05.06.1985
Efri deild: 88. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5911 í B-deild Alþingistíðinda. (5264)

Afgreiðsla þingmála í efri deild

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég verð að víkja að því að þær tölur sem hæstv. forsrh. las upp úr tölvulistanum eru annaðhvort gamlar eða hann hefur farið línuvillt. Ég sé alls ekki að þær komi heim og saman við þá vitneskju sem nm. búa yfir um stöðu mála í nefndinni. En formaður fjh.- og viðskn., hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, mun gera grein fyrir þessari stöðu hér á eftir. Ég heyri að hann hefur þegar kvatt sér hljóðs.

Ræða hæstv. forsrh. áðan var afar athyglisverð. Ég held að sjaldgæft sé að forsrh. víki að sínum stuðningsmönnum með þeim hætti sem hann gerði áðan og vék gagnrýni til nefndaformanna. Þeir eru allir úr stuðningsmannahópi stjórnarinnar. Það eru hæg heimatökin hjá ráðherrunum á ríkisstjórnarheimilinu að tugta þá til ef þeir eru ekki nógu starfsamir og gengur ekki nógu greitt undan í nefndum. Ég held nefnilega að það hafi verið mistök hjá þessari ríkisstj. að velja alla nefndaformenn úr hópi stjórnarsinna. Ég hygg að reynslan hafi sýnt að þegar stjórnarandstæðingar gegna formennsku í nefndum ganga mál ekki lakar.

Það sem þó var allra athyglisverðast við yfirlýsingu hæstv. forsrh. í ræðu hans áðan var að ég heyri ekki betur og sé ekki betur en þessu stjórnarsamstarfi sé í rauninni lokið. Hvað sagði hæstv. forsrh. hér? Hann sagði að það væru stjórnarsinnar sem tefðu framgang mála í nefndum. Hann sagði það skýrt og skorinort og margendurtók að hann hefði ekkert við stjórnarandstöðuna að sakast. Þetta stjórnarsamstarf er búið. Því er lokið. Það er ekki samstaða innan ríkisstj. um þau meiri háttar mál sem nú eru á döfinni. Þetta kom afar skýrt fram hjá hæstv. forsrh. Og þetta er auðvitað mjög merkileg yfirlýsing sem sýnir nákvæmlega hvernig staðan er á ríkisstjórnarheimilinu þessa dagana. Það er engin samstaða. Stjórnarsamstarfið er runnið út í sandinn og ríkisstj. situr klossföst í öngstræti úrræðaleysis, eins og ég einhvern tíma komst að orði.

Ég vil að lokum aðeins segja að hæstv. forsrh. vék ekki einu orði að þeirri yfirlýsingu sem ég gerði að umtalsefni í ræðu minni hér áðan og sem höfð var eftir honum í Morgunblaðinu í dag varðandi samstarf um þingstörfin. Ég lýsi því yfir af hálfu míns flokks að að óbreyttu munum við ekki mæta á neinum fundi eða taka þátt í neinum viðræðum við ríkisstj. um framhald þingstarfanna eða það að greiða götu mála hér síðustu vikur þingsins. Meðan þessi yfirlýsing forsrh. stendur óhögguð stendur sú afstaða okkar líka óhögguð.