05.06.1985
Efri deild: 88. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5913 í B-deild Alþingistíðinda. (5267)

Afgreiðsla þingmála í efri deild

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég hélt satt að segja þegar ég sá Morgunblaðið í morgun að hæstv. forsrh. hefði mismælt sig eða blaðamaður tekið rangt eftir hans orðum, en það var víst ekki svo, eftir hans orðum hér og yfirlýsingum áðan að dæma og jafnvel aðdróttunum um að ekki væri vel starfað í nefndum. Ég kemst auðvitað ekki hjá því að gera hreint fyrir mínum dyrum þar sem ég er formaður í n. í þessari hv. deild, fjh.- og viðskn., og skal nú lesa upp hvaða mál eru þar óafgreidd.

Málafjöldinn í nefndinni er, hæstv. forsrh., samtals 39 og hvað er óafgreitt? Það er 8. mál, tekjuskattur og eignarskattur. Það er þmfrv. sem ekki er lögð áhersla á að sé afgreitt. Það er 10. mál, stálvölsunarverksmiðja. Hæstv. fjmrh. ætti að geta upplýst hvort það hefur staðið á mér þar. Það er eftir ósk iðnrh. látið liggja og í samráði við fjmrh. Það er virðisaukaskattur. Forsrh. sagði að vísu áðan að það væri eðlilegt með hann og veit sjálfsagt manna best hvers vegna það er eðlilegt. Það er rétt skil afurðasölufyrirtækja til bænda, þáltill. sem ég sjálfur flyt og skal svo sannarlega reyna að fá afgreidda hér og samþykkta úr því að rekið er eftir því. Það er hagnýting Seðlabankahúss, till. sem ég hef líka flutt og skal sannarlega reyna að fá hana afgreidda hér í Ed. Það er sala Gullaugans og Áburðarverksmiðjunnar, till. sem ég flutti líka og ég skal svo sannarlega reyna að fá hana afgreidda. Þá er það fjárfestingarsjóður launamanna, flutt af hv. þm. Ragnari Arnalds sem ekki hefur lagt áherslu á að afgreiða það, enda er hann sjálfur í n. og það er á hans valdi að afgreiða frv. hvenær sem honum sýnist. Kannske ættum við að reyna það. Það er gjald af innfluttum fóðurblöndum. Hvernig ætli það standi? Og hver eru sjónarmiðin meðal allra sem láta sig málið varða, svínabænda, kjúklingabænda, eggjabænda o. s. frv.? Ef saka á mig fyrir að hafa ekki afgreitt það mál, þá kemur það nú úr hörðustu átt. Síðan er það landflutningasjóður sem er í tengslum við annað mál sem eru sjóðir atvinnuveganna sem forsrh. flytur. Þessi tvö mál eru óafgreidd. Við vorum á þriggja tíma fundi í n. núna samfleytt frá kl. 11 til kl. 2, að ræða þessi mál, hæstv. forsrh. Við vorum á þriggja tíma fundi að ræða sjóðamálin núna, tókum þau fyrir held ég í þriðja sinn, og við fengum forustumenn allra sjóða atvinnuveganna á okkar fund. Ég gat ekki heyrt að neinn þeirra mælti með því að þetta gæti farið í gegn eins og það er. Það er best að ræða það ekki frekar á þessu stigi. En það hefur svo sannarlega verið unnið í því máli. Og hvenær kom það til nefndarinnar? Það kom 23. maí. Hvað var lengi verið að semja frv. og hvað ætli þurfi miklu að breyta?

Þetta eru sem sagt málin. Síðan er frv. um launakjör bankastjóra. Það er þmfrv. sem kom til n. 29. maí. Við vorum að afgreiða núna húsnæðissparnaðarreikninga og mál sem fylgir því, tekjuskatt og eignarskatt. Það kom 31. maí til okkar. Þetta er upptalið, hæstv. forsrh.