04.06.1985
Sameinað þing: 92. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5889 í B-deild Alþingistíðinda. (5242)

514. mál, stefnumörkun í áfengismálum

Svar:

Nefnd sú, sem skipuð var af þáverandi ríkisstjórn vorið 1983, hefur skilað tvennum tillögum, annars vegar tillögum um sérstakar ráðstafanir í áfengismálum, sem bárust ríkisstjórninni í nóvember 1983, og hins vegar sérstökum tillögum í vímuefnamálum sem bárust ríkisstjórninni í febrúar 1984.

Þegar nefndin var stofnuð var gert ráð fyrir að hún hefði þrjú ár til starfa og á hún því að ljúka starfi sínu á árinu 1986.

Nefndin vinnur nú í þremur undirnefndum sem fást við tillögugerð um einstaka þætti áfengismálanna.

2. Hefur ríkisstjórnin markað afstöðu til þeirra áfengistillagna sem frá nefndinni hafa borist?

Svar:

Að tillögu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra tilnefndu þau ráðuneyti, sem hlut eiga að máli, þ. e. heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, dómsmálaráðuneytið, menntamálaráðuneytið og fjármálaráðuneytið, menn í nefnd til að draga út úr tillögunum þætti sem ríkisstjórnin gæti sameinast um, en samstaða náðist ekki í þeirri nefnd um afstöðu til málsins.

Ríkisstjórnin hefur því ekki sem heild tekið afstöðu til tillagnanna.

3. Hvaða þættir þessara tillagna eru það sem til þessa hafa hindrað að ríkisstjórnin tæki ákvörðun í þessum málum?

Svar: Tillögurnar sem heild gera ráð fyrir harðari stefnu hvað snertir aðgengi að áfengi og heimildir til vínveitinga, en svo sem ljóst er af afstöðu sveitarstjórnarmanna og dómsmálaráðuneytis til fjölgunar áfengisútsala og vínveitingaleyfa fellur þetta ekki saman við skoðanir nefndarinnar.

Þá má minna á að fyrir Alþingi hafa legið tillögur um breytingar á áfengismálastefnu. Það var eðlilegt að ríkisstjórnin fylgdist með afstöðu þingmanna til þeirra áður en hún afgreiddi tillögur nefndarinnar og tæki ákvarðanir í þessum málum.

4. Hvaða þáttum tillagnanna hyggst heilbrigðisráðherra beita sér fyrir að hrinda í framkvæmd?

Svar:

Það virðist ljóst að tillögum þeim, sem nefndin sendi frá sér sem bráðabirgðatillögur, verður ekki hrint í framkvæmd og er sennilegast að ríkisstjórnin bíði eftir lokatillögum nefndarinnar. Þá mun heilbrigðisráðherra taka afstöðu til málsins.

5. Er þess að vænta að næsta haust verði lögð fram tillaga um stefnu í áfengismálum eða frumvörp um einstök málefni sem nefndin hefur skilað tillögum um til ríkisstjórnarinnar?

Svar: Þess er vænst að nefndin geti sent frá sér tillögur á næsta hausti til ráðherra um áfengisvarnir, upplýsingastarfsemi og rannsóknir og um fyrirkomulag meðferðarstofnana.

Það fer eftir því hvaða samstaða næst í ríkisstjórn um þær tillögur hvernig málinu vindur fram á þessu ári.