04.06.1985
Neðri deild: 82. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5891 í B-deild Alþingistíðinda. (5244)

470. mál, Þroskaþjálfaskóli Íslands

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég ætla ekki að tefja þetta mál en vegna þess að mér gafst ekki tækifæri til þess að tjá mig um það, hvorki í 1. né 2. umr., þá vil ég grípa þetta tækifæri til að segja nokkur orð.

Ég fagna því að hv. heilbr.- og trn. hefur fallist á brtt. sem við hv. þm. Kristín Halldórsdóttir höfum flutt við frv. til l. um Þroskaþjálfaskóla Íslands. Þetta frv. hefur fengið ítarlega umfjöllun, bæði í n. og einnig hafa einstakir nm. kynnt sér málið og rætt það við hagsmunaaðila og aðra. Er það ekki síst vegna þess að þetta frv. grípur á umdeildu grundvallaratriði í menntamálum.

Þroskaþjálfaskólinn heyrir reyndar ekki undir menntmrn. eins og flestir aðrir skólar og væri e. t. v. eðlilegra að hann heyrði þar til. Enn fremur er þessi skóli og reyndar stétt þroskaþjálfa í núverandi mynd mjög ung að árum og hafa því ekki enn haslað sér skýrt afmarkaðan starfsvettvang. Það má segja að í reynd fari hagsmunir þroskaheftra og þroskaþjálfa ótvírætt saman en báðir þessir hópar hafa átt undir högg að sækja. Þroskaþjálfar leggja megináherslu á það að skóli þeirra færist á hærra menntunarstig þannig að þeir sem hafa lokið námi í skólanum eigi rétt á framhaldsnámi í háskóla. Þess vegna er þess krafist að eitt af megininntökuskilyrðum í skólann sé stúdentspróf eða hliðstætt nám. Þessi krafa er til komin vegna þeirra breytinga sem orðið hafa á námi þroskaþjálfa og eru í samræmi við vaxandi almenna kröfu um aukna menntun. Enn fremur til að standa jafnfætis þeim stéttum sem sækjast eftir að sinna þroskaheftum, þ. e. fóstrum og kennurum. Þar að auki ríkir sú almenna vænting meðal manna að aukinni menntun fylgi hærri laun og er ekki óeðlilegt að slíkt gæti verið einn orsakaþáttur í þessu máli.

Vil ég nú víkja að því grundvallaratriði sem ég gat um áðan og taldi umdeilt. Sífellt fleiri stéttir sækjast eftir því að þrengja inntökuskilyrði í skóla sína, miða við stúdentspróf og færa þannig menntun sína á hærra stig. Er þarna ekki síst um að ræða ýmsar umönnunarstéttir sem gæta, sinna eða hjúkra lifandi mannverum, bæði heilbrigðum og sjúkum, fullfærum eða fötluðum. Hefur það verið álitin vænleg leið til að reyna að breyta því verðmætamati sem hefur dæmt þessar stéttir til allt of lágra launa og takmarkaðrar virðingar í þjóðfélaginu. Þó er það því miður ekki alltaf erindi sem erfiði og það sem upp er skorið eru allt of oft menntaðar láglaunastéttir.

Það er kannske engin tilviljun að meginþorri þeirra sem þessar stéttir skipa eru konur og þau störf sem um ræðir oft í beinu framhaldi af þeim störfum sem konur hafa sinnt á heimilum sínum í aldanna rás. Eins og margoft hefur komið fram hér á þingi vantar mikið á til þess að vinnuframlag kvenna sé réttilega viðurkennt, hvort heldur sem er inni á heimilunum eða úti á vinnumarkaðnum. Því er það að mínu mati röng stefna og mikil öfugþróun að hver stéttin af annarri skuli finna sig knúna til þess að skella þeirri hurð, sem stúdentsprófið er, á stóran hóp fólks og meina því þannig aðgang að störfum sem það hefði e. t. v. ríka hæfileika til að gegna þótt það hafi ekki stúdentspróf. Að vísu hefur þeim fjölgað sem ljúka stúdentsprófi en það er samt sem áður stór hópur fólks sem ekki tekur slíkt próf og hvaða menntunar- og starfsþjálfunarbrautir verða þá eftir handa þeim hópi?

Það er að sjálfsögðu réttmæt og eðlileg krafa að biðja um meiri menntun í samræmi við aukna þekkingu og skilning á verkefnum og viðfangsefnum þannig að hinum ýmsu umönnunarstörfum sé sinnt af upplýstu og hæfu fólki. Hins vegar megum við ekki gleyma því að margir þeir eiginleikar, sem einna farsælastir eru í umgengni og samskiptum við manneskjur, einkum þær sem minna mega sín, verða illa mældir til einkunnagjafar.

Þess ber þó að gæta að hér er um að ræða fámenna og tiltölulega unga starfsstétt sem vissulega á undir högg að sækja. Það er því ekki rétt að mínu mati að ætla að snúa við þeirri öfugþróun sem orðin er einungis með því að breyta lögum um þessa einu stétt. Slíkt væri ómaklegt. Mun réttara væri að taka á þessum málum á heildstæðan, samræmdan hátt. Því höfum við flutt þá brtt. sem hér hefur verið gerð að till. n. í því skyni að samræma sjónarmið. Enn fremur leggjum við til lengri starfsreynslutíma því að miklu varðar að þeir sem sinna hinum erfiðu og krefjandi störfum þroskaþjálfa geri sér fulla grein fyrir því að hverju þeir ganga.

Ég vona því að lokum að þetta frv. fái skjóta og góða afgreiðslu hér á þinginu.