1981 fyrir 9 millj. Á þessu er töluverður munur.

Á tímum kreppu og niðurskurðar sýnist hér ekki haldið á málum sem skyldi og ekki að sjá að mikill áhugi sé á þessum augljósa tekjuauka. Í nýbyggðu húsi Pósts og síma við Suðurlandsbraut 28 hefur Frímerkjasalan aðeins 130 fermetra til umráða og er augljóst að skortur á rými hamlar starfseminni nú þegar. Ekkert tillit var heldur tekið til tillagna starfsmanna, sem síðar. verður aðeins vikið að, við byggingu hússins.

Mikilvægur þáttur í kynningu á íslenskum frímerkjum er þátttaka í samsýningum víða um lönd. Deildarstjóri Frímerkjasölunnar hefur sáralítil afskipti af ákvörðun um þátttöku í þeim, enda hefur af þeim þætti veg og vanda íslensk kona, búsett í Stokkhólmi, en hún er raunar ekki starfsmaður stofnunarinnar né félagi í samtökum póstmanna. Rétt er að geta þess að frú Svana Karlsson, sem hér um ræðir, hefur rækt þetta starf ötullega og á síðustu árum með aðstoð dætra sinna, en það hlýtur að teljast með öllu óeðlilegt að þessi mikilvægi þáttur í starfsemi stofnunarinnar sé unnin án samstarfs við þá deild sem söluna á að annast. Persónuleg sambönd eru mikilvæg í þessari sölustarfsemi og þess vegna afar óheppilegt að þau séu ekki beint við þá aðila sem söluna eiga að annast, þ.e. starfsmenn Frímerkjasölunnar. Hefur enda komið fyrir að starfsmenn hennar hafa ekki haft hugmynd um hvaða sýningum Íslendingar taka þátt í.

Það má margt fleira segja um þetta. T.d. vil ég geta þess að árið 1958 hófst útgáfa „fyrstadagsumslaga“ svokallaðra, og seljast nú um 25 þús. slík umslög hverju sinni. Stimplun á slíkum umslögum og raunar öðrum frímerkjum til safnara erlendis er hér heldur frumstæð og verður starfsmaður enn að handstimpla hvert umslag. Annars staðar hafa menn fyrir löngu tekið upp tölvuvæðingu við þetta verk. Einhver vél mun hafa verið keypt til stofnunarinnar, en starfsmenn hafa gefið þá skýringu að enginn tími hafi unnist til þess að koma þeirri vél í notkun.

Það er auðvitað mikilvægt að vandað sé til útgáfu frímerkja hverju sinni og magn hvers frímerkis sé skynsamlega ákveðið. Hér hefur sérstök nefnd það verkefni að ákveða útgáfu og hafa frímerkjasafnarar þar fulltrúa. Póststjórnin ákvarðar hins vegar magnið og er algengast að nýtt frímerki sé gefið út nú í 1 millj. upplagi. Starfsmenn Frímerkjasölunnar koma hins vegar hvergi nálægt þátttöku í ákvörðunum um nýjar útgáfur.

Hér skal staðar numið, herra forseti, þó að ég gæti haft margt fleira að segja um þetta mál. Ég mun doka við þar til svör hæstv. ráðh. hafa borist. En ég vil þó minna hann á að árið 1981 fól fyrrv. hæstv. samgrh. hópi manna að gera tillögur til úrbóta í málefnum Frímerkjasölunnar. Þeim tillögum var síðan skilað 1983, en lítið sýnist hafa verið gert með þær enn þá.

Ég tel fulla ástæðu til að óska upplýsinga um það hvort hér sé veruleg tekjulind vanrækt, sem telja verður undarlegt á tímum fjárskorts og niðurskurðar auk þess sem hér er um menningarstarf að ræða sem gæti verið öflug kynningarstarfsemi á landi og þjóð, enda hefur starfshópurinn, sem áður var nefndur, lagt til að tekið verði upp samstarf við Ferðamálaráð. En það er fyrst og fremst áhugavert að Íslendingar lærðu nú smátt og smátt að afla fjár á annan hátt en að fá það lánað. Því vænti ég að heyra skoðun hæstv. ráðh. og fyrirætlanir hans í þessum efnum.