05.06.1985
Efri deild: 88. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5917 í B-deild Alþingistíðinda. (5274)

499. mál, ríkisbókhald

Frsm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Hv. fjh.- og viðskn. hefur rætt allítarlega um það mál sem hér er á dagskrá og annað frv. sem flutt var samhliða þessu um breyt. á lögum nr. 13/1979 svokölluðum Ólafslögum. Við skoðun í nefndinni, rækilega skoðun, urðu nm. ásáttir um að nánast væri ógerlegt að samþykkja frv. eins og þau voru fram lögð vegna þess að slík flækja væri þá komin í alla þessa löggjöf, en eins og þeim sem flett hafa lagasafni er kunnugt er búið að dreifa ákvæðum hinna svokölluðu Ólafslaga út um lagasafnið þvert og endilangt, en sú löggjöf var með þeim hætti að meginefni laganna voru ýmiss konar greinargerðir og stefnuyfirlýsingar, aths. ýmiss konar, stofnana og hagvísindamanna, sem ekkert erindi eiga í lög, áttu ekkert erindi þá og því síður að þau séu enn þá í lagasafninu. Þess vegna fengum við til aðstoðar hagsýsluna og fjmrn. í góðu samráði við hæstv. fjmrh. til að reyna að einfalda þetta. Ég vil nota tækifærið til að þakka þeim ágætu mönnum sem að þessu störfuðu, ráðuneytisstjóra, hagsýslustjóra og þeirra mönnum, alla þá aðstoð sem þeir létu okkur í té því að hér var um geysilega flókið og vandasamt mál að ræða.

Það hafa verið þrjú frv. í gangi í þinginu varðandi hin svokölluðu Ólafslög, lög nr. 13/1979. Fyrst flutti ég frv. til l. um að afnema þessi lög í heild sinni, en taka þá einstök ákvæði út úr sem kynnu að þurfa að vera í öðrum lögum og þá sérstaklega í sambandi við verðtryggingu sparifjár. Það var eiginlega eini kaflinn sem mér sýndist að þyrfti að verða áfram í lögum. Nú leggjum við til að úr þeim lögum verði numdir úr gildi III. og IV. kafli í heild sinni, en nokkur ákvæði úr þeim köflum verði sett inn í lög um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga, eins og nánar er greint frá í nál. sem útbýtt var hér í gær og menn hafa vafalaust kynnt sér. Þannig mundu öll þau ákvæði sem fjalla um ríkisfjármálin verða í einni og sömu löggjöfinni eins og vera ber. Síðan hefur verið, með öðru frv. sem samþykkt hefur verið hér í deildinni varðandi verðbætur á laun, afnuminn VIII. kafli laganna og hæstv. forsrh. hefur tjáð mér að hann hafi þegar gert til þess ráðstafanir að það sem eftir stendur af þessari löggjöf verði skoðað nánar á milli þinga og verði lagt fyrir þing í haust að afnema það sem eftir stendur að svo miklu leyti sem það má missa sig úr lagasafninu.

Ég held að ástæðulaust sé að ég fari mjög mörgum orðum enn um þetta. Í sjálfu sér er breytingin frá frv. eins og þau eru lögð fram ekki mikil efnislega, en hins vegar voru það merk frv. að því leyti að þau gera ráð fyrir að setja ríkisreikninginn upp með allt öðrum hætti en áður hefur verið gert. Það var sýnt í fjárlagafrv. í haust hvernig fjárlög hefðu litið út ef gert hefði verið upp eins og reglur Afþjóðagjaldeyrissjóðsins segja til um. Með þessum frv. er gert ráð fyrir að nálgast slíkt uppgjör þannig að t. d. verði getið um öll þau atriði sem í lánsfjárlögum eru í 1. gr. frv. og þannig að fjárreiður ríkisins verði á einum stað og menn geti þess vegna áttað sig betur á því máli öllu.

Ég verð að segja það eins og er að þegar ég tók við formennsku í hv. fjh.- og viðskn. og fór að vinna í þessu í fyrravetur á þinginu varð mér það fullljóst og er viðurkennt að svo erfitt er að átta sig á ríkisfjármálunum í heild að nánast er óvinnandi vegur með þeim hætti sem nú er þar sem t. d. ýmiss konar heimildir til lántöku og ríkisábyrgðar o. s. frv. eru í fjárlögum sjálfum. Síðan eru óteljandi sérlög, eins og menn þekkja, sem heimila t. d. ríkisábyrgðir og loks koma svo lánsfjárlög. Ég held að allir séu sammála um að þarna þurfi að gera bragarbót, enda skrifa allir nm. í hv. fjh.- og viðskn. upp á þetta nál.

Ég vil geta þess hér, skjóta því inn í, að hér hefur verið dreift nál. um frv. til l. um afnám laganna frá 13. apríl 1979 og verður það væntanlega tekið á dagskrá hér á eftir, en þar er lagt til að því verði vísað til ríkisstj. með þeim skýringum, sem ég áðan gaf, að hæstv. forsrh. hefur þegar gert ráðstafanir til að unnið verði að því að nema þau úr gildi.

En hérna er sem sagt um stóran áfanga að ræða í átt til þess að hverfa frá þeirri ringulreið, held ég maður verði að kalla það, sem mjög lengi hefur gætt við fjárlagagerð og reyna að koma á það heillegri mynd. Þessi hreingerning á áreiðanlega eftir að bera mikinn ávöxt og þó að orð hafi nú verið látin falla um að við gerðum lítið í hv. fjh.- og viðskn. held ég þó að þetta sýni að eitthvað hafi verið þar gert.

En ég skal sem sagt ekki hafa um þetta fleiri orð. Nál. skýrir sig sjálft. Það er verið að gera þarna hreingerningu og koma betra lagi á uppsetningu allra fjárlaganna og lánsfjáráætlunar, þannig að alþm. og þjóðin öll geti betur áttað sig á því hvað raunverulega sé á fjárlögum, t. d. hvað sé staðreynd um greiðsluhalla og hvað sé um rekstrarhalla, að menn hafi þetta allt á einum og sama staðnum, og það er vel.