05.06.1985
Efri deild: 88. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5920 í B-deild Alþingistíðinda. (5276)

499. mál, ríkisbókhald

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fjh.- og viðskn. fyrir vel unnin störf í sambandi við það frv. sem hér er á dagskrá, þ. e. frv. til l. um breyt. á lögum nr. 52/1966, um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga, sbr. lög nr. 31/1982, um breyting á þeim.

Ég ætla ekki að fjölyrða um það sem kom fram hjá hv. 3. þm. Norðurl. v. Hann verður sjálfur að hafa áhyggjur af því hvað blaðamenn eða ritstjórar dagblaðanna skrifa um mál sem koma fram á Alþingi og þá þetta mál líka. En ég fagna því að nefndin hafi orðið sammála um að frv. þetta sé til bóta, það gefi nánari og betri upplýsingar um ríkisfjármál og fjárlögin þannig að á einum stað hafi bæði þm. og aðrir landsmenn meiri upplýsingar um fjármál þjóðarinnar þó svo að hugsanlega væri hægt að gera þetta enn þá betur úr garði. En það verður þá að bíða betri tíma að gera þær breytingar.

Ég skal ekkert segja um hvort það er til bóta fyrir okkur Íslendinga eða fyrir aðrar þjóðir að ríkisfjármál og fjárlög fylgi hugmyndum og óskum alþjóðastofnana um uppsetningu, en þó er tvímælalaust til bóta að fara verulega mikið eftir þeim ábendingum sem þaðan hafa komið. Í þessu frv. er sótt um heimild til að telja tiltekna opinbera starfsemi til A-hluta ríkissjóðs. Þetta er í áttina að tillögum Afþjóðagjaldeyrissjóðsins þó ekki sé farið alfarið eftir óskum þaðan. En ég vil sem sagt þakka hv. fjh.- og viðskn. fyrir vel unnin störf í þessu máli.

Virðulegi forseti. Ég verð að segja nokkur orð um annað mál ef ég hef orðið, en það getur vel verið að það sé ágreiningur um það.

Ég hafði hugsað mér að segja nokkur orð sem fjmrh. um þær umr. sem fóru fram utan dagskrár fyrr á þessum fundi, en svo vildi til að ég var kallaður í símann og umr. var lokið þegar ég kom til baka. Ég hafði hugsað mér að taka þátt í þeim á þann hátt að það kæmi fram að ég vil þakka og undirstrika mjög gott samstarf við fjh.- og viðskn. hv. Ed. Að mínu mati hefur það samstarf verið mjög gott. Það á sérstaklega við félaga minn og flokksbróður, formann nefndarinnar, Eyjólf Konráð Jónsson, sem að mínu mati hefur unnið frábært starf sem formaður nefndarinnar. Ég sem fjmrh. þakka þessa góðu afgreiðslu og vil að það verði skráð í þingtíðindi að nefndin í heild og formaðurinn hafi áunnið sér virðingu mína og þakklæti fyrir þetta góða starf og samstarfið sem ég hef átt við hana.