05.06.1985
Efri deild: 88. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5909 í B-deild Alþingistíðinda. (5262)

Afgreiðsla þingmála í efri deild

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Skv. upplýsingum sem ég fékk hjá skrifstofu Alþingis í gær, 4. júní, eru 43 mál í nefndum í þessari hv. deild. Ég ætla að fara aðeins yfir það.

Hjá allshn. eru fimm mál, þar af tvö stjfrv. Þau eru þrjú í fyrri deild og tvö í síðari deild. Það fyrsta er lagt fram 29. okt., kom til n. 29. okt. Það síðasta kom 18. febrúar. Það er í fyrri deild.

Hjá fjh.- og viðskn. Ed. eru 18 mál. Þar af eru 17 mál í fyrri deild, eitt mál í síðari deild. Það er rétt, að sjö mál hafa komið til nefndarinnar í maí. Ég viðurkenni það. Það er of seint. En ellefu mál komu til n. í apríl eða fyrr og sum fyrir áramót. (EKJ: Það er rétt að forsrh. kynni sér hvaða mál þetta eru.) Já, já. Ég kem að því. Þarna eru vissulega mál sem okkur er ljóst að fara alls ekki í gegn, eins og virðisaukaskattur, og hefur engin áhersla verið lögð á það núna þótt áhersla væri lögð á það fyrr. En þarna eru líka mál eins og þinglýsingalög sem eru búin að vera þarna nokkuð lengi. Það eru eflaust ástæður fyrir því að nefndin hefur ekki treyst sér til að afgreiða þessi mál.

Sérstaklega var minnst á sjóði atvinnuveganna. Ég skal segja hv. þm. hvenær sú nefnd sem að þessu máli vann, og vann mjög ötullega og vel að því að mínu mati, átti viðræður við fulltrúa atvinnuveganna og stjórnir viðkomandi sjóða. Það er undarlegt að heyra svona yfirlýsingu því í skýrslu þeirri sem ég fékk frá nefndinni kemur greinilega fram að hún hefur átt viðræður við þessa menn. Hins vegar er andstaða ekkert undarleg. Það er yfirleitt andstaða gegn því að breyta. Menn vilja ekki breyta. Menn vilja hafa hlutina óbreytta þó þeir tali um annað í hátíðaræðum. Út af ummælum um sjóðina, þá lít ég á það sem mikilvægt í sambandi við sjóðina að viðkomandi atvinnuvegum er gefið frelsi til að ráða málum þar, en ekki allt bundið í lagaramma eins og nú er. Ég tel það ákaflega mikilvægt mál. Ég get upplýst að ég ræddi þetta mál við fulltrúa bænda eftir að það var komið í lokabúning og þá sögðu þeir að þeir sæju ekki ástæðu til þess að málið væri dregið eins og það var þá komið fyrir.

Ég vil líka taka fram að ég tek ekki gott og gilt frá bændum að það megi ekkert breytast á meðan allt stefnir í óefni. (Grípið fram í: Gerðu grein fyrir því.) Kemur ekki til mála. Það er hvergi meiri þörf á breytingum en þar og þeir sem vilja hafa allt óbreytt. þó að það komi kannske ekki þessu máli við því, það tek ég undir, þetta ræður ekki sköpum, þeir sem ekki vilja breytingar, þeir vilja enn meiri óefni. Því við ráðum ekki við málin eins og þau þróast núna.

Um er að ræða tilraun til þess að opna sjóðina, m. a. til þess að sjóðirnir megi lána í fiskeldi, til þess að Fiskveiðasjóður megi gera það, megi lána í fiskeldi ef hann óskar. Hann getur það ekki nú. Það þarf lagabreytingu til. Og ég held að það sé margt gott í þessu þó ég efist ekki um að þeir sem ráða þessum sjóðum í dag vilja ekki breytingar. Það er ætíð svo. En þarna eru sem sagt 18 mál. Það er alveg rétt, sem kom fram hjá formanni nefndarinnar, að talan segir ekki allt og mörg þeirra eiga ekki að fara í gegn, en þetta er töluverður fjöldi mála og þar af 17 í fyrri deild.

Í landbn. eru fjögur mál, tvö stjfrv. Þar kom eitt mál til nefndarinnar 25. maí. Hin komu öll fyrir þann tíma. Og það eru þrjú mál í fyrri deild eitt í síðari deild.

Í iðnn. eru fjögur mál og þar af eru þrjú í fyrri deild, eitt í síðari deild, þar af tvö stjfrv. Þar kom eitt mál til nefndarinnar í maí. Hin komu fyrir mánaðamótin, fyrir byrjun maí.

Í sjútvn. er eitt frv. sem kom þangað 29. október. Það kann að vera þmfrv. Ég þekki ekki hvernig því er háttað.

Í heilbr.- og trn. eru fjögur mál og þau eru öll í fyrri deild. Hvert einasta þeirra er í fyrri deild. Þrjú af þeim komu til n. rétt eftir áramót. Það er nú skráð hér 17. janúar, en getur varla verið rétt. Var þing þá komið saman? En þau hafa verið nokkuð lengi hjá nefndinni. Eitt hefur komið þangað núna seint í maí sem er þmfrv.

Í félmn. eru tvö mál sem hafa verið þar síðan fyrir áramót og eru bæði þmfrv.

Í menntmn. eru fimm frv., þar af fjögur stjfrv., og þau hafa — það er alveg rétt — komið þangað nokkuð seint, er, tvö þeirra eru í síðari deild.

Af þessum málum eru sem sagt 20 stjfrv. af 43 frv. sem liggja í nefndunum. Ég tek það fram að það segir vitanlega alls ekki alla söguna.

Ég áfellist ekki hv. Ed. fyrir að hafa ekki fund því að það voru engin mál í gær til að halda fund um. En ég endurtek að ég tel að ýmislegt af því sem hér er í nefndum mætti hafa komið frá nefndunum til deildarinnar töluvert fyrr. Ég tel það og hef ekki heyrt skýringar á því af hverju svo megi ekki verða.

Ég hef ekki heldur áfellst stjórnarandstæðinga, alls ekki. Það hefur ekkert staðið á stjórnarandstæðingum, við skulum láta það koma hreint fram, alls ekki. Og það er alveg rétt að þrátt fyrir að búið er að ræða um mörg þessi mál í allan vetur á milli stjórnarflokkanna hafa þm. stjórnarflokkanna í mörgum tilfellum tafið fyrir málum fremur en stjórnarandstæðingar. Það er alveg óþarfi fyrir stjórnarandstæðinga að vera að rjúka upp. Ég áfelldist þá ekki einu orði og ætti raunar að þakka þeim fyrir góða samvinnu á þinginu. En ég verð að segja eins og er, það á við bæði um minn flokk og samstarfsflokk, að það kemur mér dálítið undarlega fyrir sjónir, þó að það sé okkar mál út af fyrir sig og komi kannske ekki deildinni við, að þótt búið sé að ræða ýmis mál aftur og aftur á þingflokksfundum í allan vetur og maður haldi að orðið sé samkomulag um málið er það svo að þegar til nefndarinnar kemur stendur oft ekki síst á okkar mönnum. Ég veit að hæstv. fjmrh. getur tekið undir það með mér.

Ég endurtek að ég hef ekki áfellst stjórnarandstæðinga í þessu sambandi og ég hef ekki áfellst Ed. því að þegar málin hafa komið til deildar hafa þau yfirleitt fengið skjóta afgreiðslu. En ég endurtek að mér þykja það ekki rétt vinnubrögð þegar mál sitja vikum og mánuðum saman í nefndum og á að taka þau strax til meðferðar. Síðan verður það að sýna sig hvort menn treysta sér til að afgreiða þau.