06.11.1984
Sameinað þing: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 780 í B-deild Alþingistíðinda. (526)

65. mál, sala á íslenskum frímerkjum erlendis

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég þakka hv. 10. landsk. þm. fyrir þessa fsp. Ég tel að hér hafi verið hreyft mjög merku máli. Mig undrar það ekkert þó hæstv. samgrh. beri sig illa yfir því að spurt sé um fleira en ráðh. hefur undir höndum upplýsingar um, því að það kom fram í máli hv. 10. landsk. þm. að hún hefur kynnt sér mjög vel þetta mál. Og niðurstaðan er einfaldlega sú, að jafnvel í þessum málaflokki getum við margt lært af Færeyingum. E.t.v. þurfum við að fá ráðgjafa frá Færeyjum til að fræða póst- og símamálastjórnina íslensku um það hvernig eigi að standa að sölumálum á frímerkjum.