05.06.1985
Efri deild: 88. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5906 í B-deild Alþingistíðinda. (5259)

Afgreiðsla þingmála í efri deild

Forseti (Stefán Benediktsson):

Vegna frétta í dagblöðum í dag vil ég segja eftirfarandi:

Þar er vitnað til orða forsrh. þar sem hann segir: „Ég vek athygli á því að efri deild Alþingis er ekki með neinn fund í dag“ — þá á hann við gærdaginn — „og lauk störfum mjög snemma í gær. Þó er fjöldinn allur af málum í nefndum hjá Ed. Mér sýnist að af því megi merkja að mönnum liggi ekki mikið á að ljúka þingstörfum.“

Þessu vil ég andmæla með þeim hætti að ég tel að það hafi ekki staðið neitt á afgreiðslu mála í þessari deild. Ég veit að það er rétt að mörg mál eru í nefndum hjá Ed., en af því tilefni má minna á að mörg þessara mála eru mjög stór mál komin frá ríkisstj. mjög seint og því ekki á neinn hátt óeðlilegt þó að afgreiðslu þeirra sé ekki lokið enn þá. Þó standa vonir til þess að menn reyni allt það sem þeir geta til þess að ljúka þeim málum sem þörf er talin á.