05.06.1985
Efri deild: 88. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5915 í B-deild Alþingistíðinda. (5269)

Afgreiðsla þingmála í efri deild

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Fyrst vil ég segja að ég efa ekki að vinnubrögð dr. Gunnars heitins Thoroddsens hafi verið til fyrirmyndar, en ég ætla ekki að endurtaka hér það sem hann sagði við mig um sínar tilraunir til að fá þingi lokið. Ég kann ekki við það, það er maður sem ekki er meðal okkar lengur og mér finnst óviðeigandi að vitna í slíkt. Hann var oft ákaflega óþolinmóður yfir því hve seint gekk og það var ekki óeðlilegt.

Sá listi sem ég er með er dagsettur 4. júní af skrifstofunni. Vel kann að vera að nefndaformenn geti leiðrétt hann að einhverju leyti. Þá er þetta rangt hjá skrifstofunni og þarf nauðsynlega að koma leiðréttingu þangað. Hér stendur fjh.- og viðskn. Ed., 18 mál. Ég sagði margsinnis að ýmis þessara mála fara ekki í gegn. Ég nefndi stjfrv. eins og virðisaukaskatt t. d. Mér er líka kunnugt um að umferðarlög, sem eru í fyrri deild, fara ekki í gegn, ekki er lagt kapp á það. Ég verð hins vegar að segja eins og er, og getur hver láð mér það sem vill eða ekki, að öllum var kunnugt um það, hvort sem mönnum líkar málið eða líkar það ekki, að við vildum gjarnan að sjóðir atvinnuveganna færu í gegn. Þeir komu til nefndarinnar 23. maí. Síðan eru liðnir 12–13 dagar. Og það var tekið fyrir fyrsta sinn á alvörufundi, ef ég má orða það svo, í dag og var einu sinni áður nefnt á fundi. Ég verð að segja eins og er og menn geta tekið það illa upp ef þeir vilja að ég kann því illa að mál sem er búið að vera í meðferð hjá stjórnarflokkunum í langan tíma skuli þá a. m. k. ekki vera tekið fyrir strax og þeir kallaðir fyrir sem nefndin kýs að tala við. (EKJ: En af hverju ekki að lesa málið yfir?) Ja. það tekur nú varla 12–13 daga, hv. þm., auk þess sem hv. þm. er búinn að lesa þetta margsinnis yfir eflaust í flokknum sínum. Ég efa það ekki.

Út af því sem hér hefur verið sagt og haft er eftir mér í Morgunblaðinu. Fyrirsögnin er ekki mín og ég bið menn heldur að lesa það sem segir fyrir neðan sem er svohljóðandi:

... ég hef ekki viljað vera í neinum samningum um það við stjórnarandstöðuna hvaða mál verða afgreidd á þinginu. Það er e. t. v. óvenjuleg afstaða, en ég met það svo að ekki sé ástæða til slíkra samninga.“

Hvers vegna met ég það svo? M. a. vegna þess að það stendur bara á ýmsum stjórnarsinnum. Væri ekki best að segja það í hreinskilni að það er þá réttara að við gerum upp okkar mál fyrst? Er það ekki rétt? Og svo fyrirsögnin: „Semjum ekki við stjórnarandstöðuna.“ Það sagði ég ekki. Málin stóðu þannig og hafa staðið þannig.

En svo er það annað mál. Er það einhver algild og eilíf regla að Alþingi eigi að sitja frá 10. október og þangað til í maí? Það held ég ekki. Eitt sinn voru alþm. ekki launaðir á sumarmánuðum, bara þegar þing sat. Því var löngu breytt og það hafa margar raddir heyrst um það að þing ætti að standa lengur. Ég get vel trúað því. Það eru orðin miklu meiri umsvif í þessu þjóðfélagi en voru. Kannske væri réttara hins vegar að breyta því þannig að þing byrjaði fyrr. Það getur vel verið. En ég er á þeirri skoðun að eðlilegt sé að þing sitji lengur en frá 10. október til miðs maí.

Ég skal ekkert um það segja hvenær þingi lýkur. Þetta skýrist eflaust í þessari viku, hve mikið næst fram af málum og hvenær tekst að slíta þingi. Það er farið yfir þessi mál vandlega nú og eflaust verða mörg mál sem ekki fara fram þótt ríkisstj. hefði óskað þess, en það mun skýrast á næstu 2–3 dögum.