06.11.1984
Sameinað þing: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 782 í B-deild Alþingistíðinda. (528)

65. mál, sala á íslenskum frímerkjum erlendis

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Vestf. kaus auðvitað að leggja vitsmuni inn í þessar umr. eins og hans var von og vísa. En til þess að fyrirbyggja allan misskilning þá er það hrein fjarstæða hjá honum að ég hafi verið að bera mig eitthvað illa. Ég var aðeins að svara hér fsp. Hann má auðvitað leggja það út eins og hans náttúra stendur til fyrir mér. Ég mun hvorki bera mig vel eða illa yfir því.

Varðandi frímerkjasöluna og frímerkjaútgáfu er það rétt, eins og hv. fyrirspyrjandi sagði, að sérstök frímerkjaútgáfunefnd hefur nýlega verið skipuð af því að skipunartími hinnar var liðinn. Ég held að yfirleitt hafi tekist nokkuð vel um útgáfu frímerkja á Íslandi. Um það er ekki deilt verulega. Það hafa verið gefin út einstaka frímerki sem menn hafa ekki verið ásáttir með, en mörg íslensk frímerki hafa verið sérlega falleg og vel hönnuð.

Þessi nefnd hefur sjálfstætt verksvið eins og við vitum og auðvitað eru takmörk fyrir því hversu margir fulltrúar eiga að vera. Póstmálafulltrúi á sæti í þessari nefnd, maðurinn sem ræðir við og hefur höfuðsamskipti við póststjórnir allra annarra landa og þar af leiðandi um leið þá sem hafa áhuga fyrir frímerkjum. Því er enginn hlutur eðlilegri en að hann eigi aðild að þessari nefnd.

Það er verið að undirbúa ýmsar breytingar í sambandi við frímerkjasöluna sem ég ætla ekkert að tíunda hér, tölvunotkun o. fl. Þessi mál hafa verið rædd í sumar við póst- og símamálafulltrúa og framkvæmdastjóra þeirrar stofnunar sem þessi deild heyrir undir. Mál sem þessi verða ekki leyst á örstuttum tíma, en vitaskuld má margt betur fara. Það bið ég menn að hafa hugfast að ég er ekki að segja að hér sé allt slétt og fínt og engrar breytingar sé þörf, síður en svo.