05.06.1985
Efri deild: 88. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5906 í B-deild Alþingistíðinda. (5260)

Afgreiðsla þingmála í efri deild

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að taka undir þau orð sem forseti vor mælti hér og gerði að umtalsefni viðtal við forsrh. í Morgunblaðinu í dag. Ég verð að segja að stjórnarandstaðan, hvort sem það er í þessari hv. deild eða Nd., hefur ekki verið að tefja eða þvælast fyrir gangi og afgreiðslu mála hér á þinginu það sem af er. — Ég sé, herra forseti, að hæstv. forsrh. hefur vikið sér úr salnum og ég mun gera hlé á máli mínu þangað til hann kemur hingað aftur. (Forseti: Hann bað leyfis að mega fara og ná í gögn víðvíkjandi þessu máli.)

Það er haft eftir hæstv. forsrh. í Morgunblaðinu, með leyfi forseta:

„...en ég hef sagt það, og stend við það, að ég hef ekki viljað vera í neinum samningum um það við stjórnarandstöðuna hvaða mál verða afgreidd á þinginu. Það er e. t. v. óvenjuleg afstaða, en ég met það svo að ekki sé ástæða til slíkra samninga.“

Nú spyr ég: Á að taka hér upp alveg ný vinnubrögð? Ég hef að vísu ekki langa þingreynslu, þó síðan 1978, og ævinlega hefur verið einhvers konar samstarf, samstaða, samráð. Ég segi ekki að menn hafi verið sammála, en menn hafa rætt um það með hvaða hætti skyldi haga vinnubrögðum í þinginu. Þessi yfirlýsing hæstv. forsrh. tekur af öll tvímæli um að ríkisstjórnarflokkarnir vilja ekki neitt samstarf eða neina samvinnu við stjórnarandstöðuna um það hvernig vinnubrögðum í þinginu verður háttað.

Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa ekki rætt það í sinn hóp hvernig brugðist verður við þessu, en þeir munu gera það. Og ég verð að segja að þessi yfirlýsing forsrh. vekur mér afar mikla furðu, vegna þess að ég man ekki og rekur ekki minni til þess að yfirlýsing svipuð þessari hafi áður komið frá oddvita ríkisstjórnar. Ég held að það væri nú vit í því að stjórnarflokkarnir reyndu að koma sér saman um eitthvað í sambandi við landsstjórnina eða í sambandi við þinghaldið því að það liggur fyrir og er augljóst að þar er ekki samstaða um eitt eða neitt. Það er auðvitað skýringin á því að við sitjum hér enn að þingstörfum svo síðla vors að samkomulag er ekkert í ríkisstj. um það hvaða mál eigi að afgreiða. Við höfum rekið okkur á það, t. d. á fundum hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar þar sem hafa verið haldnir tæplega 40 fundir og þar sem sannarlega hefur ekki staðið á því að afgreiða mál, að það er engin samstaða um stóru málin innan stjórnarflokkanna. Það er ekki verið að ljóstra upp neinu leyndarmáli þó að sagt sé að þegar frv. um atvinnuvegasjóðina var til umræðu á nefndarfundi í morgun kom einn af þm. stjórnarliðsins, sem gegnir trúnaðarstöðu í stofnlánadeildinni, og lýsti því yfir að hann mundi aldrei standa að afgreiðslu þess máls með þeim hætti sem til er stofnað og eins og það stendur nú.

Ég verð svo sannarlega að ítreka að ég hygg að þessi yfirlýsing forsrh. sé einsdæmi. Það stendur ekki á okkur, a. m. k. ekki þm. Alþfl., að sitja hér á þingi svo lengi sem þurfa þykir. En ég hika ekki heldur við að fullyrða að ef þetta er afstaða ríkisstj. og stjórnarflokkanna, að það verði ekkert samráð, engin samvinna um þingstörfin núna þessar síðustu vikur, þá er það nú ekki beinlínis fallið til að greiða fyrir framgangi mála. Satt að segja skil ég ekki hvað liggur að baki slíkri yfirlýsingu eins og hér er gefin í Morgunblaðinu í dag og er höfð eftir hæstv. forsrh.